Frumkvöðlar Hópurinn á leið til keppni í Istanbúl í Tyrklandi.
Frumkvöðlar Hópurinn á leið til keppni í Istanbúl í Tyrklandi. — Ljósmynd/Aðsend
Nýsköpunarfyrirtækið Nómína, sem samanstendur af fimm nemendum úr Verzlunarskólanum, keppir nú í Evrópukeppni JA sem fram fer í Istanbúl. „Nómína er smáforrit sem á að hjálpa þér að lesa og skilja launaseðlinn þinn,“ segir Orri Einarsson, framkvæmdastjóri Nómína, í samtali við Morgunblaðið

Nýsköpunarfyrirtækið Nómína, sem samanstendur af fimm nemendum úr Verzlunarskólanum, keppir nú í Evrópukeppni JA sem fram fer í Istanbúl.

„Nómína er smáforrit sem á að hjálpa þér að lesa og skilja launaseðlinn þinn,“ segir Orri Einarsson, framkvæmdastjóri Nómína, í samtali við Morgunblaðið.

Nómína vann JA Iceland-keppnina fyrr á árinu. JA stendur fyrir Junior Achievement, sem eru alþjóðasamtök sem vinna meðal annars að því að kenna nemendum frumkvöðlafræði. Evrópukeppnin er einn stærsti frumkvöðlaviðburður í Evrópu, segir Halla Sigrún Mathiesen, stjórnarformaður JA Iceland.

Um 40 lið taka þátt í keppninni en Nómína hefur strax verið tilnefnt í efstu fimm sæti í flokknum „Good Year Brand Excellence Award“. Spurður út í hvað felist í því segir Orri að það sé viðurkenning á því að búið sé að markaðssetja appið vel, búa til góðan grunn fyrir uppsetninguna á því hvaða ímynd félagið vilji skila til viðskiptavina og að viðskiptaáætlunin gangi upp. „Við erum mjög sátt við það,“ bætir Orri við. „Mórallinn er mjög góður. Við erum í ákveðnu spennufalli í dag, þar sem við vorum að klára stóra kynningu fyrir framan allan mannfjöldann,“ segir Orri og að þau séu sátt með það hvert þau eru komin í keppninni.

Spurður hver lykillinn væri að því að ná langt í keppninni sagði Orri liðsheildina skipta mestu máli. „Gott skipulag fyrir verkefni og stífar æfingar,“ segir hann. „Við erum búin að vera saman í bekk í þrjú ár, búin að vinna oft saman og þekkjum því vel inn á hvert annað.“