Hringtorgin í Grafarvogi hafa vakið verðskuldaða athygli. Þau minna helst á litla lystigarða og er þeim einstaklega vel haldið við. Frá þessu segir á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Dagbjört Kristín Ágústsdóttir og Guðfinna Albertsdóttir, flokksstjórar hjá garðyrkju Reykjavíkurborgar, eiga heiðurinn af umhirðu hringtorganna ásamt ungmennum í sumarstörfum. Hönnunin var að miklu leyti í höndum Gunnars Olgeirssonar, yfirverkstjóra hjá garðyrkjunni og Benedikts heitins Jónssonar garðyrkjufræðings.
Haft er eftir Dagbjörtu að hönnunin fái að halda sér á milli ára enda sé um sannkölluð listaverk að ræða. Það sé um að gera að láta það sem vel er gert halda sér.
Blómin eru frekar sein til í ár vegna slæmrar tíðar en torgin eru engu að síður glæsileg og íbúar láta ánægju sína vel í ljós, segir Dagbjört. Þeir séu alltaf að stoppa og hrósa garðyrkjufólkinu fyrir störf sín og það gefi því svo mikið. „Okkur þykir mjög vænt um það,“ segir Dagbjört að lokum.
sisi@mbl.is