Gervigreind
Klara Ósk Kristinsdóttir
klaraosk@mbl.is
Stjórnvöld verða að bregðast vegna hraðrar þróunar í gervigreind enda tæknin nú þegar nýtt á ýmsum sviðum í íslensku samfélagi, segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
„Það þarf að leggja áherslu á að horfa á tækifærin sem felast í gervigreindinni á sama tíma og við áttum okkur á þeim áskorunum sem henni fylgja,“ segir Áslaug.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið fer með hlutverk gervigreindar og segir Áslaug málefni gervigreindar fara vel með öðrum málefnum ráðuneytisins enda tengist það þeim öllum á einhvern hátt, nýsköpun, vísindum og rannsóknum en ekki síst vegna þeirra áhrifa sem gervigreindin er þegar farin að hafa á nám og kennslu á öllum skólastigum.
Áslaug segir þetta kalla á auknar rannsóknir í háskólasamfélaginu, ekki síst vegna tæknimála, en gervigreind er stór þáttur í rannsóknum og þróun, nýsköpun og netöryggi og þeirri vegferð sem því fylgir.
Þrátt fyrir að málefni gervigreindar rými mjög vel við málefni ráðuneytisins, þá tengist hún einnig mörgum öðrum málaflokkum og því þarf vinnan að vera þvert á fleiri ráðuneyti líka, segir Áslaug.
Nefnir hún í því samhengi að gervigreind sé notuð í hönnun stoðtækja og þjónustu hjá hinu opinbera, til að mynda hjá heilsugæslunni og ríkisskattstjóra. Áslaug segir þetta vera „toppinn á ísjakanum“ það er að segja hvernig hægt verður að nýta gervigreind í að hraða þjónustu og miðlun upplýsinga til fólks, ekki síst til þess að minnka umfang ýmissar opinberrar þjónustu og kostnað við hana.
Þá snertir gervigreindin jafnframt gögn sem Áslaug segir vera eina mikilvægustu auðlind gervigreindarinnar. Áskoranir við gervigreindina ríma við þá stefnumótun sem nú er í gangi um opin vísindi og samnýtingu gagna, segir Áslaug. „Við þurfum að opna á gögn sem hafa verið styrkt með opinberri fjármögnun, auk þess að fara í frekari stefnumótun og lagabreytingu þannig að vel takist til við að nýta gervigreind og takast á við þær áskoranir sem henni fylgja.“
Gervigreind og áskoranir
Áslaug segir ógnir og áskoranir auðvitað fylgja notkun gervigreindar. Hvað skólakerfið varðar þá telur hún mikilvægt að horft sé til þeirra tækifæra sem tækninni fylgir, á sama tíma og við áttum okkur á því að hverju þarf að gæta. „Gervigreindin er ekki að fara neitt, því megum við ekki líta til hliðar eða færa okkur frá tækninni,“ sagði Áslaug, „enda engin lausn að banna gervigreind í menntakerfi framtíðar.“
Þá segir Áslaug það jafnframt geta verið aðrar stórar tæknilegar áskoranir sem felast í gervigreindinni, líkt og óútskýranlegar niðurstöður. Það getur til að mynda verið þegar búið er að bjaga niðurstöður gervigreindarinnar til dæmis er varðar mismunun í samfélaginu eða að við séum eftir á í að mennta einstaklinga í stafrænni tækni til þess að nýta gervigreindina.
Gervigreindarlöggjöf
Evrópusambandið vinnur nú að gervigreindarlöggjöf sem Áslaug gerir ráð fyrir að verði samþykkt í lok árs. Löggjöfin kemur þá til framkvæmda eftir tvö ár en á þeim tíma hefst vinna við upptöku gerðarinnar inn í EES-samninginn.
Áslaug segir að löggjöfin muni setja gervigreindinni einhverjar skorður og því sé mikilvægt að gætt sé að svigrúmi Íslands við útfærslu áhvílandi ákvæða, með hliðsjón af íslenskum aðstæðum, til þess að skerða ekki nýsköpunar- og tæknimöguleika. Enda er hlutfall smárra og meðalsmárra fyrirtækja hér á landi mjög hátt en Áslaug segir svona reglugerðir bitna mest á þeim.
Aðspurð segist Áslaug ekki hafa áhyggjur af því að löggjöfin komi of seint. Á sama tíma og mikilvægt sé að löggjöfin komi ekki mjög langt á eftir tækninni þá er líka mikilvægt að átta sig á því hvaða áhrif regluverkið getur haft á mikilvæga þróun og að nýsköpun fái að dafna án mjög þungs regluumhverfis.
Þrátt fyrir það verði að setja mjög skýrar reglur, og hratt, þar sem hætturnar eru mestar. Til útskýringar nefnir Áslaug „ef það á að nota tæknina til þess að hafa áhrif á fólk við félagslega flokkun, eftir háttsemi, eins og við höfum séð byrja að gerast í heiminum með forritum sem hafa eftirlit með fólki, þá verður að vera til lagarammi sem kemur í veg fyrir að gengið sé á frelsi fólks.“