60 ára María Björk er Reykvíkingur í húð og hár. Hún hefur alltaf haft áhuga á tónlist. „En ég var feimin og beið alltaf eftir að allir færu svo ég gæti sungið fyrir framan spegilinn,“ segir hún og hlær. Hún var í Söngskólanum í Reykjavík en lærði einnig í Bandaríkjunum öðruvísi söngtækni, meira í ætt við djass og blús. Eftir skilnað vissi María að hún yrði að finna sér sína hillu en fyrirtæki hennar og fv. eiginmanns, Hljóðsmiðjan útgáfa, hafði gefið út fjölda af plötum. „Þá stofnaði ég Söngskólann 1994 og var ég að hugsa um alla krakkana eins og mig sem hefðu áhuga á söng en væru feimnir og þyrftu aðstoð við að blómstra í söngnum.“ Fyrst var skólinn í Tónabæ en síðar í Valsheimilinu. „Hann óx svo hratt að ég fékk Siggu Beinteins og svo Regínu, Heru og Margréti Eir til að kenna með mér.“
María Björk hefur verið í tónlistarbransanum alla tíð og var m.a. umboðsmaður Jóhönnu Guðrúnar í tólf ár, auk þess að semja sína eigin tónlist og taka þátt í Júróvisjón svo aðeins fátt sé upp talið. Á sumrin rekur hún síðan gistiheimilið í húsnæði Söngskólans í Faxafeni, auk þess að reka hótelið B14 á Bankastræti 14 í miðbænum. Þegar starfinu sleppir segist María hafa mikinn áhuga á að fara á kajak og svo sé hún kafari og hafi kafað víða um heiminn, eins og í Ísrael, karabíska hafinu og í Mexíkó. „Allt sem tengist sjónum heillar mig og ég hef líka verið mikið á vatnaskíðum.“
Fjölskylda María er í sambúð með Erni Sævari Hilmarssyni, f. 1977, en þau búa í Garðabæ. Hún á þrjú börn: Söru Dís Hjaltested, f. 1986; Berg Hjaltested, f. 1990 og Oliver Glick, f. 2000 og barnabörnin eru orðin þrjú.