Edda Ísfold Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 1. maí 1940. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 6. júlí 2023 eftir mjög erfið veikindi.
Foreldrar hennar voru Jón Björgvin Björnsson verkamaður, f. 25.12. 1913, d. 29.5. 1965, og Elín Esther Högnadóttir, verkakona og húsmóðir, f. 6.5. 1917, d. 7. 9. 1992. Systkini Eddu: Högni, f. 8.7. 1937, d. 21.7. 1939; Högni B., f. 4.8. 1942, d. 5.4. 2003, maki Málfríður Hadda Halldórsdóttir, f. 10.6. 1946, d. 21.1. 2020, eignuðust þau þrjú börn. Björgvin, f. 14.10. 1944, maki Jónína Unnur Bjarnadóttir, f. 7.9. 1946, eignuðust þau þrjú börn. Margrét Guðný, f. 31.1. 1947, maki Ólafur Rúnar Albertsson, f. 23.3. 1945, eignuðust þau þrjú börn.
Edda giftist Garðari Hjálmarssyni, f. 15.8. 1937, d. 8.7. 1963, hinn 6.12. 1958 og eignuðust þau tvo drengi: 1) Þór, f. 9.2. 1958, maki Helga Hákonardóttir, f. 16.7. 1959 og eiga þau tvö börn, Hákon Svan, f. 23.9. 1987, og Eddu Karen, f. 29.12. 1994. 2) Jón B., f. 9.12. 1959, maki Sigríður Ögmundsdóttir, f. 6.9. 1958, og eiga þau fjóra drengi: Garðar Þór, f. 23.10. 1981, Davíð, f. 17.7. 1984, Ögmund, f. 15.7. 1989, og Björgvin Val, f. 27.12. 1995.
Edda giftist hinn 17.12. 1968 Olgeiri Victori Einarssyni, f. 18.8. 1936, d. 22.9. 1980. Börn hans af fyrra hjónabandi eru Helga, f. 3.2.1962, og Sigursteinn, f. 11.12. 1962, d. 6.4. 2010. Dóttir Eddu og Olgeirs er Brynja Olgeirsdóttir Stø, f. 20.11. 1971, maki Jan Frode Stø og eru börn þeirra þrjú, Andrea Eli, f. 30.12. 2003, Sarah Rakel, f. 22.2. 2008, og Axel Erik, f. 16.4. 2010. Fyrir átti Brynja Sunnevu Rut, f. 16.3. 1995.
Edda giftist Steingrími Vikari Björgvinssyni, f. 31.5. 1941, hinn 5.3. 1988. Börn hans af fyrra hjónabandi: Björgvin, f. 30.3. 1968, Helga, f. 3.3. 1970, og stjúpsonurinn Hákon Möller, f. 29.9. 1962.
Edda byrjaði ung að vinna fyrir heimilinu, hún vann í Sambandinu, Kjöti og grænmeti og Samvinnubankanum en lengst af vann hún hjá Sláturfélagi Suðurlands. Edda var mjög virk í félagsstörfum alla tíð hvort sem var fyrir starfsmannafélag eða annað, einnig tók hún virkan þátt í safnaðarstarfi Grafarvogskirkju um árabil. Hún var í stjórn safnaðarfélags kirkjunnar á árunum 1994-2015 og gegndi þar störfum gjaldkera. Þegar hún lauk störfum sínum á þeim vettvangi var hún kjörin heiðursfélagi félagsins með þakklæti fyrir framúrskarandi og fórnfúst starf. Hún hafði umsjón með starfi eldri borgara í Grafarvogskirkju og sat í öldrunarráði þjóðkirkjunnar.
Útför Eddu Ísfoldar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 13. júlí 2023, og hefst athöfnin kl. 15.
Elsku mamma er farin inn í eilífa sumarlandið og læt ég mig dreyma að hún ríði um dalina á góðum hesti eins og enginn sé morgundagurinn.
Ég er yngst, svona algjört örverpi mömmu. Við vorum mjög miklar vinkonur og nánar, þó svo mamma gæti verið svolítið lokuð af og til með sínar tilfinningar og sín mál.
Ég átti fjölbreytt og góð bernskuár og er mér efst í minni að ekkert kemur af sjálfu sér. Mamma var hörkutól þegar kom að vinnu og verkefnum. Hún gerði allt með heilu hjarta og gerði það mjög vel. Hún elskaði að syngja, dansa og halda veislur, hvort sem var heima, fyrir sig, okkur eða aðra. Hún var alltaf boðin og búin að gefa af sér og snillingur þegar kom að matreiðslu, á undan sinni samtíð að því leyti.
Mamma var mjög handlagin með hekl, prjóna og föndur og eigum við ansi margt handgert eftir hana.
Ég lærði mikið af mörgu, hvort sem var húshald, sláturgerð, laufabrauð, félagsstörf eða vörutalningar um helgar með mömmu. Maður var með henni í einu og öllu, er mér minnisstæðast þegar við vorum búin að vera helgi eftir helgi uppi í Helludal, sumarhúsum Sláturfélags Suðurlands, frá byrjun byggingar til útleigu með dugnaðarfólki sem vann hjá SS og var í starfsmannafélaginu, að ég var alveg steinhissa að það ættu einhverjir aðrir að fara að nota og vera í okkar bústað. Við vorum búnar að vera svo mikið og lengi þar að mér leið eins og við hlytum að eiga eitthvað í þessu. Svona var félags- og dugnaðarandinn i mömmu. Hún fór heils hugar inn í öll verkefni eins og uppi í Helludal, þar kynntist hún sínum eftirlifandi eiginmanni Steingrími eða Steinda eins og ég kalla hann og hefur hann verið gulls viðbót í fjölskylduna. Þau hafa verið mjög samheldin, ferðast, dansað og búið sér fallegt heimili.
Steingrímur hefur stutt mömmu eins og klettur í gegnum hennar veikindi alveg fram á dánardag.
Ég ætla að láta fylgja með mínar uppáhaldsbænir sem mamma fór með á hverju kvöldi þegar ég var lítil stúlka.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)
Láttu nú ljósið þitt
lýsa upp rúmið mitt,
hafðu þar sess og sæti
signaður Jesús mæti.
Ég fel í sérhvert sinn
sál og líkama minn
í vald og vinskap þinn
vörn og skjól þar ég finn.
(Hallgrímur Pétursson)
Elsku mamma, við hittumst þó síðar verði, á meðan passa ég upp á Steindann okkar.
Þangað til næst, „adjø“.
Þín
Brynja.
Elsku besta amma mín. Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja, tilhugsunin að fá ekki að knúsa þig einu sinni enn er óbærileg. Þú sem tókst alltaf svo vel á móti mér og varst alltaf svo glöð að sjá mig. Ég mun alltaf halda upp á minninguna þegar við Hákon heimsóttum þig upp á spítala og þú brostir um leið og þú sást okkur, sagðir þú að þetta hefði glatt hjartað í þér. Ég verð ávallt þakklát fyrir allar minningar sem við eigum saman. Eins og þegar ég bjó í Dverghömrum og þú varst að gefa mér morgunmat og settir óvart súrmjólk í kaffið hjá þér, við höfum svo oft hlegið mikið að þessari minningu. Einnig þau skipti þegar ég gisti hjá þér og afa og fékk alltaf að sofa á milli. Eða þau skipti sem við eyddum í Grafarvogskirkju, annaðhvort í barnamessunni eða að stússa með þér og eldri borgurum. Alltaf þegar mamma og pabbi voru í útlöndum passaðir þú upp á okkur systkinin og bauðst okkur í mat eða sendir okkur mat.
Þú varst alltaf til staðar fyrir hvern sem þurfti á þér að halda, og settir alla aðra en þig í fyrsta sæti. Í öllum matarboðum settist þú síðast niður því þú vildir alltaf passa upp á að allt væri komið á borðið og allir búnir að fá sér á disk, þá loksins settist þú niður.
Ég á eftir að sakna þín svo mikið, en ég veit að það var tekið vel á móti þér í svefninum langa og einn daginn munum við hittast á ný.
Ég elska þig elsku amma mín.
Sumir hverfa fljótt úr heimi hér,
skrítið stundum hvernig lífið er,
eftir sitja margar minningar,
þakklæti og trú.
Þegar eitthvað virðist þjaka mig,
þarf ég bara að sitja og hugsa um þig,
þá er eins og losni úr læðingi,
lausnir öllu við.
Þó ég fái ekki að snerta þig,
veit ég samt að þú ert hér
og ég veit að þú munt elska mig
geyma mig og gæta hjá þér.
Og þegar tími minn á jörðu hér,
liðinn er þá er ég burtu fer
þá ég veit að þú munt vísa veg
og taka á móti mér.
(Ingibjörg Gunnarsdóttir)
Þín
Edda Karen.