Rut Arnarsdóttir fæddist á Selfossi 28. janúar 1977. Hún lést í Reykjavík 24. júní 2023.
Foreldrar hennar eru hjónin Arnar Brynjólfsson framkvæmdastjóri, f. 17.1. 1956, og Hildur Björnsdóttir fjármálastjóri, f. 28.2. 1959. Systkini Rutar eru Eva Arnarsdóttir fjármálahagfræðingur, f. 10.11. 1978, og Björn Bragi Arnarsson sjónvarpsmaður, f. 4.7. 1984.
Börn Rutar eru: Saga Dögg Þrastardóttir, nemi við HR, f. 19.6. 1996, faðir hennar er Þröstur Sigurðsson, Arnar Páll Ólafsson, f. 12.10. 2005, og Hildur Elín Ólafsdóttir, f. 6.7. 2007, d. 6.9. 2021. Faðir þeirra er Ólafur Egilsson.
Rut ólst upp með foreldrum sínum og systkinum í Árbænum. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1997. Rut hóf nám við Flugskóla Íslands 16 ára gömul og lauk einkaflugmannsprófi ári síðar, þá sú yngsta á landinu til þess. Hún útskrifaðist úr Lögregluskóla ríkisins árið 2002 og starfaði við löggæslu um margra ára skeið og vann jafnframt við sjúkraflutninga. Rut gegndi ýmsum fleiri störfum og starfaði meðal annars sem læknaritari og á lögmannsstofu.
Útför Rutar fer fram frá Lindakirkju í dag, 13. júlí 2023, klukkan 15.
Núna ertu horfin til austursins eilífa, elsku fallega, sterka og úrræðagóða dóttir okkar. Við trúum því að þar njótir þú friðar og samvista við þá sem þú elskaðir svo heitt en mikið óstjórnlega söknum við þín sárt. Það er ólýsanlega erfitt að þú sért farin frá okkur og börnunum þínum sem elska þig svo mikið. En þegar hatrammur sjúkdómur hellist yfir þá fær maður litlu breytt um framgang mála.
Þú varst frumburðurinn okkar og mikið hlökkuðum við til að þú kæmir í heiminn. Svo varstu allt í einu komin, ótrúlega falleg, hraust og heilbrigð stelpa. Það er pabba ævinlega dýrmæt og falleg minning þegar þú tæplega tveggja ára varst ein heima með mömmu, slæma óveðursnótt um jólaleyti. Pabbi var að berjast í íslensku vetrarveðri af verstu gerð yfir Hellisheiðina á Selfoss. Mamma hafði staðið með þig út við glugga, horft út í sortann og sungið: „Ó pabbi komdu heim um jólin.“ Þá fórst þú að syngja: „Ó pabbi heim Rut.“
Þú varst yndislegt barn. Hafðir mikinn áhuga á öllu og spurðir mikið. Við ungu foreldrarnir áttum stundum fullt í fangi með að svara öllum þeim spurningum sem leituðu á lítinn barnshuga. Þá var ekki internetið til að afla sér upplýsinga. Þú varst mjög fljót að læra að lesa og lestur átti eftir að vera stór þáttur í lífi þínu. Þú varst alltaf mjög heitfeng og það var oft erfitt að halda þér í fötunum fyrstu árin, þrátt fyrir að mamma og pabbi reyndu allt til þess, svo sem að binda fyrir ermar og skálmar, en það dugði skammt. Þessi innri hlýja hélt svo áfram þegar þú fórst að vaða og synda í köldu vatni eða ganga berfætt í möl og úfnu grjóti. Þessi hlýja kom líka vel í ljós í hjartagæsku og umhyggju fyrir öllu í kringum þig.
Þú hafðir mikinn innri styrk sem birtist ekki síður í erfiðum aðstæðum. Þar hélst þú ró þinni og sýndir frumkvæði og útsjónarsemi til þess að leysa úr erfiðum málum. Þú gast fundið réttu leiðirnar svo að allt færi eins vel og kostur var. Það kom jafnvel fyrir að þú varst á ferð sem venjulegur vegfarandi og umferðin komin öll í hnút. Þá stökkst þú bara út úr bílnum þínum og tókst að þér umferðarstjórn á staðnum.
Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um þig, elsku hjartans dóttir okkar. Þú veiktist af mjög erfiðum sjúkdómi og fyrir tæpum tveimur árum varðst þú fyrir slíku áfalli að vart er hægt að ímynda sér erfiðari reynslu. Við þetta áfall ágerðist sjúkdómur þinn hratt og áttir þú ekki afturkvæmt eftir það.
Við elskum þig endalaust mikið og söknum þín óbærilega. Við ætlum að halda minningu þinni á lofti með reisn og af virðingu og við munum alltaf vera til staðar fyrir börnin þín.
Hvíl í friði, elsku dóttir okkar.
Mamma og pabbi.