Hjólagarpur Pétur Magnússon hér við eina jökulkvíslina á Laugaveginum, en nokkrar slíkar eru á leiðinni og geta þær verið farartálmi.
Hjólagarpur Pétur Magnússon hér við eina jökulkvíslina á Laugaveginum, en nokkrar slíkar eru á leiðinni og geta þær verið farartálmi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugavegurinn er leið sem hefur alltaf orkað sterkt á mig, enda er náttúran þar stórbrotin og fjölbreytt. Óvíða eru litirnir í landinu sterkari en einmitt þarna að…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Laugavegurinn er leið sem hefur alltaf orkað sterkt á mig, enda er náttúran þar stórbrotin og fjölbreytt. Óvíða eru litirnir í landinu sterkari en einmitt þarna að Fjallabaki,“ segir Pétur Magnússon í Mosfellsbæ. Með nokkrum félögum sínum fór Pétur, sem er forstjóri Reykjalundar, um síðustu helgi þessa vinsælu leið, úr Landmannalaugum suður í Þórsmörk. Hópurinn var á fjallahjólum en Pétur hefur margsinnis gengið um þessar slóðir og tvisvar tekið þátt í Laugavegshlaupinu.

54 km á 10 klukkustundum

Laugavegurinn var fyrst farinn árið 1979 og hefur alla tíð notið mikilla vinsælda meðal útivistarfólks. Leiðin, sem er í fóstri Ferðafélags Íslands, er 54 kílómetra löng og fer hæst í Hrafntinnuskeri, sem er í 1.050 metra hæð yfir sjó. Úr Landmannalaugum í Skerið, eins og staðurinn er stundum kallaður, eru 12 kílómetrar og hækkunin 490 metrar. Þetta er því talinn erfiðasti leggurinn á Laugaveginum.

„Sama hvort fólk er gangandi eða á reiðhjóli; að komast í Hrafntinnuskeri er alltaf talsverð þraut. Fara þarf upp hlíðar og hálsa, um úfið Laugahraunið og þegar ofar dregur þarf stundum að teyma hjólin eftir stórum snjóbreiðum. Þetta getur verið svolítið bras en er þó auðvitað bara krydd í tilveruna og hluti af skemmtuninni,“ segir Pétur.

Félagsskapur og ævintýri

Göngufólk fer Laugaveginn yfirleitt á fjórum dögum og gistir þá í fjallaskálunum á leiðinni. Pétur og félagar náðu hins vegar að hjóla leiðina á rúmum 10 klukkustundum sem verður að teljast nokkuð gott.

„Þegar brekkunum sleppti var þetta ekkert stórmál, en að komast yfir óbrúaðar árnar var kannski helsta fyrirstaðan,“ segir Pétur. Árnar sem þarna um ræðir eru Grashagakvísl og Bratthálskvísl við Álftavatn. Nokkru sunnar er Bláfjallahvísl við Hvanngil og hún er vatnsfallið á þessari leið sem er erfiðast yfirferðar. Fjórða áin sem vaða þarf er svo Þröngá, sem er rétt áður en komið er í Þórsmörk. Á þeim slóðum er annars mjög greiðfært. Segja má að úr Emstrum og suður í Mörk sé fyrsta flokks hjólaleið í fallegu, grónu landslagi.

„Sjálfsagt eru nærri 30 ár síðan ég fór Laugaveginn fyrst, þá sem almennur ferðamaður. Með tengdaföður mínum, Ingimar Einarssyni, var ég fararstjóri þarna fyrst árið 2008. Þegar allt er saman talið eru Laugavegsferðir mínar orðnar æði margar og þær renna svolítið saman í minni mínu. Stundum er sagt að á þessum slóðum megi finna allt sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða og má það til sanns vegar má færa. Að því leyti er engin tilviljun hvaða vinsælda Laugavegurinn nýtur. Þúsundir fara þarna á hverju ári,“ segir Pétur sem í ferðinni um síðustu helgi var með æskufélögum sínum frá Akranesi, þeim Sigurði Sigurjónssyni, Gný Guðmundssyni, Árna Pétri Reynissyni og Erlingi Alfeð Jónssyni. Aðrir í leiðangrinum voru Svavar Jóhannesson og Guðlaugur Stefán Egilsson.

„Ég býst við að Laugavegurinn verði áfram fyrst og fremst gönguleið, enda hentar hún best sem slík. Aðar leiðir henta hjólreiðum betur. Eigi að síður var ferð okkar vinanna um síðustu helgi alveg frábær. Strákar komnir á miðjan aldur þurfa hreyfingu sem er ævintýrið eitt, ekki síst þegar félagsskapurinn er góður,“ segir Pétur að síðustu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson