Bragi Leifur Hauksson fæddist í Hamborg 24. febrúar 1959. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 20. júní 2023.
Foreldrar hans eru Grímhildur Bragadóttir, bókasafnsfræðingur og kennari, f. 10.10. 1937, og Haukur Guðlaugsson, organleikari og fyrrverandi söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar, f. 5.4. 1931. Systkini Braga eru Svanhildur Ingibjörg Hauksdóttir, f. 26.12. 1954, og Guðlaugur Ingi Hauksson, f. 12.7. 1965.
Bragi var í nokkur ár í sambúð með Sigríði Sóleyju Kristjánsdóttur, f. 18.2. 1961. Þau slitu samvistum en héldu alltaf hlýju sambandi.
Bragi ólst upp á Akranesi og átti þar góð æskuár. Hann gekk þar í Barnaskóla Akraness og síðan í Gagnfræðaskóla Akraness og lauk þaðan landsprófi. Á sumrin stundaði hann ýmis störf, m.a. hjá Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi.
Bragi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1979. Þaðan lá leiðin í tölvunarfræði í Háskóla Íslands. Tölvunarfræðin var þá ný grein við háskólann og Bragi var einn af þeim fyrstu sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands sem tölvunarfræðingar. Að náminu við Háskóla Íslands loknu hélt Bragi í framhaldsnám í tölvunarfræði í Bandaríkjunum og stundaði þar meistaranám í Fort Collins í Colorado. Bragi kom heim aftur eftir námið í Colorado og hóf þá störf hjá fjármálaráðuneytinu, en þar hafði hann einnig unnið með námi.
Bragi vann síðan allan starfsaldurinn hjá íslenska ríkinu og stýrði þar mörgum verkefnum á sviði rafrænnar stjórnsýslu. Hann starfaði sem deildarstjóri upplýsingatæknideildar hjá embætti ríkisskattstjóra og vann þar að netvæðingu skattframtala. Frá skattinum hélt Bragi til Tryggingastofnunar. Hann var þar verkefnastjóri rafrænnar stjórnsýslu og stýrði verkefnum til að efla þjónustu stofnunarinnar við almenning.
Frá Tryggingastofnun hélt Bragi síðan yfir á Þjóðskrá þar sem hann var verkefnastjóri rafrænnar stjórnsýslu og kom á fót vefnum island.is. Hjá Þjóðskrá stýrði hann ýmsum vandmeðförnum verkefnum á sviði rafrænna skilríkja og aðgengi einstaklinga að eigin upplýsingum.
Bragi var mikill áhugamaður um bridge og var öflugur spilari. Hann varð Íslandsmeistari yngri spilara í sveitakepppni og spilaði í unglingalandsliði yngri spilara árið 1983. Hann varð Íslandsmeistari í tvímenningi og vann íslensku Bikarkeppnina tvisvar. Bragi spilaði tvisvar á heimsmeistaramótum í tvímenningi og tók þátt í fjölda annarra móta í Evrópu og Bandaríkjunum.
Bragi byrjaði að stunda tennis á námsárunum í Bandaríkjunum og hélt því áfram eftir að heim var komið. Hann var virkur félagsmaður í tennisdeild Þróttar og sat í stjórn tennisdeildarinnar í mörg ár. Hann var þar vallarstjóri og vann ötullega að því að efla tennis sem almenningsíþrótt.
Útför Braga fer fram í dag, 13. júlí 2023, kl. 13 frá Hallgrímskirkju.
Streymt verður frá útförinni á http://exton.is/streymi/.
Elsku Bragi bróðir minn og vinur. Farinn allt of fljótt frá okkur.
Hugur minn reikar til þeirra daga sem við áttum við að spila á spil og skjóta af boga á túninu á Skaganum.
Seinna komu jólakúlurnar, þær bestu í heimi, og í fallegum dósum. Öll börn sóttu í Braga, hann sýndi þeim óskiptan áhuga og hlýju. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér.
Guð gefi okkur öllum styrk og kraft til að takast á við þessa miklu sorg og söknuð.
Hvíl í friði elsku bróðir minn.
Svanhildur.
Elsku besti Bragi. Uppáhaldsfrændinn minn, rausnarlegi lífskúnstnerinn, alltaf með myndavélina á lofti, glettinn á svip, nýbúinn að segja einhvern brandara svo maður gat ekki annað en skellihlegið og afmyndast í leiðinni.
Þú bauðst mér einu sinni með þér til Noregs til þess að koma stóra H-inu á óvart. Okkur fannst voða fyndið að kalla hinn uppáhaldsfrændann minn stóra H-ið. Vá hvað við skemmtum okkur konunglega með Halldóri frænda alla helgina, hlæjandi út í eitt.
Þú tókst frábærar myndir í brúðkaupi okkar Víkings. Þú kynntir mér nýja veitingastaði, gafst mér ómótstæðilegt heimalagað konfekt, kenndir mér að drekka góð rauðvín, náðir gjarnan í einhverja eðalvínflösku, helst rykfallna, niður í kjallara sem best var að drekka einmitt þá, fimmtán árum síðar. Þú kenndir mér að gera besta pastaréttinn, sem ég hef oft gert síðan, spaghetti a la Urðarstígur, sem inniheldur sex heila hvítlauka!
Ég gleymi aldrei góðmennsku þinni við mig eftir minn stóra missi rétt rúmlega tvítugrar, þú stóðst eins og klettur við frænku þína og varst alltaf til staðar. Takk fyrir allt.
Elsku Grímhildur og Haukur, systkini, ættingjar og vinir Braga Leifs, ég votta ykkur samúð mína.
Elsku Bragi, þín verður sárt saknað! Og matarboðið … sem við Víkingur buðum þér í fyrir fjórum árum … það bíður okkar í Sumarlandinu þegar við hittumst að nýju. Ég veit að Kristín Björg systir hefur tekið vel á móti þér með knúsi og þið skálið í rauðu, fáið ykkur gott súkkulaði og hlæið saman.
Þín frænka,
Arnbjörg Ösp.
Vinur minn Bragi Hauksson tölvunarfræðingur er látinn, langt um aldur fram. Sviplegt fráfall hans bar skjótt að og er mikið áfall fyrir alla sem þekktu hann. Mestur er þó missirinn fyrir aldraða foreldra hans, Grímhildi og Hauk. Ég kynntist foreldrum hans fyrir meira en fjörutíu árum og vinátta þeirra hefur verið mér afar dýrmæt alla tíð. Braga kynntist ég best síðustu árin sem hann lifði og fyrir þau kynni er ég ákaflega þakklátur. Bragi var hvers manns hugljúfi, ætíð tilbúinn að rétta hjálparhönd og styðja aðra. Hann eignaðist fjölda vina, enda var hann með afbrigðum skemmtilegur, fjölfróður og kærleiksríkur maður.
Honum var margt til lista lagt og það var alveg greinilegt í öllu hans viðmóti og viðhorfum að hann var alinn upp á miklu menningarheimili þar sem listræn og falleg siðferðileg gildi eru í heiðri höfð. Fyrir nokkrum árum gaf Haukur faðir hans í tvígang út veglega geisladiska, sem eru eins konar yfirlit yfir glæsilegan feril hans sem organista. Þessum útgáfum fylgdi Bragi úr hlaði af einstakri smekkvísi og listrænu innsæi. Bragi var þegar hann lést að leggja lokahönd á útgáfu geisladisks sem faðir hans og undirritaður tóku upp í desember árið 2021. Þar bar allt að sama brunni; hjálpsemin, smekkvísin og krafturinn að gera þetta útgáfuhæft.
Það er mikill sjónarsviptir að slíkum manni sem Bragi var og mun hans verða sárt saknað. Við hjónin sendum okkar hjartanlegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu Braga, vina og vandamanna.
Blessuð sé minning þessa góða drengs.
Gunnar Kvaran.
Bragi vinur minn hringdi um kaffileytið þriðjudaginn 20. júní. Hann sagðist hafa lent í hálfgerðu basli og óvíst hvort hann kæmist í sumarbriddskeppnina daginn eftir. Hann hafði þá fengið brjóstverk nóttina áður og farið á bráðamóttöku og síðan í hjartaþræðingu. Hann var impóneraður af því hversu fljótt og vel það gekk og ánægður, því honum var sagt að engar stíflur sæjust þar. Verkurinn var hins vegar ekki horfinn og hann sagðist því eiga að leggjast inn og beið eftir að flytja upp á hjartadeildina. Hann bar sig vel og ég sagði honum að hann væri á öruggasta stað sem til væri fyrir fólk með brjóstverk. Hann var alls ekki úrkula vonar um að komast í briddsinn kvöldið eftir. Grímhildur mamma hans hringdi svo í mig morguninn eftir og sagði mér að hann hefði dáið kvöldið áður.
Fyrstu kynni okkar Braga voru fyrir áratugum síðan, en þá vorum við báðir keppnismenn í bridds og kynntumst raunar lítið nema sem andstæðingar. Ég minnist þess að hann var erfiður andstæðingur og ekki síst þegar hann spilaði við Sigtrygg Sigurðsson heitinn, glímukóng, en þeir unnu mörg stórmót saman. Svo hittist þannig á að við bjuggum í næsta húsi hvor við annan, og fyrir rúmum 10 árum hitti ég hann á götu og stakk upp á því að við skryppum saman á Jólamótið í Hafnarfirði. Það er eitt af stærstu briddsmótum ársins og þar hittast oft gamlir vinir. Briddskerfið okkar var ákveðið í bílnum á leiðinni í Hafnarfjörð og öllum á óvænt þá unnum við mótið. Síðan höfum við spilað þar á hverju ári og eins fórum við nokkrum sinnum í briddsferð til Frakklands með góðum vinum. Að öðru leyti spiluðum við nánast ekkert fyrr en í fyrra að við vorum báðir hættir að vinna, að við ákváðum að auka spilamennskuna og gera atlögu að sterkustu briddsmótunum. Það gekk ótrúlega vel og á Briddshátíð í vetur vorum við í verðlaunasæti og fyrir ofan marga erlenda heimsmeistara og alla íslensku landsliðsmennina. Okkur fannst báðum að við værum í mikilli framför nú og enn bjartari tímar fram undan.
Smám saman fórum við líka að umgangast meira sem vinir og síðustu árin hef ég litið á hann sem einn af mínum bestu vinum. Hann borðaði stundum hjá okkur og fyrir jól birtist hann alltaf með heimalagað konfekt. Eins kom hann stundum seint á nýjársnótt og spilaði borðspil við okkur í fjölskyldunni. Ég sakna hans mikið og vil votta fjölskyldu hans samúð mína.
Helgi Jónsson.