Flokkunarkerfi Innleiðing nýs flokkunarkerfis hefur farið vel af stað, að sögn Gunnars Dofra Ólafssonar, samskipta- og þróunarstjóra Sorpu.
Flokkunarkerfi Innleiðing nýs flokkunarkerfis hefur farið vel af stað, að sögn Gunnars Dofra Ólafssonar, samskipta- og þróunarstjóra Sorpu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Mist Þ. Grönvold mist@mbl.is Innleiðing nýs flokkunarkerfis heimilisúrgangs hefur farið vel af stað að mati Gunnars Dofra Ólafssonar, samskipta-og þróunarstjóra Sorpu.

Mist Þ. Grönvold

mist@mbl.is

Innleiðing nýs flokkunarkerfis heimilisúrgangs hefur farið vel af stað að mati Gunnars Dofra Ólafssonar, samskipta-og þróunarstjóra Sorpu.

Með lögum um hringrásarhagkerfi sem tóku gildi í janúar varð skylt að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka, en stefnt er að því að innleiðingunni ljúki um miðjan september.

Flokkað í fjórar tunnur

„Þetta hefur gengið eins og best hefur verið á kosið,“ segir Gunnar. „Undantekningalítið er fólk jákvætt fyirr þessu og ef það er neikvætt byggist það oft á einhverjum misskilningi,“ segir Gunnar og bætir við að lítið hafi borið á kvörtunum frá íbúum í kjölfar breytinganna.

Með innleiðingu laganna er fólki gert skylt að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka: pappír og pappa, plastumbúðir, matarleifar og blandaðan úrgang. Markmiðið með aukinni flokkun er að minnka sóun og endurnýja verðmæti, en að sögn Gunnars getur breytingin haft umtalsverð jákvæð áhrif í för með sér.

„Þumalputtareglan í þessu er að það sem hefur verið í blönduðu tunnunnni hingað til, helmingurinn af því eru matarleifar. Þannig að þegar það er farið út ætti bara helmingurinn að vera eftir,“ segir Gunnar sem bætir við að í kjölfar breytinganna verði farið af stað með gagnasöfnun sem komi til með að draga upp skýra mynd af þeim umhverfisáhrifum sem fylgja.

Lög sem ber að fylgja

Þó flokkum fjölgi með tilkomu breytinganna er annað markmið þeirra að tunnum fjölgi eins lítið og kostur er á. Í því skyni segist Gunnar ekki vita betur en svo að vel hafi gengið að ná settu markmiði hingað til.

„Sveitarfélögin halda betur utan um innleiðinguna sjálfa en til dæmis í Kópavogi hefur þetta þýtt eina tunnu í viðbót fyrir flest sérbýli,“ segir Gunnar og bætir við að í augnablikinu búi sveitarfélög sig undir það að setja miða á tunnur þar sem reglum er ekki fylgt, því um sé að ræða lög sem fólki beri skylda að fylgja. „Það er ekki í boði að vera ekki með,“ segir Gunnar.

Innleiðingin er í fullum gangi, en í tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér í vikunni kemur fram að tunnudreifing sé nú hafin í Vesturbæ Reykjavíkur, en þar verður þeim úthlutað á næstunni samkvæmt gerð húsnæðis og fjölda íbúa.

Höf.: Mist Þ. Grönvold