Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær umdeilda ályktun þar sem hart var deilt um virðingu fyrir trúarbrögðum og málfrelsi.
Tilefnið var að kveikt var í kóraninum, helsta trúarriti múslima, fyrir utan helstu mosku Stokkhólms 28. júní við upphaf einnar helstu trúarhátíðar múslima.
Mótmæli af þessum toga hafa valdið miklum vandræðagangi í Svíþjóð. Í janúar var kveikt í hinni helgu bók múslima fyrir utan tyrkneska sendiráðið í Svíþjóð. Tyrknesk stjórnvöld létu sérstaklega fara fyrir brjóstið á sér að lögregla skyldi hafa leyft þessi mótmæli og ekki dró uppákoman úr tregðu Tyrkja gagnvart umsókn Svía um aðild að Atlantshafsbandalaginu.
Bókabrennunni var mótmælt vikum saman og hvatt var til sniðgöngu á sænskum vörum.
Í kjölfarið herti sænska lögreglan skilyrði fyrir leyfum til að halda mótmæli. Í kjölfarið var umsóknum um leyfi til að halda tvenn mótmæli þar sem brenna átti kóraninn hafnað. Önnur mótmælin átti að halda fyrir utan íranska sendiráðið, hin við það tyrkneska.
Skipuleggjendurnir fóru með mál sín fyrir dómstóla og um miðjan júní komst áfrýjunardómstóll að þeirri niðurstöðu að lögreglu hefði ekki verið stætt á að synja um leyfin.
Þegar umsókn barst um að halda mótmælin í lok júní var leyfi veitt á þeirri forsendu að áhættan sem fylgdi íkveikjunni í kóraninum „væri ekki þess eðlis að hún réttlæti samkvæmt gildandi lögum ákvörðun um að hafna beiðninni“.
Maðurinn á bak við þessi mótmæli heitir Salwan Momika. Hann er frá Írak og flúði þaðan til Svíþjóðar fyrir nokkrum árum. Í umsókn sinni bað hann um leyfi til að kveikja í helgiritinu til að „tjá skoðanir mínar á kóraninum“. Í viðtölum kvaðst hann vilja undirstrika mikilvægi málfrelsisins. Fyrir utan moskuna traðkaði hann á kóraninum, setti nokkrar beikonsneiðar inn í hann svo ögrunin færi ekkert á milli mála og kveikti í áður en hann skellti bókinni aftur og slökkti logana.
Brennan vakti hörð viðbrögð og mótmæli víða um hinn íslamska heim. Í Bagdað réðust mótmælendur inn í sænska sendiráðið og kröfðust þess að sænski sendiherrann yrði sendur heim frá Írak. Í Saudi-Arabíu var sænski sendiherrann kallaður á teppið. Tyrkir fyrtust sérstaklega við og gagnrýndi Recep Tayyp Erdogan, forseti Tyrklands, Svía harkalega fyrir að leyfa mótmælin.
Og nú hefur mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna dembt sér inn í deiluna. Í gær samþykkti ráðið að fordæma íkveikjur í kóraninum undanfarið.
Pakistanar áttu frumkvæðið að því að taka málið fyrir ásamt aðildarríkjum samtaka um samstarf íslamskra ríkja, OIC.
Mannréttindaráð SÞ hefur iðulega verið misnotað. Þar hafa ríki með ógæfulegan feril í mannréttindamálum iðulega sett sig á háan hest og notað ráðið til þess að berja á fjendum sínum.
Offors virðist einnig hafa ráðið för í þetta skiptið. 28 ríki samþykktu ályktunina, 12 voru á móti og sjö sátu hjá.
Stuðningsmenn ályktunarinnar höfðu ekki áhuga á að ná samstöðu með því að orða hana þannig að kröfur um málfrelsi væru virtar. Michele Taylor, sendiherra Bandaríkjanna, harmaði þetta, sagði að hægt hefði verið að ná fordæma einni röddu athæfi, sem „við erum öll sammála um að séu fyrirlitlegt andmúslimskt hatur“, og virða málfrelsi um leið.
Stuðningsmenn ályktunarinnar sögðu hins vegar að andstæðingar hennar hefðu afsalað sér ábyrgðinni á að koma í veg fyrir og bregðast gegn hatri gegn trúarbrögðum. Þeir væru ekki tilbúnir til að fordæma vanhelgun kóransins á almannafæri og hefðu þar með sent skilaboð til milljarða trúaðra manna um allan heim um að andstaða þeirra við trúarlegt hatur væri orðin tóm.
Kína var meðal þeirra ríkja, sem studdu ályktunina. Steininn tók úr þegar Chen Xu, sendiherra Kína, tók til máls og sagði að óttinn við íslam færi vaxandi. Aftur og aftur væri kóraninn vanhelgaður í ýmsum löndum og þau lönd hefðu ekkert gert til að sýna í verki virðingu sína fyrir því að vernda bæri trúfrelsið.
Ef uppátæki eins manns, sem kemur stjórnvöldum ekkert við, er tilefni til þess að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna grípi til þess að álykta hefðu þessi orð kínverska sendiherrans átt að setja allt á annan endann.
Kínversk stjórnvöld beita Úígúra í Kína skipulögðum ofsóknum með það að markmiði að þurrka menningu þeirra út. Milljónir manna hafa verið sendir í endurmenntunarbúðir, sem eru ekkert annað en fangelsi. Úígúrar eru múslimar og ætti málstaður þeirra að vera forsprökkum ályktunarinnar kær – og öllu mikilvægari en táknrænt uppátæki eins manns í Stokkhólmi, hversu yfirgengilegt sem það kann að vera. En það passar ekki inn í það hvernig víglínurnar eru dregnar í heiminum í dag.