Bo Tjellesen Eigandi GOSH Copenhagen ásamt börnum sínum.
Bo Tjellesen Eigandi GOSH Copenhagen ásamt börnum sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenski fáninn blakti í hlýrri sumargolunni þegar hópur íslenskra blaðamanna og áhrifavalda kom að heimsækja höfuðstöðvar danska snyrtivörumerkisins GOSH Copenhagen. „Ég er mjög hrifinn af Íslandi og hef heimsótt landið mörgum sinnum en okkur …

Lilja Ósk Sigurðardóttir

snyrtipenninn@gmail.com

Íslenski fáninn blakti í hlýrri sumargolunni þegar hópur íslenskra blaðamanna og áhrifavalda kom að heimsækja höfuðstöðvar danska snyrtivörumerkisins GOSH Copenhagen. „Ég er mjög hrifinn af Íslandi og hef heimsótt landið mörgum sinnum en okkur þykir líka mjög vænt um smærri markaði sem við seljum vörurnar okkar á,“ sagði Bo Tjellesen, eigandi GOSH Copenhagen, þegar hann tók á móti íslenska hópnum. Bo þekkir fyrirtækið út í gegn en faðir hans, Einar Tjellesen, stofnaði það undir öðru nafni árið 1945 og starfaði það innan lyfjageirans áður en Bo fékk það verkefni að hefja framleiðslu á snyrtivörum undir lok áttunda áratugarins.

„Ég stakk upp á því við föður minn að snyrtivörumerkið yrði kallað GOSH en það er ekki hægt að tengja neitt neikvætt við orðið, það er ávallt notað við jákvæðar upplifanir,“ útskýrði Bo þegar hann sagði frá upphafi merkisins. GOSH Copenhagen er sannarlega fjölskyldufyrirtæki og nú starfar þar þriðja kynslóð Tjellesen-fjölskyldunnar eftir að tvö börn Bo hófu þar störf.

Mikilvægt að framleiða sem mest í Danmörku

Höfuðstöðvarnar eru á sérlega fallegu landsvæði rétt fyrir utan Kaupmannahöfn og augljóst að þarna fer mikil framleiðsla fram, enda eru vörur GOSH Copenhagen nú seldar í yfir 80 löndum, en það kom blaðamanni þó á óvart að einungis 100 starfsmenn starfa við framleiðsluna. Það hefur ávallt verið leiðarljós GOSH Copenhagen að framleiða vörur sínar í Danmörku til að tryggja að þær endurspegli gildi merkisins og gæðaeftirlit er í hávegum haft. Í undantekningatilvikum eru sumar tegundir snyrtivara merkisins framleiddar í öðrum löndum sökum tæknilegs aðbúnaðar en þó ávallt innan Evrópu.

GOSH Copenhagen hefur ákveðna sérstöðu á snyrtivörumarkaðnum vegna áherslu sinnar á ilmefnalausar formúlur sem eru lausar við mögulega ofnæmisvaldandi efni, en yfir 80% vöruúrvals þeirra er ilmefnalaust og sömuleiðis hóf GOSH Copenhagen að votta vörur sínar ofnæmislausar með „Allergy Certified“ svo neytendur geta verið vissir um það sem lofað er. Hópurinn fékk leiðsögn í gegnum verksmiðjuna og framleiðsluferlið og var ánægjulegt að sjá hvernig tekin voru með í reikninginn hin ýmsu smáatriði, til dæmis voru allar umbúðir prófaðar í þaula til að tryggja að þær hentuðu vörunni og stæðust allar kröfur.

Vilja takast á við risana

GOSH Copenhagen hefur lengi notið vinsælda á Íslandi en undanfarið hafa vinsældir merkisins sprengt alla skala þegar nýju vörurnar Blush Up, Glow Up og Shape Up komu á markað. Um er að ræða kremútgáfur af ljóma og kinnalitum, brúnkukrem og skyggingarliti. Sumir hlupu á milli verslana til að reyna að ná sér í eintök en gripu gjarnan í tómt.

Í heimsókninni fékk hópurinn að prófa umræddar nýjungar sem sannarlega stóðu undir væntingum og var skemmtilegt að nota svo góða vöru sem einnig er á hagstæðu verði. Bo sagði hópnum að fyrirtækinu þætti skemmtilegt að keppa við risana á snyrtivörumarkaðnum og sýna hvað lítið fjölskyldufyrirtæki, í samanburði við önnur snyrtivörumerki, getur haft mikil áhrif.

Hlýlegur fjölskylduandinn einkenndi höfuðstöðvarnar og augljóst var að allir væru að vinna að sama markmiði, að kynna sem flestum þessar dönsku hágæða og ofnæmisvottuðu snyrtivörur, og til að undirstrika það eru meira að segja starfsmenn merkisins þeir sömu og sitja fyrir í auglýsingum þess.

Hugað að umhverfinu

Hjá GOSH Copenhagen hefur ávallt verið reynt að hugsa um umhverfið við vöruþróun en merkið var á meðal þeirra fyrstu til að nota endurnýtt sjávarplast í umbúðir sínar, ættleiða skjaldbökur í útrýmingarhættu í samstarfi við WWF og vinna náið með hráefnabirgjum sínum til að tryggja gæði og sjálfbærni hráefnanna sem notuð eru í vörurnar. Nú eru að auki yfir 70% vöruúrvals GOSH Copenhagen vegan.

Það er því óhætt að segja að leiðin liggi upp á við hjá þessu danska fjölskyldufyrirtæki sem heldur áfram innrás sinni á erlenda snyrtivörumarkaði og eykur þannig aðgengi fólks að ofnæmisvottuðum vörum sem byggjast á skandinavískum gildum.

Höf.: Lilja Ósk Sigurðardóttir