Félagsmálin Karítas sinnir í aukastarfi málefnum heimilislausra í Reykjavík og sérstaklega búsetuúrræðum.
Félagsmálin Karítas sinnir í aukastarfi málefnum heimilislausra í Reykjavík og sérstaklega búsetuúrræðum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karítas Ríkharðsdóttir fæddist 13. júlí 1993 á Raufarhöfn þar sem hún ólst upp og hún segir að bakgrunnur sinn hafi mótað sig mikið. „Ég var í sveit hjá afa mínum í Flögu í Þistilfirði, mest á vorin í sauðburði en líka á öðrum tímum

Karítas Ríkharðsdóttir fæddist 13. júlí 1993 á Raufarhöfn þar sem hún ólst upp og hún segir að bakgrunnur sinn hafi mótað sig mikið. „Ég var í sveit hjá afa mínum í Flögu í Þistilfirði, mest á vorin í sauðburði en líka á öðrum tímum. Amma mín lamaðist ung og ég aðstoðaði bæði við bústörf og heimilisstörf í sveitinni. Ég var svo heppin að eiga afa að alveg þangað til í gær.“

Karítas var strax kraftmikil og sjálfstæð stelpa. „Ég var sjúk í að fara á sjóinn með pabba mínum, vann einnig netavinnu og stokkaði upp bjóð, við ýmiss konar viðhald og annað sem tengdist útgerðinni, auk þess að ljúka pungaprófi.“ Hún ákvað að sleppa 10. bekk, flutti að heiman 15 ára og fór í Menntaskólann á Akureyri og bjó á heimavistinni. „Sumarið eftir fyrsta árið mitt synti makríllinn inn í landhelgina og ég vann á sumrin hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn. Þau uppgrip komu sér vel fyrir menntskælinga á hrunárunum.“ Árið 2011 fór hún í AFS-skiptinám til Kosta Ríka. „Þar kynntist ég nýjum menningarheimi, lærði spænsku og að dansa salsa.“ Hún útskrifaðist síðan af náttúrufræðibraut 2013 og hélt upp á tímamótin með heimsreisu með vinkonu sinni um Evrópu, Mið-Ameríku, Norður-Ameríku, Eyjaálfu og Asíu.

Haustið 2014 hóf Karítas nám við Háskólann á Akureyri í sjávarútvegsfræðum og sótti áfram vertíðir og vann einnig eitt sumar á Húsavík hjá Norðursiglingu. Árið 2017 útskrifaðist hún með B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum.

Stjórnmálin heilla

Um haustið fór Karítas suður og fór í kosningateymi Framsóknar fyrir þingkosningar sem voru í október. Í kjölfarið var hún ráðin inn á skrifstofu Framsóknar. Á árunum 2018 til 2020 aðstoðaði hún þingflokk Framsóknar á Alþingi. „Þá var Þórunn Egilsdóttir heitin þingflokksformaður og oft mikið fjör. Willum Þór Þórsson tók svo við stjórn þingflokksins í fjarveru Þórunnar. Þetta voru mjög lærdómsrík ár,“ segir Karítas sem segir að stjórnmálum hafi ekki verið neitt sérstaklega haldið að henni heima á Raufarhöfn. „Ég var bara mjög snemma ákveðin ung kona og með sterkar skoðanir.“ Hún hefur verið virk í starfi Framsóknarflokksins alveg frá 15 ára aldri og sat í stjórn Félags ungra framsóknarmanna fyrir norðan, í Sambandi ungra framsóknarmanna og núna er hún í kvennahreyfingu Framsóknar. Hún er einnig stjórnarformaður í Grænlandssjóði og varaformaður í Varðbergi.

Haustið 2020 hóf hún störf sem blaðamaður hjá Árvakri og skrifaði þar bæði í blað og á vefinn og gerði einnig Dagmálaþætti. „Fljótlega var ég farin að taka að mér störf kvöldfréttastjóra og þótti mjög gaman, enda blaðamennskan alveg frábært starf. Í febrúar 2023 kvaddi hún Morgunblaðið og hóf störf sem sérfræðingur í samskiptum frá Landsbankanum. „Ég vildi prófa eitthvað nýtt og þetta var mjög áhugavert tækifæri sem ég fékk. En Morgunblaðið á alltaf sérstakan stað í hjarta mínu.“

Karítas hefur farið tvisvar sinnum til Rússlands, bæði fyrir innrás þeirra í Úkraínu og líka síðasta haust, en Árni tengdafaðir hennar var sendiherra í Moskvu. „Við Ragnar fórum í útför Mikhaíls Gorbatshovs, leiðtoga Sovétríkjanna, í haust,“ en þá vakti fjarvera Pútíns Rússlandsforseti athygli umheimsins. Hún segir að mikill munur hafi verið á stemmningunni í Moskvu eftir að stríðið hófst í Úkraínu, allar alþjóðlegar vörur hurfu úr hillunum og margar búðir lokuðu.

En það eru þó heimahagarnir sem kalla á hana. „Ég fæ sérstaka heimþrá á sumrin en hvergi er sumarnóttin bjartari en á Raufarhöfn. Ég fer alltaf norður á böll. Það þarf mikið að ganga á svo að ég mæti ekki á þorrablót eða sjómannaball. Fólk sem heldur því fram að sveitaballið sé dautt hefur ljóslega ekki farið nýlega.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Karítasar er Ragnar Auðun Árnason, stjórnmálafræðingur, f. 26.12. 1994. Foreldrar hans eru hjónin Árni Þór Sigurðsson, f. 30.7. 1960, sendiherra í Moskvu, bráðum Kaupmannahöfn, fv. þingmaður og borgarfulltrúi og Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, f. 24.9. 1955, ónæmisfræðingur á Keldum.

Systkini Karítasar eru Brynjar Þór, f. 2.1. 1992, vélstjóri og rafvirki; Dagný, f. 18.8. 1999, og Björn Grétar, f. 7.8. 2010.

Foreldrar Karítasar eru hjónin Birna Björnsdóttir, f. 31.10. 1968, bókari og fv. skólastjóri, og Ríkharður Reynisson, f. 19.6. 1965, skipstjóri. Þau búa á Raufarhöfn.