Af tónlist
Magnús Lyngdal
Magnússon
Óperan Aida var frumflutt í Kaíró á aðfangadegi jóla árið 1871 og eftir það hugðist Giuseppe Verdi (1813-1901) setjast í helgan stein. Hann var þá löngu orðinn þjóðhetja á Ítalíu og óperur hans voru teknar til sýninga bæði austan hafs og vestan. Við megum reyndar ekki gleyma því að þegar Aida var frumflutt var Verdi 58 ára sem þótti hár aldur, enda má nefna sem dæmi hér að meðalaldur Evrópubúa á þessum tíma var í kringum 40 ár. Verdi vildi þar að auki sinna bústörfum í Busetto og komnir voru fram á sjónarsviðið yngri menn með nýjar hugmyndir. Einn þeirra var ítalska tónskáldið og rithöfundurinn Arrigo Boito, sem meðal annars dáði Wagner og sótti innblástur sinn norður fyrir Alpafjöll.
Boito og kynslóð hans bar mjög takmarkaða virðingu fyrir ríkjandi hefð í ítölsku listalífi og nú skyldi velta í rústir og byggja á ný. Meðal þess sem Boito gagnrýndi í ræðu og riti var staðnað óperuform; ummæli hans stórmóðguðu Verdi, sem var alla tíð viðkvæmur fyrir öllum samanburði við Wagner og hafnaði því alfarið að áhrifa þýska tónskáldsins gætti í verkum sínum. Gagnrýnendur voru margir hverjir á öðru máli.
Verdi og Wagner voru jafnaldrar, báðir fæddir árið 1813, en hittust aldrei. Verdi sá verk Wagners, meðal annars Tannhäuser í Vínarborg, og sofnaði á sýningunni. Síðar meir hrósaði hann þó verkum Wagners í hástert, ekki hvað síst öðrum þætti í Tristan und Isolde. Wagner heyrði aðeins sálumessu Verdis (frá 1874) og var ekki hrifinn.
Af bréfum Verdis að dæma reyndist þó tíminn eftir að hann settist í helgan stein honum býsna þungbær. Þau eru uppfull af svartsýni sem jaðrar við þunglyndi; hann taldi til að mynda að ítölskum leikhúsum (og pólitík) hefði farið mikið aftur og þýsk menning væri orðin þar ríkjandi. Verdi var hins vegar heilsuhraustur og forleggjari hans, Ricordi, vildi fyrir alla muni að tónskáldið sneri sér aftur að tónsmíðum. Reyndi hann eitt og annað til þess að svo mætti verða, sendi honum meðal annars texta að nýju verki Boitos um Neró. Allt kom fyrir ekki og Ricordi gekk svo langt skrifa Verdi að sá hinn síðarnefndi væri sá eini sem gæti bjargað ítölsku listalífi. Verdi svaraði stirt að það væri nóg til af tónskáldum til að fylla leikhúsin – meðal annarra orða, fullyrðing Ricordis væri bara grín!
Eitt af því sem Ricordi reyndi að fá Verdi til þess að gera var að endurskoða óperuna Simon Boccanegra frá árinu 1857. Upp úr miðju ári 1879 sendi forleggjarinn tónskáldinu bréf þar sem hann kom þessari hugmynd – sem ekki var alveg ný af nálinni – á framfæri. Þessu hafnaði Verdi umsvifalaust. Þá kom Ricordi með trompið: Hvað með Shakespeare-leikritið Óþelló? Verdi dáði verk enska leikskáldsins og hafði lesið þau jöfnum höndum frá unglingsaldri.
Það var að sumri til árið 1879 að Verdi var staddur í Mílanó ásamt eiginkonu sinni og buðu þau Ricordi og hljómsveitarstjóranum Franco Faccio til kvöldverðar. Þar vék Ricordi að Óþelló og Verdi leit fast á hann en þó með glampa í augunum. Úr varð að Arrigo Boito var fenginn til þess að semja óperutexta upp úr verkinu og senda Verdi. Gamli maðurinn var þó enn fullur efasemda, hann vissi vel hvaða skoðanir Boito hafði á ítölsku óperuformi og var því tortrygginn. Strax daginn eftir kvöldverðarboðið hitti Verdi hins vegar Boito og innan fárra daga lágu fyrir fyrstu drög að texta.
Ekki kom þó til þess að Verdi hæfist handa við að semja strax, heldur bundust þeir Boito fastmælum um að endurskoða saman Simon Boccanegra; Boito skyldi sjá um yfirferð og endurskoðun textans en Verdi sá um tónlistina. Ný gerð óperunnar var færð á svið í Mílanó árið 1881 og hafa tónlistarfræðingar leitt að því getum að í þessu verkefni hafi Verdi verið að prófa Boito. Hvað svo sem satt kann að reynast í því er ný gerð Simon Boccanegra glæsileg ópera – þrátt fyrir flókinn söguþráð – og sumt í henni er meðal þess besta sem Verdi samdi nokkru sinni.
Eftir að hafa endurskoðað og stytt Don Carlos hófst Verdi loks handa við að semja Otello. Það gerði hann í þremur atrennum; í Genóa í mars 1884 og frá desember 1884 fram í apríl 1885 og loks í Sant‘Agata í september og október 1885. Allan tímann fram að því að Verdi hóf að semja ýtti forleggjarinn, Ricordi, hressilega á eftir honum. Ritunin gekk þó ekki áfallalaust því á einum tímapunkti var ranglega haft eftir Boito í dagblöðum að hann vildi helst semja verkið sjálfur. Verdi bauðst til að skila textanum en Boito tókst að koma honum í skilning um að ranghermt væri og sættir tókust. Eftir að Otello lá fyrir í drögum tók Verdi til við að útsetja verkið fyrir hljómsveit en hinn 1. nóvember 1886 skrifar Verdi Boito: „Nú er þessu lokið!“
Mikil eftirvænting ríkti fyrir frumsýninguna, ekki bara á Ítalíu heldur reyndu mörg óperuhús í Evrópu að eiga þar hlut að máli sem og hljómsveitarstjórar og söngvarar. En frá öllu hafði verið gengið og kom þar til að bæði var búið að ákveða að óperan yrði frumflutt á Scala og nöfn hljómsveitarstjórans og söngvara lágu fyrir. Franco Faccio stjórnaði og það voru þau Francesco Tamagno, Victor Maurel og Romilda Pantaleoni sem fóru með hlutverk Otellos, Jagos og Desdemonu. Æfingar fóru fram fyrir luktum dyrum og mikil leynd hvíldi yfir öllu. Verdi hafði enda áskilið sér að hætta við allt saman ef honum litist ekki á blikuna. Hann hafði að vísu áhyggjur af „intónasjón“ eða stillingarvandamálum hjá Tamagno þegar hann söng veikt, en frumsýningin var ein sigurganga. Hún fór fram hinn 5. febrúar 1887. Verdi var kallaður fram á svið 20 sinnum og fólk dró sjálft hestvagn hans frá óperuhúsinu að hótelinu, slík var stemningin.
Margir eru á því að í Otello rísi list Verdis hæst en gagnrýnendur þóttust kenna áhrifa frá Wagner. Vissulega endurtekur Verdi ákveðin stef í verkinu en þau eru þó ekki leiðarstef í skilningi þýska meistarans. Þessi stef ljá verkinu hins vegar ákveðið samhengi. Við heyrum til að mynda kossa-stefið í lok ástardúettsins í fyrsta þætti sem svo skýtur aftur upp kollinum í fjórða þætti. Þó er rétt að benda á að Otello er allt öðruvísi ópera en til að mynda þrenningin Rigoletto, Il trovatore og La traviata og sá sem er að heyra hana í fyrsta sinn grípur sennilega ekki neina laglínu á lofti. Í verkinu rennur allt saman í eina heild, ekki ósvipað og í óperum Wagners. Það er hins vegar miklu styttra, tekur ríflega tvær klukkustundir í flutningi.
Tónlistarlega séð eiga Wagner og Verdi ýmislegt sameiginlegt þó svo að það blasi ekki beinlínis við. Tónskáldaferill beggja skiptist til að mynda í þrjú tímabil. Báðir bötnuðu með aldrinum og báðir voru þeir sprottnir úr vöggu rómantíkurinnar. En þá má líka segja að hinu sameiginlega ljúki. Rætur Verdis lágu í gamla samfélaginu og þær má að hluta til rekja aftur til Rómarveldis og svo í gegnum kaþólsku kirkjuna (þó svo að sjálfur hafi Verdi verið trúlaus maður). Rætur Wagners lágu hins vegar meðal þeirra sem lögðu Róm að velli, ríki sem nefnt er Hið heilaga rómverska ríki (en var hvorki heilagt, rómverskt né ríki), og siðaskiptunum. Þannig skildu Alpafjöll þá ekki einungis að landfræðilega, heldur einnig í hugsunarhætti.