Maður sem varð fyrir því að eldur kviknaði í bíl hans eftir að kveikt hafði verið í flugeldi inni í bílnum á rétt á fullum bótum úr kaskótryggingu bílsins.
Í janúar 2022 sprakk flugeldur í bifreið með þeim afleiðingum að eldur kom upp í bifreiðinni. Hafði vinur eiganda bílsins kveikt í flugeldi inni í bílnum og ætlaði að kasta honum rakleiðis út, en ekki tókst nægilega vel til.
Í kjölfar atviksins gerði eigandi bílsins kröfu um greiðslu fullra bóta vegna tjóns á bifreiðinni og vísaði til þess að félagi sinn hefði verið með flugeld fyrir utan bifreiðina og að ætlun hans hefði ekki verið sú að kveikja í bifreiðinni. Tryggingafélagið hafnaði bótaskyldu.
Að mati úrskurðarnefndar í vátryggingamálum gat tryggingafélagið ekki takmarkað ábyrgð sína í málinu nema að fyrir lægi að háttsemi eiganda bílsins hefði verið þannig að hann, með stórkostlegu gáleysi, hefði valdið tjóni á bifreið sinni, eða vanrækt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt tjón vegna yfirvofandi hættu. Þá hefði háttsemi vinarins, sem kveikti í flugeldinum, sjálfstæða þýðingu og er því ekki hægt að draga eigandann til ábyrgðar. Loks kemur fram í úrskurðinum að ekki sé hægt að ráða með fullri vissu af gögnum hvort eigandi bílsins hafi af gáleysi eða ásetningi valdið atvikinu sjálfur eða vanrækt að gera ráðstafanir til þess að hindra gjörðir vinar síns.