Holtsgata/Brekkustígur Fyrir miðri mynd er húsið Holtsgata 10 og hægra megin, á bak við tréð, má sjá Brekkustíg 16. Áformað er að rífa bæði þessi hús.
Holtsgata/Brekkustígur Fyrir miðri mynd er húsið Holtsgata 10 og hægra megin, á bak við tréð, má sjá Brekkustíg 16. Áformað er að rífa bæði þessi hús. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auglýst hefur verið tillaga að deiliskipulagi lóða á horni Holtsgötu og Brekkustígs. Á lóðunum standa tvö gömul hús sem verða rifin og stærri hús byggð í staðinn. Annað húsanna er ónýtt af völdum veggjatítlu

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Auglýst hefur verið tillaga að deiliskipulagi lóða á horni Holtsgötu og Brekkustígs. Á lóðunum standa tvö gömul hús sem verða rifin og stærri hús byggð í staðinn. Annað húsanna er ónýtt af völdum veggjatítlu. Nú eru á reitnum fimm íbúðir, alls 862 fermetrar, en verða eftir uppbyggingu 15 talsins, alls 1.790 fermetrar. Þar sem lóðirnar eru í grónu hverfi í Vesturbænum má búast við því að ekki verði allir sáttir við þessa breytingar eins og þær athugasemdir gefa til kynna, sem borist hafa nú þegar.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. maí 2023 og borgarstjórnar Reykjavíkur 20. júní 2023 var samþykkt að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið. Fólk getur kynnt sé tillöguna á skipulagsgatt.is og er athugasemdafrestur til 15. ágúst nk.

Fram kemur í greinargerð að með deiliskipulagstillögunni sé leitast við að mæta þeim markmiðum sem sett eru fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra þróun, fjölbreytt framboð íbúða á þéttingarsvæðum ásamt aukinni áherslu á vistvænar samgöngur.

Byggðin verði heildstæð

Uppbygging verði á lóðunum Holtsgötu 10, 12 og Brekkustíg 16 og myndi lóðirnar þrjár eina skipulagsheild. Minjastofnun hafi fallist á niðurrif húsa á lóðunum Holtsgötu 10 og Brekkustíg 16 vegna lélegs ástands. Þá gefist jafnframt kostur á að móta heildstæða byggð sem tekur tillit til mynsturs aðliggjandi byggðar og er til þess fallin að stuðla að fjölbreyttu mannlífi ásamt því að samnýta dvalarsvæði á lóðunum og bæta aðkomu að inngarði frá Holtsgötu.

Í húsakönnun, sem unnin var af Borgarsögusafni Reykjavíkur 2021, segir m.a. um þennan hluta Vesturbæjar: „Byggðin á reitnum einkennist að mestu af sambyggðum röðum steinsteyptra húsa sem flest voru byggð á 3. og 4. áratugi 20. aldar eftir skipulagshugmyndum sem ríktu á þeim tíma og gerðu ráð fyrir randbyggð meðfram flestum götum bæjarins. Slík hús, flest tvær til þrjár hæðir með risi, raða sér meðfram þremur af fjórum götum sem afmarka reitinn sem hér um ræðir, meðfram Holtsgötu, Framnesvegi og Öldugötu. Yngri hús sem bæst hafa við byggðina á seinni áratugum 20. aldar hafa verið byggð í samræmi við þessar hugmyndir og fylla upp í randbyggðina, en endurspegla í stíl og útliti seinni tíma húsagerðir.“

Randbyggð einkennist af sambyggðum húsum fast upp við götu með húsagörðum á bak við.

Í húsakönnun segir ennfremur: „Húsið við Holtsgötu 10 (Sæmundarhlíð-innskot) er timburhús byggt árið 1904 en stækkað til vesturs 1912 og inngönguskúr byggður við norðurhlið. 1939 var gluggum breytt og húsið múrhúðað og er það þannig í núverandi mynd. Árið 1965 var skúr bætt við á lóð. Samkvæmt húsakönnun hefur húsið hátt varðveislugildi en hefur verið úrskurðað ónýtt vegna veggjatítlu.

Húsið við Brekkustíg 16 er steinsteypt og var upphaflega einlyft og byggt árið 1925. Húsið var seinna lengt og inngönguskúr og bílskúr bætt við á lóð. Árið 1974 var húsið hækkað um eina hæð, svölum bætt við og gluggum breytt ásamt innra skipulagi. Þannig stendur húsið í núverandi mynd. Samkvæmt húsakönnun hefur húsið miðlungs varðveislugildi.“

Í skýrslu Borgarsögusafns segir að reiturinn sem lóðirnar eru hluti af sé sundurleitur við horn Holtsgötu og Brekkustígs. Með deiliskipulaginu sé leitast við að klára randbyggðina við reitinn, sem afmarkast af Holtsgötu, Framnesvegi, Öldugötu og Brekkustíg. „Með uppbyggingu á reitnum myndast heildstæðari götumynd gagnvart Brekkustíg og Holtsgötu og garðar húsanna sem snúa inn á reitinn njóta meira skjóls.“

Engin almenn bílastæði verða innan lóðanna þriggja.

Athugasemdir berast

Í gær höfðu borist þrjár athugasemdir einstaklinga við tillöguna í Skipulagsgáttina. Þar er lagst gegn hugmyndum um stærri hús, frekar ætti að endurreisa húsin í sömu mynd. „Inni í rótgrónu hverfi er áætlað að byggja 15 íbúðir sem tekur 18 til 24 mánuði að byggja með tilheyrandi raski, hávaða, þrengslum etc.“ segir í einni athugasemdinni. Þetta sé ekki í boði. „Það er mitt álit að hérna sé verið að tala um virkilega íþyngjandi framkvæmdir og þunga framtíðarsýn á hverfinu.“

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson