Helgi Friðgeirsson fæddist 11. júlí 1944 í Ölfusholtshjáleigu í Rang. Hann lést á D-deild HSS 3. júlí 2023.

Foreldrar hans voru Friðgeir Björgvinsson frá Kolfreyjustað, Fáskrúðsfirði, f. 1922, d. 2016, og Sigríður Árnadóttir húsfreyja frá Ölfusholtshjáleigu Rang., f. 1926, d. 2019. Þau eignuðust sex börn og var Helgi elstur þeirra. Yngri systkini hans eru Erlingur, f. 1945, Ástríður, f. 1947, Pétur Lúðvík, f. 1953, Árni Marz, f. 1954, og ófullburða stúlka. Þau bjuggu lengst af á Kalmanstjörn í Vestmannaeyjum.

Hinn 26. desember 1974 kvæntist Helgi eftirlifandi eiginkonu sinni, Margréti Bárðardóttir frá Reykjavík, f. 7. febrúar 1948. Foreldrar hennar voru Bárður Jóhannesson frá Reykjavík, f. 1926, d. 1996, og Magnea Magnúsdóttir frá Vík í Mýrdal, f. 1925, d. 2012. Helgi og Margrét eiga þrjár dætur: 1) María, f. 1970, börn hennar eru Pálmi Grétar, f. 1990, hans dóttir Ísabella Elín, f. 2014, Alexsandra, f. 1995, eiginmaður hennar Qasim Iqbal, f. 1990, börn þeirra Hakeem, f. 2021, og Nevaeh, f. 2022. Helga Margrét, f. 1997, sambýlismaður Guðmundur Flosi, dóttir þeirra Lúna Kristín, f. 2020. 2) Margrét Linda, f. 1976, dóttir hennar Lovísa Sólveig, f. 1994. 3) Díanna Dúa, f. 1979, eiginmaður hennar er Sverrir Bergsteinsson, f. 1983. Börn þeirra eru Viktor Steinn, f. 2008, og Unnur Amalía, f. 2011.

Fyrverandi eiginkona Helga er Guðbjörg Stella Traustadóttir, f. 1943, sonur þeirra er Friðgeir Trausti, f. 1966, eiginkona hans er Susan Bolles, f. 1962, sonur Friðgeirs er Damien Helgi, f. 1993, unnusta hans er Tiffany Kerr.

Helgi ólst upp í Vestmannaeyjum og lauk þar meistaraprófi í húsasmíðum en stundaði sjómennsku lengst af með föður sínum. Gosárið 1973 fluttist Helgi til Reykjavíkur þar sem hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni og hófu þau þar búskap. Um árabil bjó hann í Grindavík og stundaði sjómennsku. 1984 keyptu þau hjónin sælgætisgerðina Pálmann og unnu við það um árabil þar til sjómennskan kallaði hann aftur til baka. En til gamans má geta þess að hann var frumkvöðull í byggingu yfirbyggðra báta (Strætóinn) sem algengir eru í dag.

Helgi stundaði sjómennsku til ársins 2002, eftir það stundaði hann smíðar og gegndi jafnframt starfi næturvarðar þar til yfir lauk. Helgi naut þess að vera með fjölskyldu sinni, ferðast, fara á fótbolta- og handboltaleiki barnabarnanna (Víkingar) og dytta að bát sem hann var að gera upp. Var hann laginn við smíðar og naut þess að framkvæma hvað sem var, hvort sem það voru smíðar, pípulagnir eða að leggja rafmagn. Helgi var hvers manns hugljúfi.

Útför Helga fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 13. júlí 2023, klukkan 13.

Helgi Friðgeirsson, tengdafaðir minn, er allur eftir skammvinn en afar erfið veikindi og það er sárt til þess að hugsa að aðeins fyrir örfáum vikum var hann hér með okkur og engan grunaði hve stutt var eftir.

Helga kynntist ég fyrir hartnær tuttugu árum þegar leiðir okkar Díönnu lágu saman og með okkur varð fljótt einstök vinátta enda einkenndu Helga þeir kostir sem flestir laðast að. Hann var einstaklega hlýr maður, úrræðagóður og greiðasamur með eindæmum. Helgi var í raun hálfgert náttúruafl og einn af þeim síðustu af þeirri tegund manna sem víla ekkert fyrir sér og manni finnst geta nánast allt. Þá skipti engu máli hvort stýra þyrfti bátum á gjöful fiskimið við Íslandsstrendur eða reisa hús frá grunni upp í kvist – það lék allt í höndunum á honum.

Helgi Friðgeirsson var hnífskarpur og þó okkar skoðanir stönguðust stundum á þá bar hann virðingu fyrir því sem maður sagði og hlustaði áhugasamur á rök þess sem við hann ræddi. Þær samræður enduðu þó stundum á því að hann sagði; „ég skil það sem þú segir en þetta er rangt hjá þér“. Sá einstaki húmor sem tengdafaðir minn hafði var með honum til lokadags og jafnvel þó veikindin hafi tekið af honum gríðarlegan toll undir það síðasta þá tókst honum að láta okkur fjölskylduna skella upp úr með hnyttnum athugasemdum, alveg til þess síðasta.

Helgi Friðgeirsson var mikill fjölskyldumaður og það er þyngra en tárum taki að við fáum ekki að njóta meiri tíma með honum, hvort sem það er að bauka eitthvað og stússast eða ferðast saman til útlanda. Þau Magga nutu sín best í hitanum á Spáni og áttu þar margar af sínum bestu stundum, tvö ein og með fjölskyldunni. Margrét og Helgi voru náin og samstíga í því sem lífið bar á borð fyrir þau og votta ég tengdamóður minni mína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

Í dag kveð ég Helga Friðgeirsson sem segja má að hafi gengið mér í föðurstað við andlát míns eigin föður fyrir 14 árum. Hvíl í friði kæri vinur.

Sverrir

Bergsteinsson.

Þegar komið að kveðjustund er mikill söknuður. Það er svo óraunverulegt að vera að skrifa minningargrein um þig.

Við erum þakklát fyrir að hafa átt samverustundir með þér og elsku Möggu Steinu. Þú varst bóngóður maður og ekki þurfti að nefna það oft ef okkur vantaði aðstoð.

Hann var mikill barnakall og hændust öll börn að honum svo ekki sé meira sagt. Minningarnar eru margar og góðar og við munum ylja okkur um þær um ókomna tíð. Megir þú hvíla í guðs friði kæri vinur.

Elsku Magga Steina og börn og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og megi guð vera með ykkur.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Jóhannes og Agnethe.