<autotextwrap>
Samstæða Þórsmerkur ehf. var rekin með 244 milljóna króna tapi árið 2022, en 186 milljóna króna hagnaður var af rekstrinum árið á undan. Samstæða Þórsmerkur samanstendur meðal annars af fjölmiðlafyrirtækinu Árvakri hf., útgefanda Morgunblaðsins, mbl.is og K100, prentsmiðjunni Landsprenti ehf., dreifingarfyrirtækinu Póstdreifingu ehf. og fasteignafélaginu Ári og degi ehf.
„Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hefur lengi verið erfitt og versnaði enn frekar á milli ára í fyrra. Á sama tíma minnkaði stuðningur hins opinbera þrátt fyrir mikla umræðu um vandann árum saman. Pappírsverð hækkaði umtalsvert og innlendur kostnaður sömuleiðis. Það sem ýtti rekstrinum þó undir núllið voru fyrst og fremst áhrifin af falli Fréttablaðsins og svo áhrif af verðbólgunni á lánin, verðbæturnar,“ segir Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri og ritstjóri, og bætir við: „Erfitt rekstrarumhverfi fjölmiðla átti vitaskuld sinn þátt í hvernig fór hjá Fréttablaðinu og skyndilegt brotthvarf þess hafði umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur samstæðunnar í fyrra. Ástæðan er sú að við áttum saman dreifingarfyrirtæki og Fréttablaðið var stór viðskiptavinur þess.“
Tekjur samstæðunnar í fyrra námu tæpum 5 milljörðum króna og afkoma fyrir afskriftir, EBITDA, nam 217 milljónum króna. Eignir um síðustu áramót voru tæpir 4,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall tæplega 25%.
„Rekstrarumhverfið er áfram mjög krefjandi í ár en staða fjölmiðla Árvakurs er sterk og við vinnum að því að styrkja þá enn frekar,“ segir Haraldur. „Lesendum Morgunblaðsins fjölgar, mbl.is er sem fyrr mest lesni vefur landsins og K100 hefur fest sig í sessi sem ein af stærri útvarpsstöðvunum. Við sjáum fram á áframhaldandi breytingar á umhverfi fjölmiðla og vinnum hörðum höndum að því að búa okkur undir framtíðina og vera leiðandi í fjölmiðlun hér á landi. Sem dæmi um það er að við erum að skipta út öllum helstu tölvukerfum okkar og bæta við nýjum til að geta betur tekist á við nýjar aðstæður. Þá höfum við styrkt ritstjórnina, því að okkar fyrsta skylda er við áskrifendur, lesendur, áhorfendur og áheyrendur; að vinna fyrir þá framúrskarandi efni.“