Agnar Smári Einarsson fæddist í Keflavík 5. janúar 1942. Hann lést á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi 17. júní 2023.
Foreldrar hans voru hjónin Einar Guðberg Jónsson, f. 14.10. 1914, d. 18.4. 1995, og Guðlaug Ingunn Einarsdóttir, f. 28.10. 1921, d. 21.12. 1999.
Bræður Smára eru Guðjón Ármann, f. 22.6. 1946, Jón Ingi, f. 20.8. 1948, og Einar Dagur, f. 22.5. 1950.
Smári fæddist í Keflavík og bjó þar fyrstu árin en flyst svo til Reykjavíkur og elst þar upp. Á unglingsárunum fór hann til frændfólks á Seyðisfirði og þar má segja að sjómannsferill Smára hafi byrjað, á bátnum Nakki NS. Hann var búinn að taka mótoristanámskeið fyrir tvítugt og svo lá leiðin í Stýrimannaskólann þaðan sem hann útskrifast með fiskimannapróf 1964.
Í Reykjavík kynntist hann eiginkonu sinni, Guðrúnu Halldórsdóttur, f. 28.9. 1945, d. 7.5. 2023. Foreldrar hennar voru Halldór Eyjólfsson, f. 9.3. 1924, d. 21.9. 2000, og Kristín Guðmundsdóttir, f. 1.5. 1924, d. 25.12. 2020.
Smári og Guðrún hófu búskap í Reykjavík 1963. Þau giftu sig 6.6. 1965. Synir þeirra eru: 1) Halldór Einir, f. 31.10. 1963, kvæntur Dagmar Jónu Elvarsdóttur, f. 3.10. 1963, og eiga þau tvær dætur: a) Guðrún, f. 18.6. 1985, gift Guðmundi Ingva Einarssyni og eiga þau tvö börn, Hrefnu Rut og Tómas Ingva, b) Gréta, f. 6.9. 1990, gift Guðlaugi Papkum Frímannssyni og eiga þau tvo drengi, Dag Eini og Elvar Smára. 2) Einar, f. 21.12. 1964, kvæntur Kristínu Björnsdóttur, f. 10.4. 1966, og eiga þau tvö börn: a) Bryndís, f. 15.10. 1993, b) Agnar, f. 4.8. 1995, sonur frá fyrra hjónabandi Smári, f. 24.7. 1987, giftur Rakel Nguyen Halldórsdóttur og eiga þau tvö börn, Gabriel Max og Victoriu Rut.
Smári og Guðrún flytja í upphafi búskapar síns til Vestmannaeyja og búa þar fram að gosinu 1973 en þá flytjast þau til Neskaupstaðar. Þar hefur hann eigin útgerð fyrst á Kögra NK 101 sem var sex tonna trilla, fljótlega stækkaði báturinn, útgerðarmynstrið breyttist og þá flytja þau til Keflavíkur með stuttu stoppi í Reykjavík. Í Keflavík hefst útgerð Þrastar sem stóð óslitið í 25 ár. Þegar synirnir fóru að heiman fluttust þau til Reykjavíkur og bjuggu lengstum í Þverholti 24 en fluttu að Dalbraut 14 árið 2019 þar sem þau bjuggu síðustu árin. Samheldnin var mikil og liðu einungis 40 dagar á milli andláta þeirra.
Útförin fór fram frá Laugarneskirkju föstudaginn 23. júní 2023 í kyrrþey að ósk hins látna.
Í dag vil ég minnast föður míns Agnars Smára Einarssonar sem lést hinn 17. júní síðastliðinn. Faðir minn var sjómaður, skipstjóri, útgerðarmaður og veiðimaður í öllum skilgreiningum þessara orða. Honum þótti líka óskaplega vænt um allt sitt fólk en sýndi sjaldan þá hlið sína, aftur á móti gat hann sýnt allan tilfinningaskalann þegar málefni íslensks sjávarútvegs voru til umræðu. Hann var bara þannig gerður og fékkst ekki til að knúsa nokkurn mann, ekki af því að hann vildi það ekki, þetta var bara óþarfi að hans mati. Ræddum við þetta stöku sinnum og skildi ég hans afstöðu.
Ég var 12 ára þegar hann leyfði mér að fara með sér á sjóinn fyrst, það var þó ekki til skemmtunar heldur fékk ég mína handfærarúllu til afnota, fiskurinn sem ég dró var aðskilinn öðrum afla og landað sérstaklega á mínu nafni og fékk ég helming andvirðisins í minn hlut. Þetta var sumarið 1975 á trillubátnum Kögra NK 101 sem faðir minn gerði út frá Neskaupstað. Þetta var upphafið af löngu samstarfi okkar feðga á sjónum. Hann gerði út bátinn Þröst í 25 ár, þrír bátar báru það nafn en Þröstur RE-21 var gerður út á dragnót síðustu 14 árin. Árið 1986 fór hann að vera í landi á sumrin og haustin og sinna útgerðinni þaðan, en svo hætti hann alfarið á sjónum 1991 og sinnti útgerðinni. Honum hélst einstaklega vel á starfsfólki og ég veit að hann var ákaflega stoltur af því hvað „kallarnir“ voru lengi hjá honum.
Veiðimaður var hann í eðli sínu, hann sleppti eingöngu ósærðum smáfiski sem hann var viss um að myndi lifa af. Ég minnti hann oft á hófsemi við veiðar þegar ég sótti afrakstur einnar veiðiferðarinnar, en á farmbréfinu fyrir reyktum laxi stóð 13 kg. En fisknum var að sjálfsögðu komið norður í reyk, ekkert betra en norðlenskur reykur. Þegar faðir minn var upp á sitt besta var hann sagður haldinn „veiðni“ innan fjölskyldunnar. Þegar veiðileyfið sagði að það mætti hefja veiðar kl. 07.00 var hann mættur á bakkann 06.50 og tilbúinn kl. 07.00. Það skipti hann engu máli hvort hann var að renna fyrir silung í Elliðavatni eða á bökkum Norðurár við laxveiðar, hann naut þess að veiða.
Ferðalög voru honum mikilvæg, fellihýsi, húsbíll, íbúð á Akureyri eða Kanaríeyjar. Þessi kafli í lífi hans og móður minnar hófst 1992 eða þegar faðir minn varð fimmtugur. Þau ferðuðust mjög mikið í tæplega 30 ár. Einnig ferðuðust þau víða bæði með Kola-hópnum og Þrastarungunum. Faðir minn greinist með krabbamein 2014 og heilsu hans hrakaði mjög upp frá því. Síðustu árin var heilabilun að hrjá hann og því fækkaði mjög ferðalögum þeirra.
Móðir mín lést 7. maí síðastliðinn og það varð honum þungbært, hann átti þó ágæta daga og stefndi á að komast á hjúkrunarheimili. En 40 dögum eftir andlát eiginkonu sinnar til 58 ára lést hann.
Minning um föður minn sem var einnig minn besti vinur, kennari og fyrirmynd stendur eftir. Ég veit að hann er með móður minni á sólarströnd í sumarlandinu eilífa.
Halldór Einir Smárason.