Jónas Friðrik Guðnason var fæddur 12. desember 1945 á Raufarhöfn. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 23. júní 2023.
Hann var sonur hjónanna Helgu Jónsdóittur húsmóður, f. 6.11. 1915, d. 1.7. 2006, og Guðna Þ. Árnasonar skrifsstofumanns, f. 2.11. 1917, d. 1.6. 1981. Syskini Jónasar voru Þórhildur, f. 2.11. 1940, d. 11.11. 2011, Sigrún, f. 23.7. 1947, Guðný Margrét, f. 6.5. 1949, Árni Stefán, f. 28.10. 1950, Jón, f. 25.5. 1952, Örn, f. 15.4. 1954, d. 25.7. 2022, Þórarinn, f. 18.1. 1957, d. 6.3. 1995 og Guðrún Hólmfríður, f. 28.6. 1961.
Jónas ólst upp á Raufarhöfn og gekk í Barnaskóla Raufarhafnar, Gafnfræðaskóla Húsavíkur og Samvinnuskólann á Bifröst. Hann vann við almenn verkamannastörf sem unglingur við síldarverkunn sem var töluverð á Raufarhöfn á uppvaxtarárum hans svo og við verslunarstörf hjá kaupfélagi Raufarhafnar. Eftir veruna á Bifröst vann hann hjá Pósti og síma í Reykjavík í ein 5 ár, flutti þá aftur til Raufarhafnar 1973 og vann hjá Jökli hf. og síðar Fiskiðju Raufarhafnar sem skrifstofumaður og síðan skrifstofustjóri í ein tuttugu ár. Þá vann hann hjá Raufarhafnarhreppi og síðan Norðurþingi. Jónas hefur verið afkastamikill í textagerð fyrir ýmsa flytjendur þá hvað mest með Ríó tríó, samkvæmt Stef er hann skráður höfundur af 447 hljóðrituðum söngtextum. Var virkur í Ungmennafélaginu Austra á Raufarhöfn þá var hann virkur í Leikfélagi Raufarhafnar um tíma. Hefur verið í stjórn Félags eldriborgara á Raufarhöfn nú um skeið. Síðustu árinn kom hann að uppbyggingu Heimskautsgerðisins á Raufarhöfn.
Útför Jónasar Friðriks verður frá Raufarhafnarkirkju í dag, 13. júlí 2023, klukkan 14.
Streymi má nálgast á:
mbl.is/go/ysgtz
eða
https://www.mbl.is/andlat/
Jónas Friðrik Guðnason var fimmti maðurinn í Ríó tríóinu og sinnti þeirri stöðu í fjarvinnu frá Raufarhöfn í 45 ár. Þegar við kynntumst veturinn ’68 var hann nýútskrifaður frá Bifröst og vann hjá Símanum og leigði kvistherbergi á Ránargötunni. Á mínu æskuheimili var Samvinnan í áskrift og þar birtust eitt sinn þrjú ljóð eftir þennan unga mann sem ég rakti slóðina til.
Við vorum búnir að stíga nokkur skref á framabrautinni en vorum að baksa við að syngja texta héðan og þaðan og suma vonda heimasmíðaða sem þó höfðu að geyma frábært endarím eins og „ágúst“ og „á þúst“. Þetta breyttist allt með tilkomu Jónasar, allt frá fyrsta textanum, – „Tár í tómið“ til þeirra síðustu árið 2006 á plötunni Utan af landi.
Og þar er á margan hátt að finna skýringuna á velgengni okkar í gegnum árin. Við vorum utan af landi – í gegnum skáldið; frá litlu sjávarþorpi við litla vík þar sem Lína beið á bryggjupollanum og menn héldu dýrðarveislur á Hóli – lágum í vari undir Grænuhlíð og horfðum á landið fjúka burt á útældum spariskóm. En þar var líka að finna ofurviðkvæmar óskir um eina nótt af heilli ævi og drauminn um að leggja af stað – af stað út í víðáttuna á fögrum sumardegi. Og við vissum að þetta myndi allt reddast.
Einna verst þótti Jónasi þó að búa einn í Reykjavík, kúldrast uppi á kvistherbergi í kulda og hugsa um pólitík. Og það gerði hann um tíma. En síðan hélt hann heim til Raufarhafnar og leit aldrei um öxl.
Þau bundust miklum vináttuböndum Jónas og Birna konan mín. Jónas var liðtækur blásari og músíkant og hafði fyrir sið á árum áður að spila á saxófón fyrir Birnu að kvöld- og næturlagi í langlínusímtölum. Eitt sinn hafði ég verið sendur til Skotlands á einhvern fund á tímum mikillar fuglaflensu þar í landi. Þá hafði Jónas samband við Birnu og minnti hana á að ef svo færi þá væri pláss fyrir hana á Raufarhöfn.
Þetta með tónlistarmanninn í Jónasi kom svo skýrt fram þegar við vorum að syngja kveðskapinn hans. Við vissum að hann hafði sungið hvert einasta atkvæði sjálfur og það féll allt að tónlistinni.
Eftir Jónas liggja ógrynni af undurfallegum og vönduðum kveðskap við lög eftir innlenda og erlenda höfunda fyrir fjöldann allan af listamönnum fyrir utan okkur Ríómenn, hann þýddi líka söngtexta við söngleikinn Evita, hann samdi texta fyrir Skríplana og textar hans við jólalög eru fjölmargir. Skáldið var allt í öllu á Raufarhöfn. Hann kom að félagsmálum og rekstri sveitarfélagsins og stóri draumur hans með fleirum var bygging Heimskautsgerðisins á Melrakkaási við Raufarhöfn, sem rís utan um goðsögulegan hugarheim og dvergatal Völuspár.
Eftir stendur minning um áratuga samstarf um listsköpun. Við drengirnir þóttum samkvæmt Víkverja í Mogganum vera með mjög vel burstaðar tennur. Og við spiluðum alls staðar og á 23 hljómplötum. Þóttum koma vel fyrir.
En það sem gaf okkur kjarkinn alla tíð var vissan um að við vorum að syngja góðan texta. Vandaðan texta á góðu máli. Eftir Jónas Friðrik.
Helgi
Pétursson.