Afkoma A-hluta sveitarfélaga landsins versnaði til muna árið 2022 miðað við reksturinn 2021, en hallarekstur meira en tvöfaldaðist í heildina, þó staða einstakra sveitarfélaga hafi reynst misjöfn. Ástæður erfiðari reksturs eru ýmsar og misjafnar en…

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Afkoma A-hluta sveitarfélaga landsins versnaði til muna árið 2022 miðað við reksturinn 2021, en hallarekstur meira en tvöfaldaðist í heildina, þó staða einstakra sveitarfélaga hafi reynst misjöfn. Ástæður erfiðari reksturs eru ýmsar og misjafnar en í heildina munar langmest um aukna verðbólgu og hærri vexti.

Þetta má lesa úr lykiltölum úr ársreikningum sveitarfélaga, sem Samband íslenskra sveitarfélaga (SS) tekur saman.

Ársreikningar 61 af 64 sveitarfélögum landsins fyrir árið 2022 liggja nú fyrir, en þar búa meira 99% landsmanna. Þar er auðvelt að bera saman stöðu hinna ýmsu sveitarfélaga þegar litið er á A-hlutann, þ.e.a.s. þann hluta rekstrarins, sem er lögboðinn og rekinn fyrir skattfé.

Lakari árið 2021

Afkoma A-hluta sveitarfélaga árið 2022 var töluvert lakari en árið 2021. Rekstrarafgangur þeirra var neikvæður líkt og árið áður en hallinn vel ríflega tvöfaldur í heildina frá því sem var árið áður. Samanlagður halli sveitarfélaganna nam um 21,1 milljarði króna árið 2022, samanborið við 8,5 ma.kr. halla árið á undan. Í hlutfalli við tekjur var hallinn 4,6% af tekjum 2022, en 2,1% árið á undan.

Aukin verðbólga og hækkun vaxta eru helsta skýringin á verri afkomu sveitarfélaga í fyrra en árið áður. Fjármagnsgjöld að frádregnum fjármagnstekjum hækkuðu þannig milli ára um 11,7 ma.kr., en til samanburðar jókst hallinn um 12,6 ma.kr. Rekstrarafgangur án fjármagnsliða var jákvæður um 0,4% af tekjum 2022 en 0,6% árið áður.

Óhætt er að líkindum að gera ráð fyrir mun þyngri rekstri í ár, enda verðbólga reynst erfiðari viðureignar en ráð var fyrir gert og vextir hærri, en þeir kunna enn að hækka.

Rekstur A-hluta skilaði veltufé sem nam 3,7% af tekjum árið 2022, en árið áður var hlutfallið örlítið hærra eða 3,9%. Fjárfestingar A-hluta voru um 62 ma.kr. árið 2022 en voru 46 ma.kr. árið á undan. Til fjárfestinga var varið 13,6% af tekjum árið 2022 og 11,5% árið 2021.

Höf.: Andrés Magnússon