Steinar Júlíusson fæddist í Vestmannaeyjum 28. janúar 1930. Hann andaðist á Hrafnistu í Laugarási 4. júlí 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Júlíus Þórarinsson frá Norður-Fossi í Mýrdal, skipstjóri í Vestmannaeyjum, síðar verkstjóri í Rvk., f. 1906, d. 1983, og kona hans Ragna Jónsdóttir húsfreyja, f. 1905, d. 1995. Bræður Steinars voru Vilhelm verkstjóri, f. 1932, d. 2013, var giftur Guðbjörgu Benjamínsdóttur, Gylfi, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar í Vík, f. 1937, giftur Helgu Viðarsdóttur, og Aðalsteinn bankamaður, f. 1939, giftur Elínu Ingólfsdóttur.

Steinar giftist 1954 Guðrúnu Jónasdóttur, f. 17. janúar 1930 í Vestmannaeyjum, d. 18. júní 2016. Hún starfaði lengst af hjá Orðabók HÍ. Börn þeirra: 1) Jónas Þór viðskiptafræðingur, f. 1946, giftur Þóreyju Morthens, f. 1947. Synir þeirra eru: a) Guðjón Ragnar kennari, f. 1974, sonur hans og Þórunnar Jónsdóttur er Ágúst, b) Jónas Páll sviðsstjóri, f. 1976, giftur Sólveigu Hannesdóttur rektor og eiga þau fimm börn. Saman eiga þau synina Þorlák Inga og Finn Júlían. Fyrir átti Jónas Ísar Frey með Hildi Stefánsdóttur en Sólveig átti áður Þorgerði Kötlu og Pétur Þór. 2) Ragna sviðsstjóri, f. 1957, gift Þorsteini Þórhallssyni kennara, f. 1956. Börn þeirra eru þrjú: a) Þóra kennari, f. 1977, gift Sigurgeiri Finnssyni bókasafnsfræðingi. Þau eiga synina Véstein og Sighvat, b) Guttormur sagnfræðingur, f. 1988, c) Steinar, grafískur hönnuður, f. 1993. 3) Júlíus Þórarinn feldskeri, f. 1958, giftur Sigrúnu Guðmundsdóttur stjórnarráðsfulltrúa, f. 1959. Synir þeirra eru: a) Steinar, grafískur hönnuður, f. 1980, giftur Katrínu Karlsdóttur verkfræðingi, þau eiga Júlíu Ósk og Styrmi Örn, b) Oddur leikari, f. 1989, sambýliskona hans er Ebba Katrín Finnsdóttir leikkona. 4) Eyvindur Ingi tónlistarkennari, f. 1960. Hann var giftur Báru Grímsdóttur tónskáldi, f. 1960. Synir þeirra eru: a) Andri kennari, f. 1986, giftur Telmu Valey umhverfisfræðingi en þau eiga börnin Áróru og Atlas, b) Eysteinn listamaður, f. 1993, c) Júlíus nemi, f. 1997. 5) Gunnar Kristinn tónlistarmaður í Noregi, f. 1964. Kona hans var Mirja Kuusela, f. 1964, d. 2004. Dætur þeirra eru: a) Tira Tulia, f. 1993, og b) Íris, f. 1995, en þær vinna við þjálfun og tamningu hunda. Steinar nam feldskurð í Reykjavík hjá Óskari Sólbergssyni og rak saumastofu í Vestmannaeyjum. Um tíma stýrði hann afgreiðslu Flugfélags Íslands í Eyjum. Til Reykjavíkur flutti hann 1963 og starfaði sem feldskeri og rak verkstæði og seldi afurðir sínar bæði innanlands og utan. Á níunda áratugnum bjó hann í Noregi og vann að iðn sinni. Síðustu ár starfsævinnar sá hann um verkefnaöflun fyrir vinnustaðinn í Bjarkarási og bjó ásamt Guðrúnu konu sinnu í Trönuhjalla í Kópavogi. Steinar var listrænn, þægilegur í allri viðkynningu, víðlesinn og bjó yfir góðri þekkingu á heimahögunum. Steinar var jafnframt heimsmaður sem þekkti vel menningu og sögu nágranna okkar í austri og vestri og ræktaði frændgarðinn í Vesturheimi.

Útför Steinars fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 13. júlí 2023. Athöfnin hefst klukkan 15.

Mín fyrstu kynni af tengdaföður mínum voru þau að ég hitti fíngerðan mann í teinóttum jakkafötum sem gekk um með Times undir hendi og reykti vindil og mér fannst hann flottur. Og með okkur átti eftir að verða löng og falleg vinátta.

Steinar tengdapabbi var fæddur í Vestmannaeyjum og ólst þar upp. Ungur að árum byrjaði hann að spila á klarinett í Lúðrasveit Vestmannaeyja og átti hann góðar minningar þaðan spilandi lög eftir Oddgeir Kristjánsson og fleiri góða Eyjamenn. Það var oft minnst á þau ár með góðum félögum og ferðalögum. Hann byrjaði ungur að mála og málaði með vini sínum Sverri Haraldssyni listmálara og stefndu þeir suður í listnám en hlutir æxluðust á annan veg. Steinar varð feldskeri en þar var hann einstaklega góður fagmaður og var fenginn til að sauma á margan mektarmanninn og stofnaði skinnasaumastofu með sínu frábæra starfsfólki, sem var starfrækt í mörg ár.

Á síðari árum tók hann aftur upp pensilinn og málaði fallegar vatnslitamyndir sér til ánægju og yndisauka, þá málaði hann helst frá æskuslóðum sínum í Vestmannaeyjum og gaf fjölskyldu og vinum sem og samferðafólki á Hrafnistu myndirnar. Ungur kynntist hann tengdamóður minni Dúnu og byrjuðu þau búskap og stóð hún eins og klettur við hlið hans. Steinar var einstakt ljúfmenni og mannvinur, aldrei heyrði ég hann segja styggðaryrði um annað fólk. Hann var víðlesinn og sögumaður góður. Hann hafði gaman af ferðalögum og þau hjónin ferðuðust mikið, ekki síst til Vesturheims, þar heimsóttu þau ættingja og vini. Við fengum oft að heyra frá þeim hjónum um lestarferðina ógleymanlegu frá austurströnd Ameríku yfir til vesturstrandar. Steinar fór ófáar ferðir til Princeton í verslun „Landau’s“ þar sem tekin voru mál af viðskiptavinum.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna þótti mér gaman að upplifa skemmtilegar kvöldstundir með fjölskyldunni, þá setti Steinar oftar en ekki plötu á fóninn, bigband tónlist, Mills Brothers, Benny Godman og ekki síst þar sem klarinett kom við sögu. Dúna töfraði fram veitingar og var oft gestkvæmt í Safamýrinni.

Nú síðustu árin nutum við þess að eiga góðar samverustundir með tengdapabba, þar voru ísbíltúrar og heimsóknir til foreldra minna vinsælir viðkomustaðir.

Það voru glaðir bræður sem rúntuðu um bæinn og áttu góðar stundir saman, tengdapabbi sat í framsætinu og stjórnaði hvert farið var og bílstjórinn Alli bróðir hans keyrði eins og enginn væri morgundagurinn.

Steinar átti marga trygga og góða vini sem nú sjá á eftir félaga sínum.

Honum var umhugað um sitt fólk og fylgdist vel með barnabörnum sínum.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Við þökkum starfsfólki Hrafnistu fyrir frábæra umönnun og þar leið honum vel.

Takk fyrir fallega vináttu minn kæri og ég veit að Dúna tekur vel á móti þér.

Sigrún tengdadóttir.