Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Laugardals. Í henni felst að afmarka lóð fyrir leikskóla, svokallaða Ævintrýraborg, á bílastæði nálægt suðurenda Laugardalsvallar. Fram kemur að þetta verði tímabundið úrræði.
Fram kemur í greinargerð að lóðin sé 6.483 fermetrar að flatarmáli og skilgreind sem bílastæði milli Reykjavegar og Laugardalsvallar. Skilin verði eftir sex metra breið ræma milli trjábeltis við Reykjaveg og leikskólalóðarinnar vegna hugmynda um tvístefnuhjólastíg sem tengi saman stofnleiðir hjólreiða við Suðurlandsbraut og Sundlaugaveg.
Í skýrslunni „Laugardalur, skipulagshugmyndir 2022“ kemur fram að bílastæðin við Reykjaveg voru upphaflega hugsuð fyrir stórviðburði á Laugardalsvelli. Reyndin sé hins vegar sú að þegar stórviðburðir eru í Laugardal er þessum stæðum lokað til að koma í veg fyrir umferðaröngþveiti í nærumhverfinu. Á lóðinni sem fer undir Ævintýraborgina eru 227 bílastæði.
Bíllaus Laugardalur?
Í skýrslunni er að finna tillögu að framtíðarsýn um bíllausan Laugardal sem yrði framkvæmd í áföngum. Ein fyrsti áfanginn gæti verið að leggja þennan hluta bílastæðanna af og t.d. breyta þeim í almenningsrými. Tímabundinn leikskóli á þessu svæði falli vel að þeim hugmyndum. Lóðin sé afmörkuð með trjábeltum á allar hliðar og því í skjólgóðu og vistlegu rými. Talsverður landhalli er niður í móti frá suðvestri til norðausturs.
Byggingarreitur á lóðinni er talinn mjög rúmur eða 5.392 fermetrar á 6.483 m2 lóð. Innan hans sé heimilt að reisa úr einingum allt að 1.000 fermetra leikskóla. Gert er ráð fyir einnar hæðar byggingu. Heimilt er að rífa upp malbik af bílastæðum ef það þykir henta vegna framkvæmdanna. Einnig er mögulegt að setja burðarlagsefni í púða á hluta lóðarinnar til að rétta af flöt undir bygginguna og leiksvæði.
Gert er er fyrir að leiksvæðin verði afmörkuð með hefðbundinni leikskólagirðingu.