Nýr Suðurlandsvegur Opnað var fyrir umferð um veginn fyrr í sumar en daglega aka nær 11.000 bílar um veginn.
Nýr Suðurlandsvegur Opnað var fyrir umferð um veginn fyrr í sumar en daglega aka nær 11.000 bílar um veginn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is Suðurlandsvegur milli Hveragerðis og Selfoss var formlega opnaður þann 25. maí á þessu ári, fjórum mánuðum á undan áætlun. Um helgina birtust fréttir af fólki sem setið hafði fast í umferðarteppu á þessum slóðum og gefist upp á biðinni þar sem fjöldi ökumanna stytti sér leið þvert yfir vegstæði til að komast á sveitaveg skammt frá Suðurlandsvegi. Að sögn sjónarvotta hafði löng röð bíla myndast og umferðin gekk hægt.

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Suðurlandsvegur milli Hveragerðis og Selfoss var formlega opnaður þann 25. maí á þessu ári, fjórum mánuðum á undan áætlun. Um helgina birtust fréttir af fólki sem setið hafði fast í umferðarteppu á þessum slóðum og gefist upp á biðinni þar sem fjöldi ökumanna stytti sér leið þvert yfir vegstæði til að komast á sveitaveg skammt frá Suðurlandsvegi. Að sögn sjónarvotta hafði löng röð bíla myndast og umferðin gekk hægt.

Teppan kom ekki til vegna Suðurlandsvegar

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir að vegurinn í núverandi mynd eigi að geta annað umferð allt að 15.000 bíla á sólarhring og því hafi umferðarteppan ekki verið vegna vegarins heldur vegna teppu sem myndaðist á Ölfusárbrúnni.

„Þetta er 2+1 vegur en hann er byggður sem 2+2. Það var gengið frá honum sem 2+1 sem þýðir að það er afmarkað vegstæði og unnin grunnfylling fyrir 2+2 veg en síðan er gengið frá akreinunum sem 2+1. Það vantar efsta burðarlag og malbik á þessar tvær viðbótarakreinar en þær eru þarna þegar vegurinn hættir að anna því sem hann gerir í dag,“ segir Bergþóra og bætir við að gert sé því ráð fyrir að hægt verði að tvöfalda veginn í framtíðinni.

Hefði engu breytt að hafa veginn tvöfaldan núna

„Þessi vegur annar alveg 15.000 bílum og meira en það. Þessi stífla sem myndaðist er ekki tilkomin vegna Suðurlandsvegar, það er brúin á Selfossi sem er tappinn,“ ítrekar Bergþóra.

Spurð að því hvort ekki hefði verið æskilegra að hafa tvöfaldað Suðurlandsveginn strax á þessum vegarkafla segir Bergþóra það engu hafa breytt.

„Tappinn er þarna fyrir framan. Nú veit maður hins vegar aldrei í þessum miklu sviptingum sem við lifum við hvernig næstu tíu ár verða en vegurinn annar mjög vel þeirri umferð sem er á honum og er áætluð næstu tíu til fimmtán, tuttugu árin. Hann er hugsaður þannig af því þetta er svæði sem er í gríðarlegri uppbyggingu. Það hefur verið mikil fjölgun í Þorlákshöfn, Hveragerði og Árborg, miklir fólksflutningar og miklar breytingar. Þannig að vegurinn er hugsaður þannig að það sé hægt að auka afkastagetu hans tiltölulega auðveldlega. Vegurinn verður væntanlega aldrei meira en 2+2 en hann getur orðið það.“

Ný brú yfir Ölfusá hönnuð með stækkun í huga

Ný brú yfir Ölfusá utan við Selfoss er komin í útboðsferli og hafa tilboð í samkeppnisútboði vegna brúarinnar ásamt aðliggjandi vegum, vegamótum, brúm og undirgöngum verið opnuð. Markmiðið með framkvæmdunum er að auka umferðarrýmd, aðskilja akstursstefnur og bæta umferðaröryggi.

Bergþóra segir, að brúin sé einnig hugsuð sem 2+2 vegur en áætlað sé að framkvæmdum við brúna verði lokið í ársbyrjun 2027. Þá er einnig gert ráð fyrir að hægt verði að breyta henni, líkt og Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss, þegar hún hættir að anna umferð.

„Fyrsta kastið er hugmyndin að nota eina akrein fyrir hjól og gangandi en svo er gert ráð fyrir því að hægt sé að byggja utan á hana göngu- og hjólabrú ef sú stund rennur upp að það verði ekki nóg,“ segir Bergþóra. „Það fer svolítið eftir því hvernig okkur gengur en við erum í útboðsferli á þessu ári og vonumst til að ljúka við samninga í kringum áramótin. Svo verður það bara að koma í ljós.“

Slysatíðni var hærri í byrjun þessarar aldar en hefur haldist stöðug síðustu ár

Vitleysa að víravegrið séu verri en önnur

Á vefsíðu Vegagerðarinnar kemur fram að á þessum kafla Suðurlandsvegar hafi orðið einna flest slys á vegum landsins. Þó hafi slysatíðni haldist nokkuð stöðug síðustu ár en því beri að þakka auknum öryggisaðgerðum. Þá þykja vegrið hafa sannað gildi sitt en eru þau hættuleg?

„Það getur jú verið hættulegt að keyra á vegrið en ég get fullyrt að þau eru aldrei sett upp nema talið sé að við séum að auka öryggið með því,“ segir Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður Vegagerðarinnar. „Það hefur verið lögð mjög mikil áhersla á að breikka vegi og aðgreina akstursstefnur til að koma í veg fyrir slys en við værum ekki að leggja áherslu á þetta ef við teldum að vegrið væru hættuleg. Oft hefur verið talað um að vírarnir í vegriðunum séu eins og ostaskeri en það er algjör þjóðsaga.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir