Makrílveiðar Makríllinn sem hefur veiðst í íslenskri lögsögu telst stór.
Makrílveiðar Makríllinn sem hefur veiðst í íslenskri lögsögu telst stór. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Það eru bestu fréttirnar síðan vertíðin byrjaði,“ segir Baldur Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, í samtali við Morgunblaðið um að makríll hafi veiðst í íslensku lögsögunni. „Þetta fór rólega af stað

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

„Það eru bestu fréttirnar síðan vertíðin byrjaði,“ segir Baldur Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, í samtali við Morgunblaðið um að makríll hafi veiðst í íslensku lögsögunni.

„Þetta fór rólega af stað. Nóttin í nótt var mjög góð,“ segir Bergur Einarsson, skipstjóri á Venus í samtali við Morgunblaðið spurður um gang makrílveiðanna. Makríllinn sem hefur veiðst er stór að hans sögn.

Aðspurður segir Bergur að þeir hafi landað 7.000 tonnum í heildina en að Venus sé í samstarfi við skipin Svan og Víking.

Spurður út í afgang vertíðarinnar segir Bergur að það sé erfitt að spá fyrir um það. „Það er spurning hvað Síldarsmugan komi til með að gera. Vonandi getum við veitt sem mest hér í íslensku [lögsögunni],“ segir hann.

„Þær ganga þokkalega, eitthvað minna í augnablikinu,“ segir Bjarni Már Hafsteinsson, skipstjóri á Guðrúnu Þorkelsdóttur, spurður um gang makrílveiðanna.

„Við erum í samveiðum með Aðalsteini og Jóni Kjartanssyni,“ segir Bjarni. „Aðalsteinn er kominn með rétt um 770 tonn og það er verið að fara að dæla í hann.“ Líkt og Bergur vék Bjarni að stærð makrílsins sem hann sagði vera í stærri kantinum.

„Það er líka að finnast fiskur við Eyjar,“ segir Bjarni. „Hann hefur gengið úr færeysku lögsögunni og farið inn í þá íslensku,“ segir hann.

Aðspurður segist Bjarni vera bjartsýnn. „Við náum þessu öllu,“ segir hann spurður hvort hægt væri að spá í spilin fyrir vertíðina.

Höf.: Kári Freyr Kristinsson