Gjörningur Rússneski gjörningahópurinn Pussy Riot kemur fram á hátíðinni þetta árið.
Gjörningur Rússneski gjörningahópurinn Pussy Riot kemur fram á hátíðinni þetta árið. — Ljósmynd/Vikram Pradhan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðeins nokkrum mínútum eftir að eldgos hófst á Reykjanesskaga á mánudaginn hófust vikulöng hátíðarhöld LungA á Seyðisfirði. Er þetta í 24. skipti sem Listahátíð ungs fólks á Austurlandi fer fram en þema hátíðarinnar í ár er sæla

Eva Sóldís Bragadóttir

eva@mbl.is

Aðeins nokkrum mínútum eftir að eldgos hófst á Reykjanesskaga á mánudaginn hófust vikulöng hátíðarhöld LungA á Seyðisfirði. Er þetta í 24. skipti sem Listahátíð ungs fólks á Austurlandi fer fram en þema hátíðarinnar í ár er sæla. Segja hátíðarstjórar viðburðarins, þau Helena Aðalsteinsdóttir og Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, orðið sæla fanga stemningu og kjarna hátíðarinnar.

Nýstárleg listsköpun

Þórhildur Tinna segir höfuðáherslu lagða á ást, vinskap, væntumþykju og samvinnu á hátíðinni. Þar sé fólk hvatt til að vinna listrænt með nýju fólki og á nýjan hátt með gömlum vinum.

Að sögn Helenu hafa lykilhugtök í líkingu við sælu verið höfð til hliðsjónar við hátíðarhöld fyrri ára en þau Þórhildi hafi í ár langað til að vinna heildrænt með sælu enda hæfi hugtakið hátíðinni vel.

Fjölbreytt hátíðarhöld

Á LungA getur listafólk af öllu tagi spreytt sig en þar er boðið upp á fjölbreyttar listasmiðjur, fyrirlestra, námskeið og aðra viðburði sem tengjast sköpun, list og menningu. Um helgina er svo haldin uppskeruhátíð þar sem afrakstur listafólks úr vinnusmiðjum er sýndur og frægir koma fram á tónleikum.

Hinar einstöku vinnusmiðjur fara fram á ólíkum stöðum á Seyðisfirði. Nefna Þórhildur og Helena til dæmis gjörningasmiðju í garði við hús sem rýmt var vegna aurskriðna. Sammælast þau um að sérstakur andi myndist í smiðjunum í kjölfar mikillar samvinnu við listsköpun.

Stefnir í að miðar seljist upp

Þó nú sé lokað fyrir skráningu í smiðjurnar eru áhugasamir hvattir til að skoða afrakstur þeirra á uppskeruhátíðinni. Er þá jafnvel hægt að slá tvær flugur í einu höggi og fara á tónlistarhátíðina en að sögn Þórhildar er ennþá eitthvað um lausa tónleikamiða. Tekur hún þó fram að miðarnir séu fáir.

„Það virðist ætla að seljast upp hjá okkur á tónleikana þannig hver fer að verða síðastur til að tryggja sér miða,“ segir hún og bætir við að þau birti allar helstu upplýsingar um hátíðarhöldin á samfélagsmiðlum LungA og muni því tilkynna þar ef miðarnir seljast upp.

Fjölbreytileiki í forgrunni

Er þetta fyrsta árið sem Þórhildur og Helena starfa saman sem hátíðarstjórar LungA og vildu þau gera áherslum og grunngildum hátíðarinnar hátt undir höfði við störf sín.

„Við vildum setja myndlist meira í forgrunn og svo líka vinna með tónlistar- og myndlistarmönnum sem eru konur, kynsegin og hinsegin,“ segir Helena og bætir við að þau hafi ákveðið að fækka miðum til að gera hátíðina nánari og byggja upp góða stemningu.

Hefur hán þá einnig orð á því að Jafnréttissjóður hafi veitt LungA styrk fyrir að vera leiðandi í að skapa öruggari rými við hátíðarhöld.

Að sögn Helenu verður mest um að vera á hátíðinni nú rétt fyrir og um helgina.

„Þannig fyrir þá sem vilja fá sem mest út úr LungA er gott að koma bara upp úr kvöldmat á fimmtudegi,“ segir hán. Bætir Þórhildur við að þá geti fólk séð rússneska gjörningahópinn Pussy Riot koma fram en hún segir það ótrúlega upplifun.

Ólíkir hæfileikar sameinaðir

Frá því að opnunarhátíð LungA var haldin á mánudaginn hafa listamenn sýnt verk sín á fimm mismunandi sýningum víðs vegar um Seyðisfjörð. Segir Þórhildur listamennina ekki einungis koma fram á þessum sýningum heldur koma að hátíðinni á margvíslegan hátt.

„Þeir eru þá kannski líka með listasmiðjur eða gjörninga yfir vikuna eða þeir eru að koma fram í útvarpinu,“ segir hún.

Helena undirstrikar orð Þórhildar. „Við erum að reyna að flétta saman öllum listamönnum sem koma hérna yfir hátíðina,“ segir hán en samkvæmt háni koma margir að hátíðinni, um 150 starfsmenn og listamenn í heildina.

„Við erum að draga fram ólíka hæfileika í hverjum listamanni fyrir sig,“ segir hán og lýsir því að með þeim hætti fái listamennirnir stærri vettvang til að sýna sköpunarverk sín.

Einstök nánd milli gesta

Spurt hvað gestir LungA skuli hafa í huga þegar þeir mæta á hátíðina segir Helena: „Bara að hjálpa okkur að búa til fallega stemningu og orku.“

Segir Þórhildur mikilvægt að gestir sýni virðingu og vinsemd en hugi líka að náttúrunni og njóti fegurðar Seyðisfjarðar.

Höf.: Eva Sóldís Bragadóttir