Snorrabraut Miklar framkvæmdir standa yfir á lóðinni. Mjólkurstöðin gamla mun ganga í endurnýjun lífdaga.
Snorrabraut Miklar framkvæmdir standa yfir á lóðinni. Mjólkurstöðin gamla mun ganga í endurnýjun lífdaga. — Morgunblaðið/sisi
Til stendur að endurbyggja gamla Mjólkurstöðvarhúsið að Snorrabraut 54 og breyta því í íbúðahótel. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur heimilað umsækjanda, Rökkurhöfn ehf., að láta vinna breytingu á gildandi deiliskipulagi

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Til stendur að endurbyggja gamla Mjólkurstöðvarhúsið að Snorrabraut 54 og breyta því í íbúðahótel. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur heimilað umsækjanda, Rökkurhöfn ehf., að láta vinna breytingu á gildandi deiliskipulagi.

Húsið Snorrabraut 54 var byggt árið 1935 af Mjólkurfélagi Reykjavíkur eftir teikningum Einars Erlendssonar, húsameistara. Húsið er hannað í fúnkísstíl með klassískum áhrifum, steinsteypt, á tveimur hæðum með kjallara. Samkvæmt fasteignaskrá er stærð þess 986,8 fermetrar og fasteignamat 373,5 milljónir króna. Síðustu áratugina hafa fjölmörg fyrirtæki verið með starfsemi í húsinu. Má þar nefna Osta- og smjörsöluna, útvarpsstöðina Bylgjuna, OZ og Söngskólann í Reykjavík.

„Húsið nýtur verndar í grænum flokki samkvæmt Húsverndarskrá Reykjavíkur um verndum 20. aldar bygginga. Um er að ræða reisulegt hús sem setur svip sinn á götumynd Snorrabrautar en því miður hefur viðhald vantað undanfarið og ásýndin því nokkuð hrörleg í dag,“ segir m.a. í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.

Gluggar endurnýjaðir

Fram kemur í umsögn hans að gluggasetningu og ytra byrði hússins hafi verið mikið breytt í seinni tíð og viðbyggingum bætt við vestan megin (á bakhlið). Skv. fyrirspurn er fyrirhugað að endurgera glugga sem næst upprunalegri mynd og að eldri byggingarhlutar til norðvesturs verði fjarlægðir.

Þá kemur fram að lægri viðbygging til norðurs (Ketilhúsið) og skorsteinn eru mjög eru illa farin og þarfnast algerrar endurnýjunar. Óskað er heimildar til að rífa skorstein og endurbyggja Ketilhúsið. Skipulagsfulltrúi fellst á endurbyggingu Ketilhúss og niðurrif skorsteins en hann verði að endurbyggja. „Ekki er fallist á að fjarlægja skorstein til frambúðar þar sem hann er orðinn að kennileiti í umhverfi sínu,“ segir verkefnastjórinn.

Skipulagsfulltrúi fagnar áformum um að færa húsið nær upprunalegri mynd og hefur umsækjandi lagt fram nokkrar tillögur að breytingum á gluggum hússins. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er heimild fyrir hóteli á lóðinni og skipulagsfulltrúi gerir því ekki athugasemd við að núverandi húsi verði breytt í íbúðahótel.

Nú standa yfir framkvæmdir á baklóðinni, næst Sundhöllinni. Þar verður reist þriggja hæða fjölbýlishús með um 40 íbúðum og verslunar-/þjónusturými í þeim hluta götuhæðar sem snýr að Snorrabraut.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson