Fischersetrið Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, var viðstödd á 10 ára afmælisathöfn Fischersetursins, um helgina.
Fischersetrið Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, var viðstödd á 10 ára afmælisathöfn Fischersetursins, um helgina. — Ljósmynd/Magnús Geir Kjartansson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, segir mikilvægt að efla menningartengda ferðaþjónustu. Hún fjallaði meðal annars um þær áherslur í ávarpi sem hún flutti á afmælishátíð Fischersetursins á Selfossi um síðustu helgi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, segir mikilvægt að efla menningartengda ferðaþjónustu. Hún fjallaði meðal annars um þær áherslur í ávarpi sem hún flutti á afmælishátíð Fischersetursins á Selfossi um síðustu helgi.

„Við erum að byggja upp menningarlega ferðaþjónustu. Ferðafólk vill kynnast menningu, sögu og mannlífi þeirrar þjóðar sem það heimsækir. Íslenska náttúran hefur hingað til gegnt lykilhlutverki, sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en þeir ferðamenn sem hingað koma vilja ekki síður kynnast þeirri ríkulegu sögu og menningu sem þjóðin býr að,“ segir Lilja í samtali við Morgunblaðið.

„Um þessar mundir er verið að móta ferðaþjónustustefnu til ársins 2030. Einn veigamikill þáttur í því er að örva menningartengda ferðaþjónustu. Saga og bókmenntaarfur Íslendinga eru einkar markverð. Norræn goðafræði lifir góðu lífi og mikill áhugi er á því að kynna hana enn betur fyrir ferðafólki ásamt samtímabókmenntum, tónlist og myndlist. Ísland á listafólk á heimsmælikvarða sem er mikill auður,“ segir hún.

Á sterkum grunni

Stór hluti þeirra ferðamanna, sem hingað koma, fer um Suðurland. Lilja segir aðspurð um uppbyggingu menningartengdrar ferðamennsku á þeim slóðum segir hún tónlistarmenningu Suðurlands standa á sterkum grunni. „Við erum að efla Sinfóníuhljómsveit Suðurlands en hún er geysilega öflug ásamt öllu kórastarfi á svæðinu. Stuðningur við sinfóníuna kemur til með að hafa gríðarlega jákvæð áhrif á allt tónlistarstarf á svæðinu,“ segir Lilja.

Á Hótel Selfossi er salur, sem hugmyndir hafa verið á lofti um að yrði hentugur undir menningartengda starfsemi. Lilja telur tímabært að fela salnum það hlutverk. „Það hefur verið mikið ákall um að salurinn við Hótel Selfoss verði gerður að menningarsal. Á fundi um menningarmál, sem ég hélt fyrir stuttu síðan á Selfossi, óskaði ég eftir nánu samstarfi stjórnvalda og allra sveitarfélaga á svæðinu, til að gera menningarsetur í salnum að veruleika.“

Fischersetrið verði styrkt

Þá segist hún telja mikilvægt að tryggja Fischersetrinu örugga framtíð.

„Ég ætla að vinna vel með stjórn Fischersafnsins. Það er mikilvægt að tryggja safninu rekstrargrund­völl til framtíðar, til að varðveita sögu þessa merkilega safns. Það er stórmerkilegt að sjálfur Bobby Fischer, einn frægasti stórmeistari skáklistarinnar, sé grafinn á Selfossi. Mér þykir mjög spennandi að vegna tengingar Selfoss við Bobby Fischer, sé bærinn að verða eins konar hjarta skáklistarinnar á Íslandi. Í samstarfi mínu við stjórn safnsins vil ég líta til framtíðar. Safninu fylgja gullin tækifæri til að efla áhuga fólks á þessari göfugu íþrótt, sem getur höfðað til allra, en auk þess kemur safnið til með að leika mikilvægt hlutverk í ferðaþjónustu svæðisins,“ bætir Lilja við. mgk@mbl.is