BBC Kastljós breskra fjölmiðla beinist nú að breska ríkisútvarpinu.
BBC Kastljós breskra fjölmiðla beinist nú að breska ríkisútvarpinu. — AFP/Henry Nicholls
Greint var frá því í gær að Huw Edwards, helsti fréttaþulur breska ríkisútvarpsins BBC, væri sá sem hefði verið borinn þungum sökum um óviðeigandi samskipti í garð ungra einstaklinga. Vicky Flind, eiginkona Edwards, sendi í gær frá sér yfirlýsingu,…

Greint var frá því í gær að Huw Edwards, helsti fréttaþulur breska ríkisútvarpsins BBC, væri sá sem hefði verið borinn þungum sökum um óviðeigandi samskipti í garð ungra einstaklinga.

Vicky Flind, eiginkona Edwards, sendi í gær frá sér yfirlýsingu, þar sem þetta kom fram, og sagði hún að Edwards glímdi nú við alvarleg geðheilbrigðisvandamál, og að hann væri nú á sjúkrahúsi og yrði þar um „fyrirsjáanlega framtíð“.

Mál Edwards hefur vakið mikla athygli í Bretlandi, en breska slúðurblaðið The Sun birti á föstudaginn viðtal við móður einstaklings, sem sagði þjóðþekktan starfsmann BBC hafa borið fé á einstaklinginn þegar hann var á unglingsaldri í skiptum fyrir ljósmyndir af kynferðislegu tagi.

Átti Edwards, sem var ekki nafngreindur í fréttinni, að hafa greitt einstaklingnum um 35.000 sterlingspund á þriggja ára tímabili, eða sem nemur um sex milljónum króna fyrir myndirnar. Lögfræðingur einstaklingsins, sem nú er á lögaldri, bar ásakanirnar svo til baka og sagði ekkert standast í frásögn móðurinnar.

Neituðu að nafngreina hann

BBC ákvað að setja Edwards í leyfi vegna málsins á sunnudaginn en stjórn BBC neitaði að nafngreina hann með vísan til breskra laga um persónuvernd, sem aftur leiddi til þess að sumir af þekktustu fjölmiðlamönnum fyrirtækisins stigu fram til að neita því að þeir væru sá sem málið snerist um.

Málið vatt hins vegar upp á sig í gær, þegar þrjár ásakanir til viðbótar komu fram á hendur Edwards, sem enn hafði ekki verið nafngreindur. Átti Edwards í einu tilfellinu að hafa hótað einstaklingi á þrítugsaldri þegar sá vildi ekki hitta hann en þeir höfðu kynnst í gegnum stefnumótaforrit.

Í öðru tilfelli, sem The Sun greindi einnig frá, var hann sakaður um að hafa brotið gegn þágildandi sóttvarnarreglum til þess að hitta 23 ára gamlan einstakling á heimili viðkomandi. Átti Edwards að hafa borgað viðkomandi og óskað eftir ljósmyndum.

Hann var einnig sakaður um að hafa sent fjórða einstaklingnum skilaboð yfir netið, en sá var 17 ára gamall þegar samskipti þeirra hófust. Átti Edwards að hafa sent viðkomandi skilaboð að fyrra bragði, en sá fylgdi honum á samfélagsmiðlum. Sagði einstaklingurinn við The Sun að sér þætti skilaboðin nú eftir á að hyggja vera fremur ógeðfelld, þar sem fjölmiðlamaðurinn hefði m.a. sent hjörtu og kossa í tjákn-formi.

Samskipti þeirra yfir Instagram hefðu hins vegar verið bundin við forritið og sagðist viðkomandi hafa stöku sinnum rætt við fjölmiðlamanninn. Sagðist hann jafnframt vera í áfalli, þar sem um væri að ræða „nafn sem allir myndu treysta“ í Bretlandi.

Málið hafði einnig valdið titringi innan BBC meðal starfsfólks og skoraði Jeremy Vine, einn þekktasti útvarpsmaður Bretlands, í gærmorgun á Edwards, sem hafði þá ekki verið nafngreindur, að stíga fram, m.a. til að koma í veg fyrir að BBC biði frekari álitshnekki.