Ideoscapes nefnist einkasýning sem þýska myndlistarkonan Karin Sander opnar í i8 galleríi við Tryggvagötu í dag kl. 17–19, en sýningin stendur til 2. september 2023. Um er að ræða fjórðu einkasýningu Sanders hjá i8, en hún sýndi fyrst í galleríinu 2001.
Á sýningunni getur að líta líkön af tólf fjöllum sem sótt voru og prentuð beint úr þrívíddarupplýsingum Google Earth. „Með því að nálgast stafrænu gögnin sem fundna hluti felst lágmarksíhlutun listamannsins í því að velja gögnin í nægilegum stórum mælikvarða til að innihalda hvert fjall og umhverfi þess, en með hliðsjón af hámarksprentbreidd prentarans,“ segir í tilkynningu frá galleríinu.
Þar kemur fram að sýningin fangi minningu hvers fjalls. Með innsetningunni hafi þau verið fjarlægð úr sameiginlegri sögu, landafræði og mælikvarða, en þannig minni landslagið á eigin óáþreifanlega eiginleika. „Verkin, prentuð með nýjustu tækni, eru óaðfinnanleg og nákvæm, en nákvæmni er afstætt hugtak. Hér skilgreinir það trúfesti við gögnin frekar en landslagið sjálft. Verkin eru ekki módel heldur þrívíðar landslagsmyndir, eða kannski réttara sagt, þrívíðar landslagsljósmyndir þar sem þær eru í raun prentaðar myndir.“