Evrópa
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Í kvöld er röðin komin að Víkingi og KA að leika fyrstu leiki sína á Evrópumótum karla á þessu sumri en bæði liðin leika í fyrstu umferð Sambandsdeildar Evrópu.
Víkingar eru staddir í Lettlandi þar sem þeir mæta hinu öfluga liði Riga FC en KA-menn halda til í Úlfarsárdal í Reykjavík þar sem þeir taka á móti Connah’s Quay Nomads frá Wales á Framvellinum.
Völlur KA-manna er ekki löglegur í Evrópukeppni og því þurftu þeir að leita á náðir Framara með heimavöll í keppninni.
Evrópureynsla hjá Riga
Ljóst er að verkefni Víkinga er mun erfiðara. Riga hefur náð góðum árangri í Sambandsdeildinni undanfarin tvö ár og komist í 3. og 4. umferð hennar en liðið missti af sæti í riðlakeppninni síðasta haust eftir tap í framlengingu í fjórðu umferðinni.
Liðið hefur unnið sjö af tólf leikjum sínum í keppninni á þessum tveimur árum og sigraði bæði Derry City frá Írlandi og Ruzomberok frá Slóvakíu í báðum leikjum á síðasta sumri. Þá gerði liðið jafntefli við Gil Vicente frá Portúgal á heimavelli.
Riga er á toppi úrvalsdeildarinnar í Lettlandi og hefur aðeins tapað einu sinni í 22 leikjum á yfirstandandi tímabili. Leikmannahópur félagsins er fjölþjóðlegur en af 21 leikmanni sem er skráður í keppnina hjá UEFA eru 12 erlendir leikmenn, m.a. frá Brasilíu, Spáni, Frakklandi, Króatíu, Serbíu og Gana.
Fimm leikmanna liðsins voru í landsliðshópi Letta sem mætti Tyrklandi og Armeníu í undankeppni EM í júní.
Aldrei tapað gegn Wales
KA-menn ættu að eiga talsvert meiri möguleika en Víkingar á að komast áfram í 2. umferð keppninnar. Íslensk félög hafa aldrei tapað fyrir liðum frá Wales í Evrópukeppni og farið áfram í öll fimm skiptin sem lið þjóðanna hafa mæst.
Síðast í fyrra voru það Víkingar sem unnu The New Saints 2:0 á heimavelli og gerðu jafntefli, 0:0, í Wales.
Connah’s Quay Nomads hafnaði í öðru sæti velsku úrvalsdeildarinnar sem lauk í vor, 22 stigum á eftir meisturum The New Saints. Þetta er atvinnulið sem varð velskur meistari 2020 og 2021 og bikarmeistari 2018.
Liðið hefur leikið 18 Evrópuleiki frá 2016 en aldrei komist lengra en í 2. umferð. Því hefur þó tekist að slá út Stabæk frá Noregi og Kilmarnock frá Skotlandi með óvæntum útisigrum árin 2016 og 2019 og vann Pristhtina frá Kósóvó 4:2 á heimavelli sumarið 2021 en tapaði útileiknum 1:4 og komst ekki áfram.
Leikmenn Connah’s Quay eru flestir frá Wales og Englandi en einn Portúgali og einn Ástrali eru í hópnum sem skráður er fyrir leikinn hjá UEFA.
Connah’s Quay er frá samnefndum 17 þúsund manna bæ á landamærum Wales og Englands, aðeins 30 kílómetrum sunnan við Liverpool. Heimavöllurinn er í nágrannabænum Flint.