Vinnan Ég hef lagt mig eftir því að leggja gott til samfélagsins með störfum mínum, segir Toju Teejay hér í Lágafellslaug með rennibrautina og buslpottana í baksýn. Þarna hefur hann starfað sl. fjögur ár.
Vinnan Ég hef lagt mig eftir því að leggja gott til samfélagsins með störfum mínum, segir Toju Teejay hér í Lágafellslaug með rennibrautina og buslpottana í baksýn. Þarna hefur hann starfað sl. fjögur ár. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég fann mig strax á Íslandi og hef aldrei litið til baka. Mér þætti samt gaman ef synir mínir ættu þess kost að kynnast Nígeríu; þessu framandi landi suður…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ég fann mig strax á Íslandi og hef aldrei litið til baka. Mér þætti samt gaman ef synir mínir ættu þess kost að kynnast Nígeríu; þessu framandi landi suður í Afríku þar sem hitinn fer á góðum dögum í meira en 40 gráður. Slíkt er aldeilis eitthvað annað hér á Íslandi,“ segir Toju Teejay Boyo sundlaugarvörður í Mosfellsbæ. Hann er í hópi þess fólks utan úr veröldinni sem hefur í leit að betra lífi haldið norður í svalann og sest að á Íslandi. Margt af þessu fólki er til dæmis frá Póllandi, Litháen og Austurlöndum fjær. Færri eru þó frá Afríkulöndum, en þó nokkrir. Nýir Íslendingar með skráð ríkisfang í Nígeríu eru í dag 218 og hefur fjölgað hratt á síðustu árum.

Land 500 þjóðarbrota

Nígería er í Vestur-Afríku og í suðri liggur strönd landsins að Gíneuflóa. Um 206 milljónir manna búa í landinu sem skiptist í 36 fylki og eitt alríkissvæði sem er höfuðborgin Abútja. Um 500 þjóðarbrot búa í landinu, samfélagi sem byggir afkomu sína að miklu leyti á olíuútflutningi. Þannig býr Nígería að miklum auðlindum og um margt sterkum innviðum.

Áralöng seta stjórnar herforingja og óstöðugleiki í efnahagsmálum hafa þó lengi spillt fyrir eðlilegri þróun í landinu. Íslendingar þekkja Nígeríu sennilega best fyrir fyrir það að þar hafa lengi verið sterkir markaðir fyrir skreiðarafurðir og vegna þess hafa á stundum verið gagnvegir milli landanna. Koma Teejays til Íslands helgast þó af allt öðrum ástæðum.

„Móðir mín var sest að á Íslandi og hafði verið hér í nokkurn tíma þegar ég flutti hingað sem var í ágúst 2006. Í gegnum frásagnir hennar var ég því aðeins kominn með hugmyndir um hvernig landið væri og hverju mætti búast við,“ segir Teejay sem er 34 ára að aldri. Hann hefur nú í fjögur ár unnið í í Lágafellslaug í Mosfellsbæ. hefur með höndum afgreiðslu, þrif og aðstoð í búningsklefum og gæslu á svæðinu svo eitthvað sé nefnt.

„Mjög fljótlega eftir komuna hingað byrjaði ég í íslenskunámi í Alþjóðahúsi enda vissi ég sem var að í gegnum tungumálið væri leiðin inn í samfélagið. Svo tók við íslenskunám í framhaldsskóla og svona fór boltinn að rúlla. Að byrja nýtt líf í nýju landi er vissulega nokkuð krefjandi, en þá skiptir hugarfarið miklu. Ef þú telur þig geta náð tungumálinu fljótt verður sú raunin,“ segir Toju Teejay og heldur áfram:

„Svo er líka bara mikilvægt að brosa og gefa sig á tal við fólk. Íslendingar vilja sumir hverjir tala við okkur nýbúana á ensku, en ég bið fólk þá endilega um að færa sig yfir í íslenskuna. Jákvætt og skemmtilegt spjall skilar miklu. Sundlaugarnar eru eitt það besta á Íslandi. Hingað í Lágafellslaug koma líka margir, til dæmis fjölskyldufólk, enda er þessi laug vel hönnuð með tilliti til þess að foreldrar geti fylgst með börnunum.“

Heimili í Helgafelli

Toju Teejay er faðir þriggja drengja. Elstur er Ólafur Löve Andersen þrettán ára sem býr hjá móður sinni í Reykjavík. Þau Toju og Ragnheiður Sif Kristjánsdóttir, sambýliskona hans til þrettán ára, eiga svo tvo syni: Jayson Rafn sem er fjögurra ára og Zion Helga sem er níu mánaða. Fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir og á heimili sitt í fallegri íbúð í Helgafellshverfi í Mosfellsbænum. Fram undan er sumarfrí og góðir dagar.

„Íslendingar hafa tekið vel á móti mér og ríkisborgararétt fékk ég fyrir nokkrum árum. Þú brosir eins og sólin, er stundum sagt við mig og þau orð finnst mér vænt um. Ég hef lagt mig eftir því að leggja gott til samfélagsins með störfum mínum, til dæmis á frístundaheimilum og hér í lauginni. Hef svo verið að læra íþrótta- og tómstundafræði við Háskóla Íslands og þegar því lýkur fæ ég vonandi starf á því sviði í framtíðinni,“ segir Toju Boyo að síðustu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson