Linda Hrönn Þórisdóttir
Linda Hrönn Þórisdóttir
Bakslag er komið í viðræður um sameiningu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) og Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness (HEF) sem áform voru um fyrir skömmu

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Bakslag er komið í viðræður um sameiningu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) og Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness (HEF) sem áform voru um fyrir skömmu. Óformlegar viðræður höfðu átt sér stað um tíma og í kjölfar þeirra var ákveðið að hefja formlegar viðræður um sameiningu. Þeim hefur nú verið slegið á frest.

Þetta staðfestir Linda Hrönn Þórisdóttir, formaður heilbrigðis­nefndar HEF, en frá því í byrjun árs 2022 hafa staðið yfir þreifingar um að sameina allt heilbrigðiseftirlit á höfuðborgarsvæðinu í eina stofnun. „Í ljósi sameiginlegra hagsmuna sem við eigum til dæmis varðandi vatnsvernd og strandlengjuna. Þessi umræða hefur verið í gangi. Við eigum að skoða það fyrst og fremst hvað er best fyrir íbúa á þessu svæði,“ segir Linda.

Bókað var á fundi heilbrigðisnefnar HEF í vikunni að frumkvæðið að sameiningu eftirlits á höfuðborgarsvæðinu hafi komið frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Tillaga um að skipa formlega viðræðunefnd var lögð fram og samþykkt í borgarráði Reykjavíkur 8. júní síðastliðinn. HEF telji hins vegar ekki tímabært að hefja samningaviðræður um sameiningu heilbrigðiseftirlits á höfuðborgarsvæðinu þar sem umhverfis- orku- og loftslagsráðherra hyggist leggja til nýtt fyrirkomulag á opinberu eftirliti með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum. Undirbúningur þess stendur nú yfir í ráðuneytinu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kom það á óvart að stefna ætti að því að aðeins eitt heilbrigðiseftirlit yrði á höfuðborgarsvæðinu áður en tillögur að nýju fyrirkomulagi eftirlitsins lægju fyrir. Einfaldara eftirlit sé meðal þess sem stefnt er að.

„Af okkar hálfu teljum við ekki tímabært að fara í formlegar viðræður en útilokum ekkert,“ segir Linda Hrönn.

Höf.: Hörður Vilberg