Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera er fallinn frá, 94 ára. Talsmaður Milan Kundera-bókasafnsins í Brno tilkynnti andlátið og sagði skáldið hafa látist á heimili sínu í París á þriðjudag eftir löng veikindi.
Kundera er þekktastur fyrir skáldsöguna Óbærilegur léttleiki tilverunnar en hann skilur eftir sig stórt safn verka; skáldsögur, ljóð, leikrit og ritgerðir. Hann var fæddur í Brno í Tékklandi en flutti til Frakklands 1975 og skrifaði í seinni tíð á frönsku.
„Ég held að hann sé af flestum talinn einn af merkari höfundum 20. aldar. Hann er með þekktari og virtari höfundum okkar samtíma,“ segir þýðandinn Friðrik Rafnsson sem nýverið lauk við að þýða á íslensku öll þau verk sem teljast til höfundarverks Kundera. Það síðasta, ritgerðasafnið Svikin við erfðaskrárnar, kom út í fyrra.
Blés nýju lífi í skáldsöguna
Spurður út í framlag Kundera til bókmenntanna segir Friðrik það margþætt. „Það eru tvær meginhliðar á honum. Það er annars vegar skáldsagnahöfundurinn og ég held að menn séu almennt sammála um að hann hafi kannað nýjar lendur og endurnýjað að mörgu leyti evrópsku skáldsöguna sem var komin svolítið í öngstræti á 7. áratugnum. Menn voru að tala um að skáldsagan væri dauð og ýmislegt svoleiðis. En hann, ásamt fleirum auðvitað, blés nýju lífi í skáldsöguna og opnaði nýjar leiðir. Það er stórmerkilegt framlag.“
Hins vegar er Kundera þekktur fyrir ritgerðir sínar. „Hann skrifaði mikið um skáldsöguna í Evrópu, um tónlist og um það hvernig listgreinarnar fléttast saman. Hann bendir aftur og aftur á að það sé ákveðin víxlfrjóvgun sem á sér stað í listunum. Hann nýtti sér það sjálfur mjög mikið, sótti sérstaklega mikið í tónlistarfjársjóðina sem við eigum í Evrópu. Það var hans framlag til umræðunnar um menningu og listir.“
Á stóran lesendahóp
Kundera var margverðlaunaður og hefur að auki oft í gegnum tíðina verið orðaður við Bókmenntaverðlaun Nóbels. En nú er nokkuð ljóst að hann hlýtur þau ekki úr þessu og Friðrik játar því að hann sé meðal þeirra sem telji hann hafa átt þau skilið.
„Mér finnst það að sjálfsögðu. Ég held að hann hafi alveg verðskuldað Nóbelinn. En ég held það sé mikilvægara að hann á stóran og góðan lesendahóp úr öllum stéttum og hefur náð til ótrúlega fjölbreytts hóps fólks. Það er mikilvægara þó Nóbelsverðlaun séu auðvitað gríðarleg viðurkenning. En það sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið er ævistarfið sem er mikið að vöxtum. Ég er líka þeirrar skoðunar að slík verðlaun gagnist mest þeim höfundum sem hafa ekki náð mikilli útbreiðslu en verðskulda hana. Hann kannski þurfti minna á þeim að halda ef svo má segja,“ segir Friðrik.
„Ég spurði hann einhvern tímann út í þetta og hann sagði að að sjálfsögðu myndi hann þiggja þau ef til þess kæmi en ég er ekki viss um að hann hefði notið þess að standa í pontu fyrir framan þrjú hundruð manns. Hann var mjög hlédrægur maður.“
Þeir Friðrik voru ágætir vinir og Kundera mikill Íslandsvinur. „Við höfum verið í talsverðum samskiptum og reglulega. Ég hitti hann síðast fyrir rúmu ári í París. Hann var kominn á tíræðisaldur og þá er farið að halla undan fæti eins og gengur en nokkuð brattur miðað við aldur og fyrri störf,“ segir Friðrik.
„Það er gaman að hafa klárað þýðingarnar á meðan hann var enn á lífi án þess að það skipti svo sem höfuðmáli. Ég er þakklátur lesendum, útgefendum og ykkur fjölmiðlum að hafa sinnt verkum hans mjög vel alla tíð. Án þess væri þetta ekki gerlegt.“