Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Góður rómur er gerður að ferðaþjónustu þeirri sem komið hefur verið á laggirnar á Helgustöðum í Unadal, skammt frá Hofsósi í Skagafirði. Starfsemi Dalaseturs hófst í fyrra, gistiþjónusta í þremur sumarhúsum sem taka sex gesti hvert. Sumarhúsin verða opin gestum allt árið, en í Dalakaffi þar sem starfsemi hófst í júní síðastliðnum verður opið yfir sumarmánuðina. Þar er á boðstólum kaffi, heimabakaðar kökur og súpur. Kaffihúsið er í húsi með braggalagi.
Dagdraumar lífsins
Að starfsemi þessari standa hjónin Þórarinn Þórðarson og Helga Hjálmarsdóttir, en hún er frá Hólkoti en Helgustaðir eru byggðir úr landi þeirrar jarðar. „Okkur fjölskylduna hafði alltaf langað til að hasla okkur völl í ferðaþjónustu og setja á fót starfsemi á því sviði. Þegar við hjónin vorum hætt á almennum vinnumarkaði skapaðist svigrúm til þess að huga að dagdraumum lífsins og láta þá ævintýrið verða að veruleika eins og nú hefur gerst hér,“ segir Þórarinn Þórðarson.
Með Þórarni og Helgu í þessari starfsemi er sonur þeirra, Daníel, og tengdasonurinn Stefán Óskar Hólmarsson – en rekstur Dalakaffis er í höndum þess síðarnefnda. Daníel er nuddari að mennt og starfi og býður í krafti þess upp á þjónustu í Dalasetri. Nuddbekkir og fleira gott er á staðnum svo sem heitir pottar sem standa á bökkum Unadalsár þar sem pottverjar geta fengið kælingu.
Útivist, nudd og jóga
„Þessi starfsemi hér hefur verið í hægri en öruggri uppbyggingu á síðustu árum. Þetta land eignuðumst við árið 2000 en byrjuðum ekki að reisa sumarhúsin fyrr en árið 2019. Tókum rólega tímann í heimsfaraldri til þess svo þetta var allt tilbúið þegar veiran var gengin niður. Bókanir í húsin eru með ágætum og erlendir ferðamenn þar allsráðandi,“ segir Þórarinn og að síðustu:
„Gestir á kaffihúsinu eru blandaðri hópur og sú starfsemi rúllar vel af stað. Alla daga hingað til höfum við fengið gesti og um helgar koma margir.
Sundlaugin á Hofsósi er listilega vel hönnuð inn í umhverfið og dregur marga að. Vesturfarasetrið hefur líka mikla sérstöðu. Hér fara margir um, til dæmis á leiðinni til Siglufjarðar, en almennt tel ég að ferðaþjónustan hér í austanverðum Skagafirði eigi mikið inni og hér er vert að stoppa. Raunar kom hugmyndin að Dalasetri í þeirri mynd sem nú er árið 2017 og rauði þráðurinn í þessu öllu er heilsutengd ferðaþjónusta með áherslu á útivist, nudd og jóga.“