Danska knattspyrnufélagið FC Köbenhavn skýrði frá því í gær að tilboð hefði borist í íslenska landsliðsmanninn Hákon Arnar Haraldsson og viðræður við umrætt félag væru í gangi.
Ekstra Bladet í Danmörku og L’Equipe í Frakklandi sögðu í framhaldi af því að um væri að ræða franska félagið Lille, en FCK hafnaði tilboði þaðan í Hákon fyrir skömmu. Talið er að það hafi numið 112 milljónum danskra króna, eða um 2,2 milljörðum íslenskra króna.
Til að setja það í samhengi við mynt sem mikið er vísað til í fótboltanum þá er þetta jafnvirði tæplega 13 milljóna punda.
Lille er eitt af bestu liðum Frakklands en félagið varð meistari árið 2021, skákaði þá óvænt stórliði París SG, og endaði í fimmta sæti á síðasta tímabili.
Miðað við þær tölur sem áður voru nefndar varðandi fyrra tilboð Lille í Hákon má áætla að nýtt tilboð sé nær 2,5 eða jafnvel þremur milljörðum króna.
Hákon er uppalinn hjá ÍA en þegar hann fór til FCK sextán ára gamall, árið 2019, var samið á þá leið að ÍA fengi hlut af kaupverði ef danska félagið myndi selja hann. Samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið hefur fengið er oft samið um 10 til 20 prósenta hlut í slíkum tilvikum.
Verði Hákon seldur á þrjá milljarða íslenskra króna gæti hlutur Skagamanna því orðið á bilinu 300 til 600 milljónir króna. Það yrði hæsta fjárhæð sem íslenskt knattspyrnufélag hefði nokkru sinni fengið vegna sölu á leikmanni.