Vigdís Häsler
Vigdís Häsler
Ýmsar framfarir eru fyrirsjáanlegar á næstu árum í landbúnaði sem munu hafa jákvæð áhrif á kolefnisfótsporið.

Vigdís Häsler

Í framtíðarsýn landbúnaðarstefnu til ársins 2040 sem samþykkt var á Alþingi í vor eru sett ýmis markmið sem mikilvægt er að höfð séu í huga. Sem dæmi má nefna að tekið er fram í stefnunni að landnotkun utan þéttbýlis feli í sér vernd góðs landbúnaðarlands. Í allri umræðu um loftslagsvá og umhverfismál þarf að horfa á hlutina í alþjóðlegu samhengi. Að sjálfsögðu er það skylda okkar Íslendinga sem hluta af alþjóðasamfélaginu að rækta land bæði til beinnar matvælaframleiðslu og fóðurframleiðslu og framleiða þannig heilnæmar landbúnaðarafurðir. Loftslagsumræðan má ekki stjórnast af tölunum einum saman heldur verður að vera skynsemi í allri nálgun þannig að horft sé heildstætt á málin út frá raunverulegu kolefnisfótspori og þeirri grundvallarforsendu að allir íbúar heimsins fái mat að borða.

Það getur einfaldlega ekki gengið að fylgja þeirri stefnu að útvista matvælaframleiðslu þjóðarinnar, enda felur það í sér að fæðuöryggi okkar er ógnað auk þeirrar staðreyndar sem Íslendingar eru í kjörstöðu til að framleiða heilnæm matvæli með lágu kolefnisfótspori. Eins og útreikningarnir í losunarkerfunum eru í dag þá væri hagstætt að ryðja regnskóga í Brasilíu og flytja öll matvæli sem þörf er á hérlendis hingað frá því svæði, með tilheyrandi óþarfri og gengdarlausri losun gróðurhúsalofttegunda og óæskilegum umhverfisáhrifum annars staðar í heiminum. Landbúnaðarstefnan boðar þá nálgun að Ísland verði í fremstu röð, með sjálfbærni og góða umgengni við landið okkar að leiðarljósi og sé virkur þátttakandi í framleiðslu heilnæmra landbúnaðarafurða.

Til þess að Ísland geti verið á þessum stað þá verður að vernda gott landbúnaðarland. Það er staðreynd að Ísland er hentugt til að rækta túngrös og þær aðstæður eigum við að nýta okkur. Akuryrkja getur einnig orðið verulega umfangsmeiri þegar horft er til framtíðar, verði aðgengi tryggt að landbúnaðarlandi. En hvað þarf að gera til að svo megi verða? Fyrst og síðast eru það sveitarfélögin sem bera ábyrgð á skipulagsmálum og þau þurfa í sínu aðalskipulagi að ákveða hvað sé landbúnaðarland, og innan þess svæðis hvar sé gott ræktunarland, mögulegt ræktunarland og svæði sem eru heppileg til skógræktar. Líklega þurfa bæði stofnanir og Alþingi að koma að þessari vinnu til að hún verði samræmd á landinu, en þó er vel hægt að hefja hana með þeim tólum sem til taks eru nú þegar.

Loftslagsumræðan má ekki verða til þess að búa til skortstöðu á matvælamarkaði. Ýmsar framfarir eru fyrirsjáanlegar á næstu árum í framleiðslu landbúnaðarafurða sem munu hafa jákvæð áhrif á kolefnisfótsporið en í því samhengi má nefna að allt bendir til þess að kjötframleiðsla verði á pari við akuryrkju innan fárra ára varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Þá má ekki gleyma því að íslenskir bændur hafa á síðustu áratugum náð ótrúlegum framförum í afurðasemi búfénaðar sem hefur haft afar jákvæð áhrif á losunartölur landbúnaðarins. Einnig hafa bændur síðustu áratuga verið frumkvöðlar í landgræðslu og þannig tekið virkan þátt í að snúa við þróun sem fyrri kynslóðir allt aftur til landnema báru ábyrgð á.

Eins og skýrt kemur fram í þeim drögum sem birt hafa verið af norrænum næringarráðleggingum þá er fjölbreytt fæða lykillinn að góðri heilsu en í því felst að borða mjólk, kjöt, egg, grænmeti og kornvörur. Því allt eru þetta mikilvægar fæðutegundir sem allar hafa sína sérstöðu varðandi innihald nauðsynlegra vítamína, steinefna og annarra lífsnauðsynlegra næringarefna.

Innlend landbúnaðarframleiðsla er einfaldlega eitt besta framlag Íslands til loftslagsmála.

Höfundur er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Höf.: Vigdís Häsler