Maður, sem rændur var á ferðalagi í Cannes í fyrra, á rétt á bótum úr ferðatryggingu fjölskyldutryggingar hjá tryggingafélagi sínu. Þetta kemur fram í samantekt úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.
Maðurinn sagðist hafa verið á ferðalagi rétt fyrir utan Cannes í Suður-Frakklandi þegar hann nam staðar við skyndibitastað skammt frá hraðbraut. Eftir að hann drap á bílnum og steig út kom að honum mjög æstur maður sem hrópaði að honum á frönsku og var ógnandi í framkomu.
Stuttu seinna gekk maðurinn frá bílnum og ýtti á hnapp til að læsa honum á meðan hann fór inn á skyndibitastaðinn. Þegar hann snéri aftur í bílinn nokkru síðar sá hann að tvær töskur voru horfnar úr farþegasæti bílsins.
Maðurinn, sem tilkynnti þjófnaðinn samstundis til lögreglu, taldi að maðurinn á bílaplaninu hefði vísvitandi dreift athygli hans með hrópum og köllum og á meðan hefði samverkamaður mannsins tekið töskurnar úr bílnum.
Tryggingafélag mannsins hafnaði bótaskyldu á þeirri forsendu að bíllinn hefði ekki verið læstur þegar töskunum var stolið. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að maðurinn eigi rétt á fullum bótum vegna tjónsins sem hann varð fyrir þar sem ekki sé hægt að meta honum til meira en óverulegrar sakar, að hafa ekki séð þegar farið var inn í bifreið hans, enda hafi honum brugðið nokkuð þegar hrópað var að honum á tungumáli sem hann skildi ekki.