Ásdís Ásgeirsdóttir
Á níunda áratugnum, þegar undirrituð var unglingur, voru tvær popphljómsveitir sem kepptu um hylli ungmenna; Duran Duran og Wham! Unglingar skiptust í fylkingar og ég var sannarlega í Wham!-hópnum þó ég þættist aðeins hlusta á Bowie, Bob Marley og U2. En það var ekki annað hægt en að hrífast með Wham!
Sveitina skipuðu þeir George Michael og Andrew Ridgeley, en sá fyrrnefndi lést langt fyrir aldur fram árið 2016 eftir farsælan sólóferil. Wham! starfaði aðeins í fimm ár, frá 1981-1986, en átti ansi marga smelli eins og Careless Whisper, Wake me up before you go-go, Club Tropicana og Last Christmas. Netflix sýnir um þessar mundir afar áhugaverða heimildarmynd um hljómsveitina og vinskap þeirra félaga, en þeir kynntust þegar þeir voru aðeins ellefu og tólf ára gamlir. George, sem hét í raun Georgios Kyriacos Panayiotou, var feiminn og óframfærinn þegar Andrew tók hann undir sinn verndarvæng. Saman stofnuðu þeir svo hljómsveitina sem átti eftir að fara sigurför um heiminn og trylla kvenþjóðina.
Ég mæli með myndinni Wham! fyrir alla sem vönguðu á menntaskólaböllunum við Careless Whisper eða góndu ástaraugum á þá félaga á plakati fyrir ofan rúmin sín. Nostalgían segir sannarlega til sín við áhorfið!