Stúlkurnar í U19 ára landsliðinu í handbolta unnu í gær glæsilegan níu marka sigur á Króötum, 35:26, í síðustu umferð milliriðlakeppninnar um sæti níu til sextán á Evrópumótinu í Rúmeníu.
Þær enduðu í þriðja sæti í sínum riðli og leika um sæti þrettán til sextán. Þar mæta þær Norður-Makedóníu á morgun en spila um endanlegt sæti á laugardaginn.
Staðan í hálfleik var 18:14, íslensku stúlkunum í hag, og þær voru komnar níu mörkum yfir þegar tíu mínútur voru eftir.
Mörk Íslands: Katrín Anna Ásmundsdóttir 10, Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Lilja Ágústsdóttir 5, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 2, Inga Dís Jóhannesdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1, Valgerður Arnalds 1. Ethel Gyða Bjarnasen varði tólf skot í marki Íslands og Elísa Helga Sigurðardóttir eitt.