Guðrún Ágústsdóttir
Guðrún Ágústsdóttir
Minningarreitur um Sturlu Þórðarson sagnaritara opnaður við hátíðlega athöfn að Staðarhóli í Dölum 15. júlí nk.

Guðrún Ágústsdóttir

Sturla Þórðarson, hinn mikli sagnaritari, hefði orðið 809 ára í lok þessa mánaðar. Frá árinu 2014 hefur verið haldin sérstök hátíð honum til heiðurs í Dölum vestur, fyrir utan covid-árin tvö, 2020 og 2021, en Sturla bjó lengst af á Staðarhóli í Saurbæ.

Sturlufélagið var stofnað þar sem mikilvægt þótti að halda nafni Sturlu, þessa mikla sagnaritara, á lofti og heiðra á allan hátt framlag hans til íslenskrar menningar. Stórmerkileg fornminjaskráning hófst 2017, sem Guðrún Alda Gísladóttir fornleifafræðingur stjórnar. Mjólkursamsalan tók þátt í að setja upp söguskilti í Dalabyggð á „Gullna söguhringnum“ og nú verða afhjúpuð skilti sem eru liður í því að til verði minningarreitur um Sturlu Þórðarson að Staðarhóli. En í Dölum er sagan í hverju spori.

Sturluhátíðir liðinna ára hafa verið afar vel sóttar og þegar 200 manns mættu á fyrstu hátíðina á 800 ára afmæli Sturlu 2014 urðu aðstandendur bæði hissa og glaðir. 2018 var hátíðin tengd fullveldinu, „vegna þess að fornritin íslensku voru í senn menningararfur og undirstaða sjálfstæðisbaráttunnar, baráttunnar fyrir fullveldi þjóðarinnar“, eins og sagt var í frétt um málið.

Nú verður hátíðin haldin 15. júlí nk. og hefst hún kl. 13 við Staðarhól, þar sem afhjúpuð verða söguskilti sem Sturlufélagið hefur látið gera og gefa þau innsýn í sögu sagnaritarans og Sturlungu. Að athöfn lokinni verður farið í sögugöngu að Staðarhóli með leiðsögn. Að lokinni dagskránni við Staðarhól verður haldið að Laugum í Sælingsdal þar sem dagskráin heldur áfram og Sturlufélagið býður gestum upp á kaffiveitingar að hætti heimamanna. Dagskráin þar hefst klukkan 15 með því að Einar K. Guðfinnsson formaður Sturlufélagsins setur hátíðina en einnig halda erindi Ármann Jakobsson prófessor, Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur og Torfi Tulinius prófessor. Soffía Meldal, ung söngkona úr Dölunum, sér um tónlistina. Frá upphafi hefur ríkt mikill áhugi og velvild í garð þessara verkefna í Dölum og fólk almennt boðið og búið að leggja þeim lið.

Rétt er að minna á Vínlandssetrið í Búðardal sem var opnað sumarið 2020 og er einstaklega vel heppnað. Þar eru listaverk eftir tíu þekkta listamenn sem lýsa ferðum frá Íslandi til Grænlands og Ameríku fyrir þúsund árum. Öll þessi sögutengdu verkefni tengjast og styðja hvert við annað.

Höfundur er fulltrúi í stjórn Sturlufélagsins og fyrrv. forseti borgarstjórnar.

Höf.: Guðrún Ágústsdóttir