Sjávarlíf Erlendur Bogason sýndi myndir sem hann hefur tekið af sjávarlífi á goslokahátíðinni í Vestmannaeyjum.
Sjávarlíf Erlendur Bogason sýndi myndir sem hann hefur tekið af sjávarlífi á goslokahátíðinni í Vestmannaeyjum. — Morgunblaðið/GSH
Í skýrslu sem Erlendur Bogason kafari hefur skrifað kemur fram að margt bendir til þess að hrygningartímabili þorsks í Þistilfirði ljúki áður en hrygningarstopp á veiðum hefst. Hrygningarstoppið á þorskveiðum í Þistilfirði er frá 15.-30

Í skýrslu sem Erlendur Bogason kafari hefur skrifað kemur fram að margt bendir til þess að hrygningartímabili þorsks í Þistilfirði ljúki áður en hrygningarstopp á veiðum hefst. Hrygningarstoppið á þorskveiðum í Þistilfirði er frá 15.-30. apríl ár hvert. Rannsóknir Erlends benda hinsvegar til þess að hrygningartímabilið geti jafnvel verið búið 13. apríl og því fara hrygningarstoppið og hrygningartímabil þorsksins ekki saman.

Í skýrslunni er vakin athygli á hrygningarsvæðinu Hríslunni sem er í Lónafirði en þar voru veidd 100 tonn af hrygningarþorski með dragnót í byrjun apríl. Þann 12. apríl voru lögð fjögur net til að kanna hvort veiðarnar hefðu áhrif á fiskgengd á svæðinu sem það virðist hafa gert því aflinn var aðeins einn þorskur. Í allri rannsókninni fannst aðeins ein hrygningartorfa í Lónafirði.

Erlendur segir við Morgunblaðið að dragnót sé frábært veiðarfæri en hinsvegar þurfi að taka tillit til staðar og stundar. Það sé ekki líðandi að hrygningarþorskur sé veiddur á hrygningartímabilinu með dragnót.

„Ég vil bara sjá samvinnu hjá sjómönnum, fræðimönnum og hagsmunaaðilum um hver sé rétti tíminn. Við vitum það að alls staðar í heiminum verða breytingar á vistkerfum og við þurfum að fylgja þeim líka. Samt ákveðum við eitthvert hrygningarstopp fyrir 20-30 árum og það er bara meitlað í stein,“ segir Erlendur.

Skýrslan var unnin fyrir matvæla- og landbúnaðarráðuneytið en í skýrslunni segir að meiri tíma þurfi til að rannsaka hrygningartorfur. „Í samvinnu við sjómenn og matvælaráðuneytið væri áhugavert fá smá svæði við Kóngslæk og Hríslu afmarkað til rannsókna. Byrja rannsóknir fyrr og vera á svæðinu út hrygningarstoppið,“ segir í skýrslunni. hng@mbl.is