Urður Egilsdóttir
Anna Rún Frímannsdóttir
Engin leið er að meta hversu lengi eldgosið við Litla-Hrút á eftir að standa, að sögn Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings og Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
„Það getur enginn sagt til um það enda er þetta eitt af því sem við vitum ekki. Það er mjög margt vitað um þetta en ekki hvernig það mun þróast. Það er ekkert í mæligögnum sem getur sagt okkur til um það,“ segir Páll.
Eldgosið náði hámarki um klukkan 21 á mánudag og síðan þá hefur verulega dregið úr því. Magnús Tumi segir að staðan síðustu tvo sólarhringa hafi verið svipuð. „Gosið virðist ekki vera að breytast mikið og hraunstraumurinn rennur til suðurs og stefnir í átt að Meradölum. Það virðist vera nokkuð stöðug virkni.“
Magnús Tumi segir afar ólíklegt að hraunið flæði yfir innviði. Margir kílómetrar séu í næsta ljósleiðara og Suðurstrandarveg.
„Það er býsna langur vegur þangað, sjö til níu kílómetrar allavega þangað niður eftir. Flest hraun á skaganum eru miklu styttri en það. Þetta eru ekki mjög stór gos á Reykjanesskaganum.“ Þá segir hann að gerð varnargarða hafi ekki komið til tals enn sem komið er.
Fyrstu mælingar
Fyrstu mælingar jarðvísindamanna hjá Jarðvísindastofnun HÍ, sem gerðar voru á þriðjudag, voru birtar í gærkvöldi. Þar kom fram að hámarki gossins hafi verið náð á mánudagskvöld. Var það töluvert öflugra en byrjunarfasi gossins í ágúst í fyrra og margfalt meira hraunrennsli en í upphafsfasa gossins 2021. Aðfaranótt 11. júlí færðist virknin að mestu á einn gíg norðan við miðbik sprungunnar. Er mælingar vísindamannanna voru gerðar síðdegis 11. júlí, um 25 tímum eftir að gosið hófst, var rúmmál hraunsins 1,7 milljón rúmmetrar, sem samsvarar því að meðalhraunflæði þessa 25 tíma hafi verið um 18-20 m3/s. Efnasamsetning hraunsins er af svipaðri gerð og hraunsins sem kom upp í lok gossins 2021 og gossins 2022.