Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims, G7, hétu því í gær að styðja við bakið á Úkraínu eins lengi og nauðsyn bæri til þess að ráða bug á innrás Rússlands og til að koma í veg fyrir aðrar innrásir síðar.
Kom loforð þeirra í kjölfar þess að leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins, NATO, ákvað að setja ekki tímaramma utan um mögulega aðild Úkraínu í framtíðinni. Hafði sú ákvörðun valdið Úkraínumönnum nokkrum vonbrigðum þrátt fyrir að leiðtogar NATO-ríkjanna hefðu einnig ákveðið að greiða leið landsins inn í bandalagið með öðrum hætti.
Í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoga G7-ríkjanna sagði ríkin myndu öll takast á hendur tvíhliða skuldbindingar gagnvart Úkraínu, bæði til að tryggja að her landsins geti varið Úkraínu nú og jafnframt til að fæla Rússa frá því að reyna aftur innrás síðar. Þá ætla ríkin sjö, Bandaríkin, Kanada, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Japan, að veita Úkraínuher áfram nútímaleg hergögn sem nýtist þeim í land-, sjó-, og flughernaði.
Hétu leiðtogarnir því einnig að veita Úkraínumönnum bæði skjóta hernaðaraðstoð og fjárhagslegan stuðning komi til þess að Rússar hefðu aftur vopnaða innrás í landið. Þá yrði leitað enn frekari leiða til þess að refsa Rússum með viðskiptaþvingunum komi til annarrar innrásar eftir að þessu stríði lýkur.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði að loforð G7-ríkjanna væru mikilvægur sigur fyrir öryggi Úkraínu, en dró ekki dul á að hann hefði frekar kosið að fá tímasetta áætlun um inngöngu Úkraínu sem gæti tekið gildi þegar búið væri að sigrast á Rússum og koma friði á.
„Besta tryggingin fyrir Úkraínu er aðild að NATO,“ sagði Selenskí í gær og sagðist þess jafnframt fullviss að Úkraína yrði boðin velkomin í bandalagið að stríði loknu. Hann varaði við því að líta svo á að yfirlýsing G7-ríkjanna kæmi í staðinn fyrir NATO-aðild, heldur væri hún einungis trygging fyrir öryggi landsins á meðan það væri að aðlagast inngöngukröfum bandalagsins.
Samstaðan muni ekki rofna
Er yfirlýsingu leiðtoganna sjö ætlað að sýna Vladimír Pútín Rússlandsforseta að hann geti ekki beðið af sér stuðning vesturveldanna við Úkraínu. Joe Biden Bandaríkjaforseti ítrekaði það sérstaklega í ræðu sem hann flutti að loknum leiðtogafundunum tveimur við Háskólann í Vilníus.
Sagði Biden þar að Pútín hefði veðjað á það að Atlantshafsbandalagið myndi liðast í sundur við innrásina í Úkraínu og að hann væri enn að veðja á það. „Pútín efast enn um þol okkar. Hann heldur sig fast við slæmt veðmál um að sannfæring og eining Bandaríkjanna og bandamanna okkar og félaga muni molna í sundur,“ sagði Biden, sem hét því að Bandaríkin yrðu málsvarar frelsisins svo lengi sem þörf krefði.
Þá lagði Biden sérstaka áherslu á að ekki mætti líðast að Rússar gætu hirt landsvæði af nágrannaríki sínu með valdi. „Að verja frelsið er ekki dagsverk eða ársverk. Það er köllun okkar samtíma, um alla tíð,“ sagði Biden í ræðu sinni.
Sagði Biden í lok ræðu sinnar að ríki heims þyrftu að standa saman til að koma í veg fyrir „óhefta árásargirni“. „Aldrei gefast upp, aldrei missa vonina,“ sagði Biden. Þúsundir Litháa komu saman til að hlýða á Biden og veittu þeir honum standandi lófatak að ræðu lokinni.
Ísland meðal stuðningsríkja
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, sagði að nokkur önnur ríki hefðu einnig lýst yfir stuðningi sínum við yfirlýsingu G7-ríkjanna. Þeirra á meðal væru Spánn, Holland, Portúgal, Ísland, Noregur, Danmörk, Pólland og Tékkland.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði að hin alþjóðlega samstaða með Úkraínu sýndi að hún myndi vara til lengri tíma og bætti við að Rússland stæði nú hernaðarlega og pólitískt veikt fyrir. Vísaði Macron til uppreisnar Wagner-liða í síðasta mánuði og sagði að Rússland sýndi nú fyrstu merkin um innri deilur.
Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns, sagði í gær að yfirlýsingar vesturveldanna myndu gera Evrópu að mun hættulegri stað um áraraðir.
Nýjar varnaráætlanir
Vatnaskil í viðbúnaði
Á leiðtogafundi NATO var ekki bara fjallað um Úkraínu, heldur voru einnig samþykktar nýjar varnaráætlanir bandalagsins. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins í gær að nýju áætlanirnar mörkuðu „vatnaskil í varnarviðbúnaði og öryggi allra bandalagsríkja.“
Sagði hún að áætlanirnar skerptu á öllu skipulagi og framkvæmd sameiginlegra varna, sem aftur yki fælingarmátt bandalagsins.