Topphóll Framkvæmdir við hólinn hafa vakið umtalsverða athygli.
Topphóll Framkvæmdir við hólinn hafa vakið umtalsverða athygli.
Bæjarstjórn Hornafjarðar harmar ákvörðun Vegagerðarinnar um að rífa niður Topphóll við framkvæmdir um Hornarfjarðarfljót. Hóllinn hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga íbúa Hornafjarðar, en munnmæli herma að í honum sé að finna álfakirkju

Mist Þ. Grönvold

mist@mbl.is

Bæjarstjórn Hornafjarðar harmar ákvörðun Vegagerðarinnar um að rífa niður Topphóll við framkvæmdir um Hornarfjarðarfljót. Hóllinn hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga íbúa Hornafjarðar, en munnmæli herma að í honum sé að finna álfakirkju.

Mikilvægt að bregðast við

Nýlega birti Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar og stjórnarformaður Náttúrustofu Suðausturlands, færslu á Fésbókarsíðu sinni þar sem hann greindi frá erindi Náttúrustofu sem sent var til Minjastofnunar fyrr á þessu ári. Í erindinu var sérstaða jarðfræði og söguminja Topphóls rakin en Minjastofnun sá ekki ástæðu til þess að varðveita hólinn.

„Af samtölum við heimamenn er ljóst að hóllinn hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir þá. Munnmæli um hólinn sem álfakirkju gætu verið eldri en hundrað ára en þó er ógerlegt að staðfesta það. Sökum óvissu um aldur minjanna og vegna þess að minjarnar voru ekki skráðar og framkvæmdir því langt komnar heimilar Minjastofnun að minjar þessar víki,“ er haft eftir svari Minjastofnunar í færslu Sigurjóns.

Í færslunni rekur Sigurjón samtöl bæjarstjórnar við Vegagerðina. Þar kemur meðal annars fram að ekki sé unnt að færa veglínuna án þess að fá nýtt land undir breytta veglínu, sem væri tímafrekt ferli. Þá myndi kostnaður breytinga sem hlífðu hólnum á þessu stigi framkvæmdanna hlaupa á hundruðum milljóna króna.

Sigurjón segist ekki hafa upplýsingar um það hvort punktar Vegagerðarinnar standist skoðun en harmar það að hóllinn þurfi að víkja. „Það er geysilega mikilvægt að þegar unnið er að svona skipulagi og hlutir eru settir í langt og strangt kynningar- og umsagnarferli að við bregðumst við og að svona hlutir gerist ekki aftur,“ segir Sigurjón.

Segir álfatrúna verðmæta

Sem fyrr segir hafa framkvæmdirnar við Topphól vakið talsverða athygli, en tengsl hólsins við álfa og huldufólk hefur mikið tilfinningalegt gildi í augum margra. Sigurjón segist hafa skilning á mikilvægi hólsins og þeim vonbrigðum sem framkvæmdunum kunni að fylgja.

„Mér finnst trú á álfa og huldufólk falleg. Hún er hluti af okkar þjóðararfi og menningu og ég held að þetta séu verðmæti fyrir okkur sem þjóð,“ segir Sigurjón.

Höf.: Mist Þ. Grönvold