Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Símamótið, stærsta yngri flokka mót landsins í knattspyrnu, hefst í dag og stendur til 16. júlí en setningarathöfnin fer fram á Kópavogsvelli klukkan 19.30.
Búist er við um 3.000 keppendum á mótinu frá félögum víðs vegar að á landinu. Þá má gera ráð fyrir því að foreldar og forráðamenn verði í kringum 10.000 talsins.
Þetta er í 39. sinn sem mótið er haldið en þátttakendur á mótinu eru frá sex ára og upp í 12 ára en keppt verður á æfinga- og keppnissvæði Breiðabliks sem og í Fagralundi í Kópavogi.
„Við byrjum í raun að huga að skipulagningu næsta móts strax um haustið og í mars fer svo allt á fullt ef svo má segja,“ sagði Jóhann Þór Jónsson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks og einn af aðalskipuleggjendum mótsins, í samtali við Morgunblaðið.
„Ég er búinn að vera formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks í fimm ár. Þetta er auðvitað í 39. sinn sem mótið fer fram en kórónuveirufaraldurinn hjálpaði okkur að stífa mótið af á sínum tíma. Við tókum þá ákvörðun um að setja þak á þátttökufjöldann og í stað þess að stækka og stækka ákváðum við að einbeita okkur frekar að gæðum umfram magn. Fyrirkomulagið á mótinu hefur því verið eins undanfarin ár og þannig rúllar það best og innan þeirra tímamarka sem við setjum okkur,“ sagði Jóhann.
Vinsamleg tilmæli til foreldra
Foreldrar og forráðamenn stúlkna sem taka þátt í Símamótinu 2023 verða áminntir sérstaklega ef þeir haga sér illa á hliðarlínunni á mótinu.
„Í ár ætlum við að sýna það í verki að við líðum ekki vanvirðingu eða dónaskap gagnvart okkar dómurum sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref í dómgæslu. Því miður er það þannig, enn þann dag í dag, að sumir foreldrar ná hreinlega ekki að hemja sig á hliðarlínunni og koma illa fram, hvort sem það er við dómarann eða mótherjann.
Við ákváðum því, í samstarfi við KSÍ, að fara þá leið að merkja alla dómara með vinsamlegum tilmælum og ábendingum til foreldra um að haga sér vel og nota orkuna í að hvetja sína iðkendur áfram á jákvæðan hátt. Ef til þess svo kemur, að foreldri eða forráðamaður þurfi á tiltali að halda, þá verða dómarar með bleika spjaldið á sér sem þeir munu sýna viðkomandi í von um betri hegðun. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að enginn fái bleika spjaldið í ár!
Með þessu vonumst við til þess að ná endanlega til þeirra sem hafa ekki enn náð að hemja sig á hliðarlínunni því það er augljóst af umræðu síðustu vikna að þetta verkefni á fullt erindi til allra, líka þeirra sem mæta á leiki í efstu deildum fótboltans.“