C-RIÐILL
Ásta Hind Ómarsdóttir
astahind@mbl.is
Spánn og Kosta Ríka mætast á öðrum mótsdegi heimsmeistaramótsins þann 21. júlí næstkomandi. Með þeim í C-riðli eru Sambía og Japan sem spila daginn eftir. Riðillinn er leikinn á Nýja-Sjálandi, í borgunum Wellington, Hamilton, Dunedin og Auckland.
Spánn er með gríðarlega sterkt lið og þar í fararbroddi er hin margverðlaunaða Alexia Putellas. Allir búast við því að hún og hennar liðsfélagar fari langt en liðið er í 6. sæti heimslistans.
Með þeim upp úr riðlinum fer líklegast lið Japans sem er með sterkan hóp og marga leikmenn sem unnu heimsmeistaramót U-20 ára 2018. Einnig hafa þær heimsmeistarann Saki Kumagi, sem var í sigurliði Japans árið 2011, ásamt fleiri góðum leikmönnum.
Kosta Ríka mun líklegast sitja eftir í riðlinum en liðinu gekk ekki sérstaklega vel í aðdraganda mótsins. Meðal annars töpuðu þær 4:0 gegn bæði Skotlandi og Venesúela.
Sambía hefur ekki átt sjö dagana sæla í undirbúningnum en þjálfarinn verður mögulega rekinn áður en mótið hefst. Markmaðurinn Hazel Nali, sem varði eina spyrnu og skoraði sjálf í vítaspyrnukeppni í bronsleik Afríkubikarsins, sleit svo krossband fyrir nokkrum dögum og er úr leik. Sambía er þó með einn mest spennandi leikmann mótsins sem er hún Barbra Branda en hún hefur verið stórkostleg síðustu árin.
Spánn
Lykilmenn: Alexia Putellas snýr aftur í landsliðshópinn eftir að hafa slitið krossband í lokaundirbúningnum fyrir EM í fyrra. Hún hefur verið besta fótboltakona heims og vann Gullboltann, Ballon d'Or verðlaunin árið 2022, málinu til stuðnings. Hún sneri aftur á völlinn í apríl með liði sínu Barcelona eftir að hafa verið 9 mánuði frá. Hún er ein af átta leikmönnum Spánar sem koma frá Barcelona.
Salma Paralluelo missti einnig af EM í fyrra vegna meiðsla en átti frábært tímabil með Barcelona og Vilda hefur mikla trú á þessum 19 ára gamla framherja.
Alba Redondo er leikmaður Levante í efstu deild á Spáni. Hún var markahæst í deildinni í vetur með 27 mörk og hjálpaði liðinu að ná sæti í Meistaradeildinni.
Aitana Bonmatí sem er rétt tæpir 160 sm á hæð er mikilvægur hlekkur í Barcelona sem og spænska landsliðinu. Hún og Putellas eru meðal þeirra 15 sem neituðu að spila með landsliðinu undir stjórn Vilda en er nú mætt. Bonmatí er teknískur leikmaður eins og Spánverjar eru þekktir fyrir og er mikilvæg á miðjunni.
Þjálfari: Jorge Vilda tók við liðinu 2015 eftir að hafa stýrt yngri landsliðum Spánar. Eftir EM 2022 hótuðu 15 leikmenn liðsins að spila ekki aftur fyrir landsliðið á meðan hann stýrði því. Þær eru þó margar með liðinu á HM en enn neitar stórstjarnan Patri Guijarro, sem var maður leiksins í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor, að spila meðan Vilda þjálfar liðið.
Íslandstenging: Ísland og Spánn mættust síðast á Algarve-mótinu árið 2017 þar sem Ísland var eina liðið sem Spánn vann ekki. Leikurinn endaði 0:0.
Árangur á HM: Leikur í þriðja sinn á HM, í fyrsta sinn 2015, og komst í 16-liða úrslit 2019.
Kosta Ríka
Lykilmenn: Raquel Rodriguez er markahæsta landsliðskona Kosta Ríka frá upphafi og skoraði fyrsta mark liðsins á HM þegar liðið komst í lokakeppni HM í fyrsta skipti árið 2015. Hún hefur leikið 100 landsleiki og skorað í þeim 55 mörk. Hún spilar með Portland Thorns í Bandaríkjunum.
Annar mikilvægur leikmaður liðsins er Melissa Herrera en hún spilar sem hægri kantmaður með félagsliði sínu. Hún leikur með Bordeaux í efstu deild Frakklands en liðið lenti í 7. sæti á síðasta tímabili. Herrera skoraði eitt af þeim þremur mörkum sem lið Kosta Ríka skoraði á HM 2015 og hefur gert 18 mörk í 89 landsleikjum.
Priscila Chinchilla er fædd árið 2001 og er með öflugustu leikmönnum liðsins. Chinchilla er miðjumaður og hefur spilað með Glasgow City í Skotlandi frá 2020. Hún var valin leikmaður ársins í skosku deildinni eftir tímabilið 2021/2022.
Alexandra Pinell, fyrirliði U-20 landsliðs Kosta Ríka er nú komin í aðalliðshópinn og hefur spilað fimm landsleiki. Hún er einn efnilegasti leikmaður þeirra og spilar með Alajuelense í heimalandinu.
Þjálfari: Amelia Valverde tók við liði Kosta Ríka árið 2015 og stýrði því í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Kanada sama ár en þá var hún aðeins 28 ára gömul. Áður hafði hún verið aðstoðarþjálfari liðsins og unnið með yngri landsliðum Kosta Ríka. Hún hefur þjálfað liðið síðan en þær komust ekki inn á HM 2019 í millitíðinni.
Íslandstenging: Varnarmaðurinn Gabriela Guillén spilaði með Þór/KA árið 2020 og lék 12 leiki með Akureyrarliðinu í úrvalsdeildinni. Hún er 31 árs, hefur leikið 74 landsleiki og spilar með Alajuelense.
Árangur á HM: Kosta Ríka hefur einu sinni áður leikið á HM, árið 2015, en komst ekki upp úr riðlinum eftir tvö jafntefli og eitt tap.
Japan
Lykilmenn: Barbra Banda, fyrirliði liðsins er aðeins 23 ára og er þeirra hættulegasti leikmaður. Hún var markahæsti leikmaðurinn á Ólympíuleikunum 2021 og spilar með Shanghai Shengli í efstu deild í Kína. Hún er fyrsti leikmaður í sögu Ólympíuleikanna til að skora þrennu í tveimur leikjum í röð og verður því mikilvægur hlekkur í sóknarleik Sambíu.
Í vináttuleik gegn sterku liði Þýskalands fyrr í þessum mánuði átti Banda stórleik og skoraði tvö mörk en Sambía vann þar afar óvæntan sigur, 3:2.
Lushomo Mweemba er 22 ára miðvörður. Hún var valin maður leiksins þegar liðið mætti Senegal í bronsleiknum í Afríkubikarnum sem þær unnu eftir vítaspyrnukeppni.
Grace Chanda spilar með Madrid CFF í efstu deild á Spáni. Hún hefur verið frábær með landsliði sínu og félagsliði og hefur skorað tíu mörk fyrir landslið Sambíu.
Framherjinn Racheal Kundananji, er 23 ára gömul og var næstmarkahæst í vetur í efstu deild á Spáni þar sem hún spilar með Madrid CFF. Hún skoraði 25 mörk og tvö af þeim komu þegar þær unnu Barcelona í eina leik tímabilsins sem stórliðið tapaði.
Þjálfari: Hinn umdeildi Bruce Mwape tók við liðinu árið 2018 og kom því meðal annars í þriðja sæti í Afríkubikarnum sem skilaði þeim inn á HM. Hann hefur verið ásakaður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart leikmönnum sínum og ekki er útséð um hvernig það fer áður en HM byrjar.
Íslandstenging: Ísland og Sambía hafa aldrei mæst í landsleik í neinum aldursflokki, hvorki hjá körlum né konum.
Árangur á HM: Sambía leikur í fyrsta sinn á HM og er í 77. sæti á heimslista FIFA, neðst þátttökuþjóðanna.
Japan
Lykilmenn: Fyrirliðinn Saki Kumagai er ein eftir í liðinu síðan það varð heimsmeistari árið 2011. Þetta er fjórða HM hjá henni en hún var 20 ára þegar þær unnu mótið.
Yui Hasegawa er lykilleikmaður Japana. Hún er miðjumaður og spilar með Manchester City á Englandi. Þar er hún fastamaður og var í stóru hlutverki í vetur en þær rétt misstu af sæti í Meistaradeild Evrópu. Hún hefur spilað með landsliðinu frá 2017 og var í liðinu sem lék á HM fyrir fjórum árum.
Fuka Nagano, miðjumaður, er ein af þeim sem vann HM U-20 með Japan og hún var kjörin besti ungi leikmaður ársins í Asíu. Síðasta vetur skipti hún yfir í Liverpool og varð um leið fastamaður þar.
Framherjinn Mina Tanaka er 29 ára og hefur fjórum sinnum verið markahæst í japönsku deildinni. Tanaka er jafnvíg á báða fætur og skoraði í sínum fyrsta byrjunarliðsleik með landsliðinu gegn Þýskalandi árið 2013.
Örvfætti framherjinn Jun Endo var mikilvægur hlekkur í U20 ára liðinu árið 2018 og er mjög fljót. Hún hefur ekki enn fest sig í byrjunarliðinu en er kraftmikil hvort sem hún byrjar eða kemur inn á.
Þjálfari: Futoshi Ikeda þjálfaði heimsmeistaralið Japan U20 ára árið 2018 og tekur nokkuð af leikmönnum frá því móti með sér á HM núna. Hann tók við aðalliðinu árið 2021 og þetta er hans fyrsta stórmót með því.
Íslandstenging: Í fyrsta leik Ikeda sem þjálfari Japan tapaði liðið 2:0 fyrir Íslandi í vináttuleik sem fram fór í Hollandi. Risa Shimizu spilar í West Ham með íslensku landsliðskonunni Dagnýju Brynjarsdóttur.
Árangur á HM: Með á öllum mótum frá upphafi. Heimsmeistari fyrst Asíuþjóða eftir sigur á Bandaríkjunum í úrslitaleik árið 2011 og fékk silfrið 2015.