Gunnar A. Þorláksson fæddist 4. desember 1943 í Reykjavík. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar 5. júlí 2023.
Foreldrar hans voru Þorlákur Jón Jónsson rafvirkjameistari, f. 23. desember 1907, d. 1998, og Kristjana Júlía Örnólfsdóttir húsmóðir, f. 2. júlí 1909, d. 1969. Systkini: Auður, f. 1930, d. 1993, Páll, f. 1934, d. 1986, Jón Kristinn, f. 1939, d. 1983 og Ríkey, f. 1945.
Þann 15. september 1962 giftist Gunnar eftirlifandi eiginkonu sinni, Kolbrúnu Hauksdóttur, f. 25.7. 1944.
Foreldrar hennar voru Málfríður G. Jónsdóttir, f. 1923, d. 1968 og Haukur Oddsson, f. 1920, d. 1968. Börn Gunnars og Kolbrúnar: 1) Kristín Þóra, f. 1962, maki Einar Ögmundsson, f. 1967, börn Gunnar Þór, f. 1985, d. 2022, Kolbrún Þóra, f. 1986, maki Kristinn Már Gíslason, f. 1985, Guðbjörg Heiða, f. 1999 og Baldur Heiðar, f. 2002. 2) Lilja, f. 1964, sonur Guðmundur Ragnar, f. 1996, sambýliskona Berglind Björk Guðmundsdóttir, f. 1998. 3) Aðalsteinn, f. 1967, maki Ásdís Sigurjónsdóttir, f. 1965, börn Svanur, f. 1989, Sandra, f. 1991, sambýlismaður Ingvar Gylfason, f. 1991, börn Viktor Smári, f. 2015 og Vignir Elí, f. 2023, Signý, f. 1997, sambýlismaður Kaloyan Tsvetkov Dimitrow, f. 1999. 4) María, f. 1971, maki Sigursteinn Óskarsson, f. 1975, börn Svavar Örn, f. 1990, sambýliskona Silvía Rán Ásgeirsdóttir, f. 1990, börn Thelma Ósk, f. 2012, Ares Örn, f. 2017 og Atlas Örn, f. 2023, Katrín Þöll, f. 2000, Sóley, f. 2009 og Birta, f. 2011.
Gunnar ólst upp og bjó á Grettisgötu 6 fram til ársins 1980 þegar fjölskyldan flutti í Strýtusel 13. Síðustu ár bjó hann í Stuðlaseli 30.
Gunnar vann ýmis störf til ársins 1964 er hann hóf störf á Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, m.a. sem húsnæðisfulltrúi en síðast sem skrifstofustjóri á skrifstofu félagsmálastjóra til ársins 2004. Framkvæmdastjóri Skálatúnsheimilisins frá 2004 til 2013.
Gunnar var ætíð virkur í félagsmálum ásamt því að skapa aðstæður fyrir fólk til að skemmta sér í heilbrigðu umhverfi. Félagsstörfin og áhugamálin tengdust gjarnan forvörnum.
Gunnar gegndi í trúnaðarstörfum hjá fjölda félaga og klúbba, t.d. Barnastúkunni Æskan nr. 1, Stúkunni Einingin nr. 14, Íslenskum ungtemplurum, í mótsstjórn og mótsstjóri Bindindismótsins í Galtalækjarskógi, umboðsmaður Hátemplars, forseti BFÖ, meðal stofnenda hjónaklúbbsins Laufsins, stofnandi og formaður Komið og dansið, Musterisriddari frá 1991.
Fyrir utan félagsstörfin átti Gunnar ótal áhugamál svo sem veiði, bíla, Galtalækjarskóg og dansinn.
Segja má að Gunnar og Kolbrún hafi dansað saman í gegnum lífið enda ætíð verið samtaka í hverju því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur og skipti ekki máli hvort verið væri að dansa gömlu dansana, samkvæmisdansa, tjútt, tangó eða swing.
Fjölskyldan var Gunnari mjög mikilvæg og hafa börnin fylgt þeim eftir í hverju því sem þau tóku sér fyrir hendur og síðar barnabörnin og barnabarnabörnin.
Útför Gunnars fer fram frá Seljakirkju í dag, 13. júlí 2023, kl. 13.
Í dag minnist ég pabba sem kvaddi þennan heim 5. júlí síðastliðinn eftir erfið veikindi sem hann náði því miður ekki að sigrast á þrátt fyrir óbilandi vilja og kraft.
Þegar ég hugsa til baka þá er margs að minnast en eitt af því sem ég lærði af honum og hef nýtt í eigin lífi er orðatiltæki hans „Það fer aldrei verr en illa“.
Pabbi var alla jafna ekki að flækja hlutina fyrir sér, var snöggur að sjá kosti og ókosti, hafði einstaka skipulagshæfileika, gerði ekki mannamun, var ekki mikið fyrir vol og væl, lausnamiðaður og var fljótur að framkvæma það sem gera þurfti.
Ég er í dag þakklát fyrir ótalmargt meðal annars að hafa fengið tækifæri í uppvextinum til að vera virkur þátttakandi í mörgu af því sem hann tók sér fyrir hendur. Að hafa sem unglingur fengið að fara með í félagsvist og dansi í Templarahöllinni, allir dansarnir sem hann kenndi mér, öll bindindismótin í Galtalæk, revíuuppsetningarnar í stúkunni, öll „showin“ með böllunum sem þau mamma tóku okkur með á, veisluhöldin á heimilinu þar sem ég lærði t.d. að vera gestgjafi og svo ótalmargt fleira.
Pabbi elskaði að halda veislur, bjóða fólki í mat eða kaffi, enda matur manns gaman að hans mati og nóg af honum. Ekki spillti fyrir ef í veislunum var hægt var að segja brandara, spila bingó, fara í leiki, syngja og dansa. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að vera veislustjóri í 60 ára demantsbrúðkaupsafmæli hans og mömmu í september síðastliðnum þar sem við undirbúning þess gafst tækifæri til að fara yfir myndir af honum og mömmu frá því þau kynntust sem unglingar. Hann fékk líka tækifæri til að leggja línur fyrir dagskrána og það sem hann var ánægður að geta þar tekið síðasta valsinn með mömmu.
Fjölskyldan var pabba mikilvæg og eigum við sonur minn Guðmundur Ragnar mjög góðar minningar frá ótalmörgum samverustundum okkar.
Þín dóttir,
Lilja.