Íslenska sumarnóttin er einstök og mikil upplifun er að vaka slíkar stundir. Í ferð blaðamanns með ms. Selfossi var haldið út Skjálfandaflóann frá Húsavík laust eftir miðnætti. Flutningaskipið var á hægri siglingu og úr brúnni var á bakborða litið til Kinnarfjalla og eyðibyggðarinnar í Flatey, þar sem enn standa íbúðarhús og kirkja. Skemmtiferðaskipi á leiðinni til Húsavíkur mættum við út af Þorgeirsfirði í Fjörðum.
Og á þessari nóttu gerðist ævintýri og sýnin var einstök. Sólin seig rétt niður fyrir sjóndeildarhringinn en reis svo upp aftur svo roða sló á himinhvolfið. Mikil sýning á stjórnborða. Og áfram sigldi Selfoss. Sjórinn freyddi við skipshlið og skammt frá syntu smáhveli svo bryddi á sporði þeirra á haffletinum. Komnir að Gjögurtá voru fjærst útnes nærri Siglufirði, þá Hestfjall í Héðinsfirði, Hvanndalabjörg, Fossdalur og Ólafsfjarðarmúlinn í gylltri birtu.
Og svo var stefnan sett á Akureyri, rennt fram hjá Hrólfsskeri og Hrísey. „Áfram – og alltaf heim, / inn gegnum sundin blá,“ eins og segir í ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi; Sigling inn Eyjafjörð.