Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Ferðaskrifstofan Pink Iceland sérhæfir sig í ferðum til Íslands fyrir hinsegin fólk og skipulagningu brúðkaupa. Fyrirtækið var stofnað árið 2011 af þeim Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange og eiginkonu hennar Birnu Hrönn Björnsdóttur ásamt Hannesi Sasa Pálssyni.
Eva María, framkvæmdastjóri Pink Iceland, segir að fyrirtækið sérhæfi sig í að bjóða hinsegin gesti velkomna til landsins.
„Það er okkar ástríða og við höfum öll verið að vinna með hinsegin samfélaginu áður en við stofnuðum fyrirtækið. Það var engin slík þjónusta í boði og sáum við tækifæri í að stofna Pink Iceland,“ segir Eva María og bætir við að hún hafi þó ekki gert sér í hugarlund hversu eftirsótt þjónustan yrði.
„Við höfum vaxið alveg svakalega frá stofnun. Við héldum fyrst að við myndum sjá um fimm til sex brúðkaup á ári en nú sjáum við um yfir 150 brúðkaup á ári,“ segir hún.
Rekstur Pink Iceland hefur gengið ágætlega á liðnum árum. Tekjur félagsins námu um 202 milljónum króna árið 2021 en höfðu dregist verulega saman árið 2020 vegna heimsfaraldursins. Fyrir þann tíma fóru tekjurnar hæst í rúmar 320 milljónir króna árið 2017. Hagnaður félagsins árið 2021 nam um 13 milljónum króna.
Ísland ákjósanlegur staður
Eva María segir jafnframt að Ísland fái mikla athygli sem ákjósanlegur staður fyrir áfangastaðabrúðkaup, hingað er vinsælt að ferðast með vini og fjölskyldu og ganga í hnapphelduna í stórbrotinni náttúru.
„Pink Iceland hefur lyft Grettistaki í markaðssetningu Íslands þar sem myndir og myndbönd frá brúðkaupum sem við höfum skipulagt síðastliðinn áratug hafa farið um allan heim og við verið dugleg að senda frá okkur efni og veita viðtöl,“ segir Eva María og bætir við að hjá Pink Iceland vinni einstaklingar með mikla tilfinningagreind og góða skipulagshæfni.
Hún segir jafnframt að þeir ferðamenn sem Pink Iceland einbeiti sér að sé mjög þjónustufrekur hópur sem skilji mikið eftir sig.
„Gestir Pink Iceland eru mjög virðisaukandi fyrir afar fjölbreyttan hóp fólks. Sem dæmi þá skipulögðum við á dögunum brúðkaup fyrir tvær konur þar sem 28 gestir mættu en það voru yfir 30 manns sem voru að vinna við brúðkaupið, t.d. tónlistarfólk, ljósmyndarar, stílistar, blómaskreytar, leiðsögufólk, bílstjórar og fleiri.“
Eva María bætir við að þó Pink Iceland einblíni á hinsegin markhópinn þá vinni þau með öllum sem deila þeirra gildum og eru gott fólk.
„Það stendur bæði á heimasíðunni okkar og hurðinni inn á skrifstofuna okkar að við vinnum með mannréttindi að leiðarljósi. Við hlustum á gestina okkar og mætum þeim á þeirra forsendum. Það er lykillinn og er virkilega mikilvægt fyrir okkur sem fyrirtæki í þessum geira,“ segir hún að lokum.
Pink Iceland
Ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í brúðkaupum og hinsegin ferðum til Íslands.
Vinsældir þeirra hafa aukist á undanförnum árum.
Eru ein sinnar tegundar á markaðnum.
Veita persónulega þjónustu.
Reksturinn hefur gengið vel.