Baksvið
Þorlákur Einarsson
thorlakur@mbl.is
Ekki er víst að allir lesendur Morgunblaðsins þekki fyrirtækið Arctic Green Energy. Þó rekur það stærsta fyrirtæki heims í nýtingu jarðvarma til húshitunar og er með skrifstofur í Kópavogi. Forstjóri fyrirtækisins, Sigurður Atli Jónsson, fór yfir ævintýralegan vöxt fyrirtækisins í Kína og verkefnin fram undan.
Sögu fyrirtækisins má rekja aftur til ársins 2002, þegar forseti Kína, Jiang Zemin, kom í opinbera heimsókn til Íslands. Hreifst hann og sendinefnd hans mjög af uppbyggingu jarðhitainnviða á Íslandi. Í kjölfarið var stofnað fyrirtækið Sinopec Green Energy, en að því standa íslenskir og kínverskir aðilar. Sigurður Atli segir Arctic Green fara með 46,2% hlutafjár, en hið kínverska Sinopec eigi 53,8% Þó sé algert jafnræði í stjórn félagsins og allar ákvarðanir teknar sameiginlega.
90 milljónir fermetra
Til að átta sig á umfangi starfseminnar í Kína er gott að líta á nokkrar tölur í því samhengi. Fyrirtækið hefur borað fleiri en 900 borholur í leit að heitu vatni og komið að framkvæmd yfir 1000 jarðhitaverkefna. Um 90 milljónir fermetra eru kyntir með heitu vatni fyrir tilstilli fyrirtækisins og hefur það nýtingarréttindi til að hita um 400 milljónir fermetra. Um 5 milljónir manna njóta góðs af hitaveituverkefnum þess. „Á þessu ári erum við að spara útblástur á um 5,2 milljónum af koltvísýringi. Árangur okkar í Kína er langstærsta framlag Íslands til loftslagsmála“, segir Sigurður Atli.
Í máli Arctic Green manna hefur áður komið fram að jarðvarmi sé gríðarlega vannýtt auðlind á heimsvísu. Sigurður Atli nefnir til dæmis að um þriðjungur íbúa Evrópu gæti nýtt sér jarðvarma til húshitunar. Þess í stað er oftast notast við kol, olíu eða gas til húshitunar, sem er í eðli sínu mjög óhentugt. Allt sé þetta mjög orkuríkt jarðefnaeldsneyti, sem notar varma yfir 100 gráðum til kyndingar og af gangi varmi í um 90 gráðum sem verður engum til gagns. „Það felst líka sóun í því að nota jarðefnaeldsneyti til húshitunar, sem hefur svona gríðarlega hátt orkuinnihald, við jafneinfaldan hlut og að halda húshita við um 20 gráður allt árið um kring.“
Fagna samkeppni
Sigurður Atli er því spurður hvers vegna allir séu ekki að tileinka sér jarðhitann, fyrst kostirnir séu svo augljósir. „Jarðhiti er vel þekktur á Íslandi og hefur lengi verið hluti af daglegu lífi, en þannig er það ekki alls staðar. Jarðhiti er eins og ný vara á markaði sem þarf að kynna betur svo hún nái fótfestu. Nýting hans er líka flókin, bora þarf í jörðina, fá nýtingarleyfi og byggja upp innviði svo að boltinn fari að rúlla. Ég held að raunveruleg útbreiðsla jarðvarma verði ekki fyrr en stóru olíu- og gasfyrirtækin fara að vinna á þessum markaði af fullum krafti.“
Hann segist þó merkja ákveðin kaflaskil eftir innrás Rússa í Úkraínu og í þeirri orkukreppu sem fylgdi í kjölfarið. Hugtakið orkuöryggi hafi öðlast alveg nýja merkingu og fyrirtækið hafi merkt aukinn áhuga á starfi sínu. Vandinn sé hins vegar sá möguleikar jarðvarma séu illa kynntir fyrir þorra almennings og stjórnmálamönnum Evrópu.
Sigurður Atli segist ekki óttast samkeppni á þessum markaði, heldur einmitt hið gagnstæða. Arctic Green vill fá sem flesta í það að kynna jarðvarma sem raunverulega lausn. Jarðvarma sé nefnilega hægt að nota í fleira en til þess að hita hús, hann má líka nota til þess að kæla þau.
Hann nefnir að um 30% mannkyns þurfi á húshitun að halda en langtum stærri hluti eða 70% þurfi á kælingu húsa sinna að halda. „Orkan sem við náum upp er varmaorka, með ákveðnum aðferðum er líka hægt að nýta þessa orku til þess að kæla. Það er sambærilegt við það hvernig ísskápur kælir, kælivökvi er nýttur til að halda honum köldum.“ Árstíðir geta líka kallað fram ólíkar þarfir og sömu kerfi geta verið nýtt til að hita um vetur og kæla á sumri. Arctic Green sé með slíkar lausnir í þróun í Kína og á fleiri stöðum samkvæmt Sigurði Atla.
Skráning á markað undirbúin
Arctic Green hefur stækkað um 30% á hverju ári, hvort sem litið er á tekjur eða umfang. Ærin verkefni eru til staðar í Kína en fyrirtækið vill líka gjarnan þróa verkefni í öðrum heimshlutum. Í augnablikinu hefur þróun þeirra miðast við Suðaustur-Asíu, Mið-Austurlönd og Austur-Evrópu. Fyrirtækið hafi sótt fé til aukins vaxtar, meðal annars frá GIC, sem sé þjóðarsjóður Singapúr sem fjárfesti 240 milljónir bandaríkjadala eða um 32 milljarða króna, til frekari vaxtar utan Kína.
Eins hefur skráning fyrirtækisins á markað verið undirbúin, þótt það hafi tafist nokkuð vegna heimsfaraldurs. „Við værum þá að tala um skráningu kínverska félagsins. Þá gætum við nýtt það til að afla fjár á markaði til frekari vaxtar. Fyrirtækið nyti þá þess aðhalds sem er að vera á markaði og verður sýnilegra. Skráning er enn í skoðun, ferli sem komið er af stað innan kínverska stjórnkerfisins þó ekki hafi verið sótt um skráningu enn þá.“
Ræturnar eru hér
Aðkoma Sigurðar Atla að fyrirtækinu var upphaflega í gegnum fjármögnun verkefna. Hann kynntist starfi þess og stofnandanum, Hauki Harðarsyni, þegar Sigurður Atli var sjálfur forstjóri bankans Kviku. Síðar hafi hann komið í stjórn Arctic Green og gegnt ráðgjafarhlutverki þegar um 600-700 milljónir bandaríkjadala var aflað í rekstur þess. Hann tók svo við forstjórastólnum á síðasta ári og er kominn á fullt í frekari uppbyggingu þess.
Í ljósi þess að stór hluti starfseminnar er á erlendri grundu, hvers vegna þarf þá fyrirtækið að vera á Íslandi? „Framgangur þessa fyrirtækis er að þakka þeirri þekkingu á jarðvarma sem hefur orðið til á Íslandi. Það er litið til Íslands með virðingu þegar kemur að nýtingu þeirrar auðlindar. Það hentar okkur því vel að að vera með þekkingarsetur okkar hér og vera í klasa þekkingar í jarðhitamálum. Hér eru ræturnar,“ segir Sigurður Atli að lokum.
Auðlind
Jarðhiti í
boði víðar
Jarðhitann er hægt að nýta víðar en á Íslandi. Sólin er í 150 milljón kílómetra fjarlægð en aðeins 3.500 kílómetrum fyrir neðan okkur er önnur sól, jafnheit, í kjarna jarðar sem gefur stöðugt frá sér orku. Ekki búa öll lönd yfir háhitasvæðum eins og á Íslandi til fjölbreyttrar nýtingar. En víða eru lághitasvæði þar sem þarf aðeins að bora 1-3 kílómetra í jörðu til að ná vatni sem dugir vel til húshitunar. Talið er að að þriðjungur Evrópubúa gætu haft aðgang að slíkum gæðum.
Jarðhita er gjarnan að finna í setlögum, líkt og hefur verið reynsla Arctic Green í Kína. Skiptir þá miklu að tryggja niðurdælingu vatns að notkun lokinni til þess að tryggja hringrás og gæta að þrýstingur í jörðu viðhaldist.